Ég heyrði í fréttum í morgun, föstudag, að Viðreisn myndi leggja til þá breytingu við stjórnarskrártillögur forsætisráðherra, að EÐLILEGT (leturbreyting mín) veiðileyfagjaldi verði greitt fyrir afnotarétt af fiskveiðiauðlindinni. Sama heyrði ég Kristrúnu Frostadóttur frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík segja sem sína skoðun í viðtali um hagfræðileg málefni á Útvarpi Sögu. En hvað er EÐLILEGT VEIÐILEYFAGJALD? Gjaldið, sem handhafar kvótans greiða nú til eigenda auðlindarinnar eða gjaldið, sem þeir sömu handhafar krefja aðra um að greiða leigi þeir kvóta frá sér til annara – en það leiguverð hefur numið talsvert á þriðja hundrað krónur fyrir þorskkílóið? EÐLILEGT veiðileyfagjald telur ríkisstjórnin vera það gjald, sem greitt er nú. Er Viðreisn sammála? Ef ekki, hvert telur hún þá eiga að vera „EÐLILEGT“ veiðileyfagjald – og hvernig á það að finna? Með því að spyrja Þorgerði Katrínu? Ef ekki, þá hvern?
Skýr stefnumörkun
Verið er að afgreiða stefnuskrá Samfylkingarinnar; skýrt og skilmerkilegt stefnuskjal. Þar er skýlaust krafist þess, að auðlindir á Íslandi, sem ekki hafa verið lýstar eign einhvers eða einhverra, verði lýstar þjóðareign. Um nýtingarrétt slíkra þjóðarauðlinda segir: „Að nýtingarréttur á náttúruauðlindum í þjóðareign sé TÍMABUNDINN (leturbreyting mín) og úthlutað gegn fullu gjaldi“. Um hvernig ákveða skuli fullt gjald segir: „Fullt gjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda má fá á sanngjarnan og gagnsæjan hátt með útboði á nýtingarrétti til takmarkaðs tíma í senn“. Hér er skýr og skilmerkileg stefna mótuð. Gjaldið á ekki að ákveða með því að spyrja Bjarna Benediktsson, Katrínu Jakobsdóttur, Þorgerði Katrínu – eða ónefndan hagfræðing- hvað þeim finnist. Nota á markaðslausnina þar sem aðilar sjálfir ákveða hvað eru tilbúnir til þess að greiða fyrir tímabundinn aðgang að auðlind í eigu annara. Skýrt og klárt. Stefna, sem allir frambjóðendur Samfylkingarinnar eiga að þekkja. Nema auðvitað sé svo, að þeir þekki þar best til sem aldrei hafa þar komið.
Höfundur var einn af stofnendum Samfylkingarinnar.