Auglýsing

For­svars­menn rík­is­stjórn­ar­innar stíga nú fram hver á fætur öðrum og tala upp árangur sinn í bar­átt­unni við efna­hags­legar afleið­ingar kór­ónu­veirunn­ar. Það er skilj­an­legt að þeir geri slíkt, enda stutt í kosn­ingar og þá eyða ráða­menn að jafn­aði tíma sínum í að tala upp eigin verk.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, vitn­aði nýverið á Face­book- síðu sinni í grein­ingu hags­muna­sam­taka til þess að selja þá hug­mynd að mik­ill meiri­hluti úrræða stjórn­valda hafi runnið til heim­ila. Ýmsir túlka þessa stöðu þó veru­lega öðru­vísi og færa fyrir því hald­bær rök.

Bjarni var líka til við­tals í frétt í Morg­un­blað­inu í vik­unni um að efna­hags­að­gerðir rík­is­stjórn­ar­innar hafi að mati meiri­hluta stjórn­enda ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja reynst gagn­leg­ar. Þetta telur Bjarni að feli í sér það útbreidda álit að almennt sé ekki talin þörf á miklu meiri efna­hags­að­gerð­um. Hall­inn á rík­is­sjóði hafi ekki reynst jafn mik­ill og búist var við og því sé rík­is­stjórnin búin að bjarga mál­unum nú þeg­ar.

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra skrif­aði grein í Kjarn­ann í vik­unni þar sem sam­bæri­legt sjálfs­hól var á boðstól­um. Sam­dráttur á lands­fram­leiðslu hafi ekki verið nema 6,6 pró­sent og að það sé við­brögðum stjórn­valda og Seðla­banka Íslands að þakka. „Halli rík­­is­­sjóðs er umfangs­­mik­ill ­vegna þess að við tókum þá póli­­tísku ákvörðun að fara ekki ein­­göngu í sér­­tækar stuðn­­ings­að­­gerðir heldur verja alla sam­­fé­lags­­lega inn­­viði; að beita ekki nið­­ur­­skurði heldur verja vel­­ferð­ina og afkomu fólks og tryggja þannig að áfram verði jöfn­uður mik­ill á Ísland­i,“ skrif­aði Katrín. 

Ásmundur Einar Daða­son, félags- og barna­mála­ráð­herra, fylgdi í kjöl­farið og fjall­aði um yfir­vof­andi átak rík­is­stjórn­ar­innar í atvinnu­málum sem á að skapa sjö þús­und störf, og er blanda af þegar fram komnum úrræðum og nýjum sem bein­ast að mestu að þeim sem hafa verið atvinnu­lausir í meira en eitt ár. Það er talið kosta 4,5-5 millj­arða króna. 

Atvinnu­leysi og verð­bólga

Það er þó hætt við því að fólkið sem verður mest fyrir efna­hags­lega barð­inu á far­aldr­in­um, þeir sem misstu atvinnu og hafa lækkað veru­lega í fram­færslu, taki ekki undir það að rík­is­stjórnin hafi gripið til nægj­an­legra aðgerða til að verja vel­ferð­ina og jöfn­uð­inn í land­inu.

Staðan á Íslandi er nefni­lega sú að hér mælist 12,5 pró­sent atvinnu­leysi og hér eru 25.683 án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Lang­flest­ir, 21.352, eru atvinnu­lausir að öllu leyti. Af þeim hafa 12.761 verið atvinnu­lausir í meira en hálft ár, en í þeim hópi hefur fjölgað um 8.941 á einu ári. 

Hér er líka 4,1 pró­sent verð­bólga, sem er það mesta sem mælist á meðal þró­aðra ríkja. Á manna­máli þýðir það að verðið á hlut­unum sem við kaupum bólgn­ar. Það sem kost­aði ákveðna upp­hæð fyrir ári ­kostar meira í dag. 

Auglýsing
Stór breyta í þessu er ell­efu pró­sent veik­ing krón­unnar í fyrra, sem hækk­aði verð á inn­fluttri vöru. Verð­bólga bitnar mest á þeim sem þurfa að eyða öllum sínum pen­ingum í að lifa af, en síður á þeim sem eiga eign­ir. 

Ef þú ert einn þeirra 25.683 sem eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta – eða hluti af nán­ustu fjöl­skyldu þeirra – og hefur upp­lifað mikla kjara­skerð­ingu, þá er aukin verð­bólga tvö­föld refs­ing. Tekj­urnar drag­ast saman og verð á nauð­synja­vöru hækk­ar. 

Það sjá auð­vitað allir sem vilja að ef met atvinnu­leysi rík­ir, og verð­bólga er umtals­verð – ef fjórð­ungur launa­fólks og helm­ingur atvinnu­lausra á erfitt með að láta enda ná saman – þá hefur rík­is­stjórn ekki náð góðum árangri í efna­hags­málum fyrir alla lands­menn. Það er ekki verið að tryggja að „jöfn­uður verði áfram mik­ill hér á landi“ eða verja að öllu leyti vel­ferð­ina.

Gildir þar einu á hversu margan máta leið­togar hennar reyna að selja okkur hið gagn­stæða. 

Lítið gert fyrir tap­ara

Sér­tækar efna­hags­að­gerðir íslenska rík­is­ins hafa verið afar mildar í nær öllum eðli­legum sam­an­burði, þrátt fyrir að umbúð­irnar hafi verið íburð­ar­mikl­ar. Og þær hafa að mestu beinst að fyr­ir­tækjum í ferða­þjón­ustu eða þeim heim­ilum sem eiga eign­ir, hafa haldið störfum í gegnum far­ald­ur­inn og hafa getað unnið heima. 

Hlutafé og eigið fé eig­enda ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja hefur verið varið og pen­ingum hefur verið dælt til hinna betur settu. Þeir sem eiga fast­eignir sáu þær hækka um 7,7 pró­sent í fyrra. Þeir sem eiga hluta­bréf hafa séð þau hækka um tæp 80 pró­sent á einu ári. Og svo fram­veg­is. Ef þú átt eitt­hvað, þá græðir þú á krepp­unni. Ef þú átt ekki neitt og hefur orðið fyrir kjara­skerð­ingu, þá ertu í tap­ara­lið­in­u. 

Í sumum til­fellum hefur hluti þess hóps hrein­lega verið nýttur til tekju­öfl­un­ar. Ein af COVID-19 aðgerðum rík­is­stjórn­ar­innar var að heim­ila fólki að taka út sér­eign­ar­sparn­að­inn sinn tíma­bundið til að takast á við fjár­hags­erf­ið­leika og eiga fyrir reikn­ing­um. Þeir sem hafa tekið út sér­eign­ar­sparnað und­an­farið ár hafa greitt yfir níu millj­arða króna í skatta af hon­um. Þeir sem hafa nýtt sér­eign­ar­sparnað til að borga niður hús­næð­is­lánið sitt und­an­farin tæp sjö ár, í aðgerð sem er kennd við leið­rétt­ingu, hafa hins vegar fengið 21 millj­arð króna í skatta­af­slátt.

Báðir hóp­arnir eru að gera það sama, að nýta sér­eign­ar­sparn­að. Ann­ar, sem er ekki að mynda eign né ávöxtun heldur að lifa af, er lát­inn borga skatta af því. Hinn, sem er að mynda eign og ávaxta virði hennar á hverju ári (íbúða­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur hækkað um 77 pró­sent frá því að úrræðið var kynnt til leiks), þarf ekki að borga skatta. 

Meiri tekjur og minni fjár­fest­ing

Halli rík­is­sjóðs reynd­ist mun minni í fyrra en áætlað var í októ­ber, þegar rík­is­stjórnin áætl­aði hann 269,2 millj­arða króna. Á end­anum var hann 201 millj­arðar króna, eða 545 þús­und krónur á hvern lif­andi Íslend­ing, að með­töldum hinum sjálf­virku sveiflu­jöfn­urum (auk­inn kostn­aður vegna til dæmis atvinnu­leys­is­bóta og lægri tekjur vegna minnk­andi skatt­heimt­u). Til sam­an­burðar má nefna að þeir þrír pakkar sem sam­þykktir hafa verið í Banda­ríkj­un­um, sem seint verður kallað nor­rænt vel­ferð­ar­ríki með áherslu á jöfn­uð, eru metnir á 1,8 millj­ónir íslenskra króna á hvern lif­andi íbúa. Þar er svo framundan inn­viða­fjár­fest­ing á skala sem er svo stór að erfitt er að ná höfð­inu utan um töl­urn­ar.

Ástæður þess að svona miklu skeik­aði í rík­is­fjár­mál­unum hér var að tekjur á Íslandi reynd­ust ein­fald­lega miklu hærri en lagt var upp með, aðal­lega vegna við­spyrnu­þróttar þeirra heim­ila (heim­ilin bættu á sig 200 millj­örðum króna af skuldum og eyddu 200 millj­örðum krónum sem þau eyddu erlendis árið 2019 inn­an­lands í fyrra) og fyr­ir­tækja sem urðu ekki fyrir beinum nei­kvæðum efna­hags­á­hrifum af kór­ónu­veirunni.

Fjár­fest­ingar hins opin­bera voru hins vegar langt undir áætlun, sér­stak­lega hjá stórum rík­is­stofn­unum og fyr­ir­tækjum á borð við Vega­gerð­ina, Nýja Lands­spít­al­ann og Isa­via. Rétt við­brögð við þeim mikla slaka sem skap­að­ist í efna­hags­líf­inu á síð­asta ári hefðu verið að ráð­ast hratt í mik­il­væga inn­viða­upp­bygg­ing­u. 

Það má alveg segja það fullum fetum að síð­asta ár fór efna­hags­lega betur að mestu þrátt fyrir aðgerð­ar­leysi stjórn­valda, ekki vegna aðgerða þeirra. 

Landið opnað vegna póli­tískra hags­muna

Í þessu sam­hengi verður að skoða ákvörðun stjórn­valda um að opna landið fyrir ferða­mönnum frá 1. maí, löngu áður en bólu­setn­ing mun skapa hjarð­ó­næmi hjá Íslend­ing­um, og það að ráð­ast í aug­lýs­inga­her­ferð erlendis til að draga sem flesta ferða­menn hingað í sum­ar. Sitj­andi rík­is­stjórn veðj­aði nefni­lega hús­inu á að ferða­þjón­ustan myndi bjarga mál­unum hér. Og tengdi þá við­spyrnu þar með við póli­tíska fram­tíð sína.

Til­kynnt var um það 24. júlí í fyrra að kosið yrði næst til þings seint í sept­em­ber 2021. Áður hafði for­sæt­is­ráð­herra ekki úti­lokað að kosið yrði að vori, likt og hefð er fyrir hér­lend­is. Rík­is­stjórnin hafði tekið ákvörðun um að opna landa­mærin fyrir ferða­mönnum um miðjan júní 2020 og fram að yfir­lýs­ingu for­sæt­is­ráð­herra um kosn­ingar hafði allt gengið vel. 

Það er eig­in­lega ómögu­legt að draga aðra ályktun en þá að ákvörð­unin um tíma­setn­ingu kosn­inga hafi verið tekin með von um að hér yrði mikil efna­hags­leg við­spyrna þegar kæmi inn á árið 2021 vegna vaxtar í ferða­þjón­ustu sem myndi skila því að atvinnu­leysi yrði mun minna þegar kosið yrði um haust­ið. Og fjölga fyrir vikið atkvæðum greiddum stjórn­ar­flokk­unum þrem­ur.

Auglýsing
Svo hafa hlut­irnir þró­ast öðru­vísi. Um miðjan ágúst 2020 komu tveir franskir ferða­menn hingað með veiruna á ný, brutu sótt­varna­reglur og önnur alvar­leg bylgja smita hófst með til­heyr­andi tak­mörk­unum á dag­legt líf íbúa mán­uðum sam­an. Bólu­setn­ing hefur gengið hægar en stefnt var að, far­ald­ur­inn hefur tekið sig upp í nýjum bylgjum ann­ars­staðar í heim­in­um, skæð­ari afbrigði hennar eru orðin að veru­leika og svo virð­ist sem ein­hverjar líkur séu á því að bólu­settir geti borið með sér smit milli landa. 

Það hljóta allir að vera sam­mála um að það séu ekki skyn­sam­leg heil­brigð­is­rök til staðar fyrir því að opna landa­mærin upp á gátt fyrir bólu­settum áður en við sjálf erum nægj­an­lega bólu­sett. Þá er málum blandið hvort þau séu efna­hags­lega vit­ræn vegna þeirrar áhættu sem fylgir opn­un.

En allir geta verið sam­mála um að á bak­við ákvörð­un­ina hvíla sterk póli­tísk rök. Stjórn­ar­flokk­arnir þurfa betri árangur fyrir kosn­ing­ar. 

Ávinn­ingur og tap

Sú heil­brigð­is­á­hætta sem verið er að skapa end­ur­spegl­ast í orðum Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­lækn­is, sem sagð­ist í vik­unni hafa áhyggjur af ákvörð­unum stjórn­valda um að hvetja til til­efn­is­lausra ferða hingað til lands. Hann benti líka á að frá því að fólk þurfti að skila inn PCR vott­orðum eða prófum til að kom­ast inn í landið hafa 30 af þeim 34 sem greinst hafa með virkt smit skilað inn nei­kvæðu PCR vott­orði. Og af þessum 34 greind­ist helm­ingur í fyrri skimun og helm­ingur í seinni skim­un. 

Í fyrra var sá efna­hags­legi fórn­ar­kostn­aður sem fylgir opnun landamæra ekki met­inn áður en tekið var í gikk­inn. Gylfi Zoega, pró­fessor í hag­fræði, birti grein í Vís­bend­ingu í ágúst þar sem hann færði hag­fræði­leg rök fyrir því að stjórn­völd hefðu gert mis­tök með því að opna landa­mæri Íslands frek­ar. „Með ákvörð­unum sínum um opnun lands­ins hafa stjórn­­völd stefnt mik­il­vægum almanna­­gæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efna­hag lands­ins einnig stefnt í hætt­u.“ Hann reynd­ist hafa rétt fyrir sér að öllu leyti.

Þegar mat var loks­ins fram­kvæmt á hver ávinn­ingur af því að forð­ast harðar sótt­varna­að­gerðir væri kom í ljós að hann hljóp á hund­ruðum millj­arða króna.

Gylfi skrif­aði aðra grein í Vís­bend­ingu sem birt­ist í síð­asta mán­uði. Þar sagði hann að hægt væri að halda því fram að best sé að hafa hóf­legar en sem stöðugastar sótt­varnir innan lands þangað til þjóðin hefur verið bólu­sett sem minnki líkur á að far­sóttin fær­ist í auk­ana. „Stöð­ug­leiki hjálpar ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum að aðlaga sig að þeim reglum sem í gildi eru. Til­slak­anir sem verða til þess að far­sótt breið­ist út á ný sem kallar síðan á harð­ari aðgerðir eru ekki skyn­sam­legar vegna þess að harðar aðgerðir bitna illa á efna­hags­líf­in­u.“

Það að opna landa­mæri fyrir öllum bólu­sett­um, og auka þar með veru­lega lík­urnar á því að smit taki sig aftur upp hér inn­an­lands, skapar ekki góð skil­yrði fyrir stöð­ug­leika.

Við höfum haft það betra en nær allir aðrir

Ísland hefur lifað við lúxus COVID-19. Sótt­varn­ar­yf­ir­völd hafa verið skyn­söm og nán­ast öll þjóðin hefur stutt aðgerðir þeirra. Heil­brigð­is­kerf­ið, og fólkið sem vinnur innan þess, hefur verð­skuldað unnið sér inn traust og aðdá­un. Það að vera fámenn og rík eyja út í ball­ar­hafi með eina gátt inn í landið hefur líka hjálpað veru­lega að hemja óværuna. 

Fyrir vikið höfum við haft miklu meiri lífs­gæði og frelsi en flest önnur lönd í heim­inum á kór­ónu­veiru­tím­um. Skólar og leik­skólar hafa verið meira og minna opn­ir. Flest fólk hefur getað stundað vinnu á vinnu­stað sínum þorra síð­ast­lið­ins árs í ein­hverju formi. Við getum ferð­ast um land­ið. Farið á veit­inga­staði, bari, í leik­hús, kvik­mynda­hús og tón­leika. Hist í stærri hóp­um. Og efna­hags­lega fór þetta allt miklu betur en sér­fræð­ing­arnir í spá­gerð töldu.

Önnur lönd eru að bólu­setja til að öðl­ast það frelsi og þau lífs­gæði sem við erum þegar með. Ísra­el­ar, sem eru lengst komnir með bólu­setn­ing­ar, eru til að mynda nýbyrj­aðir að heim­ila bólu­settum að mæta á nokkur hund­ruð manna tón­leika. Joe Biden, for­seti Banda­ríkj­anna, tal­aði í ræðu fyrir viku síðan um að ef bólu­setn­ing gengi vel næstu mán­uði myndi 4. júlí, þjóð­há­tíð­ar­dagur Banda­ríkj­anna, verða dagur sjálf­stæðis frá veirunni. Í þeirri yfir­lýs­ingu var hann samt ekki að tala um að þar í landi yrðu haldnar tug­þús­unda manna skrúð­göngur eða að hvetja lands­menn sína til að hoppa upp í næstu flug­vél, heldur að þá væri hægt að heim­ila smærri hópum að hitt­ast. 

En við? Við ætlum að galopna landa­mærin okkar fyrir þeim sem fram­vísa mótefna- og bólu­setn­ing­ar­vott­orðum áður en við erum komin nálægt því að bólu­setja nægj­an­legt magn íslensku þjóð­ar­innar til að öðl­ast hjarð­ó­næmi. 

Dragið úr áhættu á eigin hegðun

Rík­is­stjórnin telur þetta rétt­læt­an­legan mögu­legan fórn­ar­kostnað – að auka mögu­leika þess að fá aðra bylgju smita veru­lega – til að geta opnað landið fyrir ferða­mönnum fyrir kosn­ing­ar. Eðli­legt skref í átt að frelsi segja ráð­herr­arn­ir, án þess að minn­ast á að mögu­lega er núver­andi frelsi und­ir.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra skrif­aði grein í Morg­un­blaðið í vik­unni þar sem hún varði og rök­studdi þessa ákvörð­un. Þar stóð meðal ann­ars: „Við verðum að velta því fyrir okkur hvert og eitt, sem ekki verðum bólu­sett þegar landið opnast, hver ábyrgð okkar sjálfra er við að draga úr áhættu á eigin hegð­un.“ 

Þetta segir ráð­herra sem deilir flokki með tveimur ráð­herrum sem hafa farið gegn sótt­varna­ráð­stöf­unum á síð­ast­liðnum mán­uðum án þess að hafa þurft að axla nokkra ábyrgð á þeim gjörðum sín­um.

Skila­boð rík­is­stjórn­ar­innar eru sam­kvæmt þessu eft­ir­far­andi: Það er ekki ákvörðun okkar um að opna landa­mærin sem er áhættan í þess­ari breytu, heldur það hvernig þið lands­menn hagið ykkur í kjöl­far­ið. Við ætlum að skapa aðstæður fyrir hættu til að koma ferða­þjón­ustu af stað, en það er ykkar að verða ekki fyrir henn­i. 

Það er ekki víst að þetta klikki, en það getur samt gerst

Von­andi fer þetta allt vel. Von­andi tekst ferða­þjón­ust­unni að ná vopnum sín­um. Von­andi minnkar atvinnu­leysið hratt. Von­andi tekst okkur að forð­ast aðra bylgju og von­andi náum við, og heim­ur­inn all­ur, að bólu­setja okkur í eðli­leg­heit sem fyrst. Undir eru miklir heil­brigð­is- og efna­hags­legir hags­mun­ir. 

En við skulum líka vera hrein­skil­in. Kalla hlut­ina það sem þeir heita. Það að reyna að flýta bata­ferl­inu með opnun landamæra og aug­lýs­inga­her­ferðum erlend­is, og leggja fyrir vikið alla ofan­greinda hags­muni í aukna hættu, er ekk­ert annað en póli­tísk ákvörðun rík­is­stjórnar sem er að sjá að upp­haf­lega leik­á­ætlun sín gekk ekki að öllu leyti upp. 

Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort póli­tískt veð­mál þeirra með heil­brigði okkar og efna­hag gangi upp eða ekki. Svo vitnað sé aftur í skrif Gylfa Zoega í síð­asta mán­uði: „Stjórn­mála­menn sem grípa til óvin­sælla en nauð­syn­legra aðgerða sem síðar kemur í ljós að hafi verið far­sælar fá góða dóma sög­unn­ar. Hið sama á við um emb­ætt­is­menn sem slá í borðið og gera það sem rétt er og ein­stak­linga í sam­fé­lag­inu sem sýna hug­rekki. Þeir sem fara með straumnum gleym­ast með straumn­um.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rannsóknarskipið Hákon krónprins við rannsóknir í Norður-Íshafi.
Ískyggilegar niðurstöður úr Norður-Íshafi
Lífríkið undir ísnum í Norður-Íshafinu er ekki það sem vísindamenn áttu von á. Í nýrri rannsókn kom í ljós að vistkerfið einkennist ekki af tegundum sem helst einkenna hin köldu heimskautasvæði.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Ingrid Kuhlman
Tölum um dauðann
Kjarninn 17. ágúst 2022
Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram drög að nýjum heildarlögum um tónlist. Stofna á Tónlistarmiðstöð, sjálfseignarstofnun sem á að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og rekin með svipuðum hætti og Íslandsstofa.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Í sumar hafa tugir borga í Kína lýst yfir hættuástandi vegna hita.
Verksmiðjum lokað og mikill uppskerubrestur blasir við
Hitabylgja sumarsins hefur haft gríðarleg áhrif á stórum landsvæðum í Kína. Rafmagn er skammtað og algjörum uppskerubresti hefur þegar verið lýst yfir á nokkrum svæðum.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Seðlabankinn mun kynna næstu stýrivaxtaákvörðun í næstu viku.
Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólgan sé við hámark nú um stundir en að hún muni hjaðna hægar. Í vor bjuggust þeir við að verðbólga eftir ár yrði fimm prósent en nú telja þeir að hún verði 5,8 prósent.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
Í Kjarafréttum Eflingar er lagt til að almenn laun hækki um 52.250 krónur á mánuði miðað við núverandi verðbólgu. Ríkið þurfi auk þess að koma að kjarasamningaborðinu með tug milljarða króna aðgerðir til að bæta stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Starfsmenn Hvals hf. komu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglunnar á Akranesi án þess að til húsleitaraðgerðar þyrfti að koma.
Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
Lögreglan á Akranesi fékk kvikmyndatökudróna sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af starfsmönnum svissnesks ríkisfjölmiðils afhentan og kom honum til eigenda sinna. Bæði drónaflugið og drónastuldurinn eru á borði lögreglunnar.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Suðurhringþokan mynduð af WEBB-sjónaukanum í tveimur ólíkum útfærslum.
2.000 ljósár á sextíu sekúndum
Þau sem dreymir um að ferðast um geiminn ættu ekki að láta nýtt myndband geimferðastofnana Bandaríkjanna og Evrópu framhjá sér fara. Á sextíu sekúndum er boðið upp á 2.000 ljósára ferðalag með hjálp hins magnaða WEBB-sjónauka.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari