Auglýsing

Í stöðuuppfærslu sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, setti á Facebook þann 8. mars, í byrjun kórónuveirufaraldursins, lagði hann fram kröfur sínar til almennings: „Í baráttunni gegn COVID-19 skiptir rétta hugarfarið öllu. Það er eingöngu með órjúfanlegri samstöðu sem okkur mun takast að lágmarka skaðann af þessum faraldri. Augljóst er að við getum bjargað mannslífum með einföldum aðgerðum: að nota handspritt, hætta alfarið handabandi og fara að fyrirmælum um sóttkví. Stöndum öll saman um þetta.“ 

Síðar í færslunni stóð: „Við erum að fást við bráðsmitandi veiru sem getur verið lífshættuleg einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma. Bóluefni er ekki á næsta leiti og nú þurfum við að treysta á ábyrga hegðun hvert annars til að hlífa þeim sem eru í mestri hættu [...] það þarf samstöðu allra til að ná árangri.“

„Þið eruð öll í þessu saman“

Á aðfangadagsmorgun opinberaði lögreglan að Bjarni hefði brotið samstöðuna með hegðun sinni og ákvörðunum kvöldið áður. „Við erum öll í þessu saman“ var orðið „þið eruð öll í þessu saman.“

Það daprasta við ákvörðun Bjarna um að brjóta sóttvarnareglur var að viðbrögðin, og eftirmálarnir, voru svo fyrirsjáanlegir. 

Það bjóst bókstaflega enginn við því að formaður Sjálfstæðisflokksins myndi þurfa að takast á við einhverjar pólitískar afleiðingar af gjörðum sínum. Ekki frekar en þegar það var opinberað að hann átti aflandsfélag í skattaskjóli, þegar hann stakk tveimur skýrslum um hitamál undir stól fram yfir kosningar, leyndi því að faðir hans hefði skrifað meðmælabréf fyrir uppreista æru kynferðisbrotamanns eða þegar hann ákvað að beita sér gegn því að Þorvaldur Gylfason fengi ritstjórastöðu hjá hagfræðiriti sem nær enginn hafði nokkru sinni heyrt um, svo nokkur dæmi séu nefnd. 

Mörg ofangreinda dæma höfðu pólitískar afleiðingar fyrir samstarfsflokka og -fólk Bjarna og Sjálfstæðisflokksins. Framsókn beið til að mynda afhroð eftir að Panamaskjölin voru opinberuð og klofnaði skömmu síðar. Björt framtíð þurrkaðist út eftir að hafa slitið ríkisstjórnarsamstarfi vegna uppreist æru-málsins. Viðreisn rétt lifði af.

En Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni stóðu heilir á eftir. 

Kann að vinna þegar hann tapar

Bjarni er oft kallaður teflon-maðurinn vegna þess að það festist ekkert við hann. Hann hristir öll hneykslis- og álitamál sem hann kemur sér í af sér eins og og steikingarpanna ýtir frá sér fitu.

Fyrir því eru nokkrar ástæður. 

Sú fyrsta er að innan flokksins sem hann stýrir – Sjálfstæðisflokksins – er hvorki menning né vilji fyrir því að láta fólk axla ábyrgð. Tilgangur flokksins er að stýra samfélaginu. Punktur. 

Einu skuldaskilin sem stjórnmálamenn þurfa að standa skil á eiga að vera í kosningum. Í þau tvö skipti sem ráðherrar flokksins hafa sagt af sér á undanförnum áratugum hefur það verið í kjölfar niðurstöðu dómstóla um að lögbrot hafi verið framin, annars vegar af aðstoðarmanni ráðherra og hins vegar af ráðherranum sjálfum. Í bæði skiptin dróst hin eðlilega afsögn óhóflega lengi vegna þess að áfram­hald­andi stjórn­mála­starf þess ein­stak­lings sem braut gegn trausti almenn­ings var talið mik­il­væg­ara en að almenn­ingur treysti stjórn­mál­um. 

Auglýsing
Önnur ástæðan er sú að Bjarni er afar fær stjórnmálamaður. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins í bráðum ellefu ár. Á þeim tíma hefur flokkurinn fengið fjórar af fimm verstu niðurstöðum í þingkosningum í sögu sinni. Fram til ársins 2009 hafði einn formaður Sjálfstæðisflokksins leitt hann í gegnum kosningar þar sem flokkurinn fékk undir 30 prósent atkvæða. Bjarni hefur gert það fjórum sinnum. Kannanir á þessu kjörtímabili benda til þess að nær öruggt er að fylgi flokksins verði undir því marki í næstu kosningum. Um tíma mældist það undir 20 prósent.  

Þrátt fyrir þetta hefur Bjarna tekist að vera valdamesti maður landsins sleitulaust frá árinu 2013. Það er pólitískt afrek. Honum tekst það sem klókum stjórnmálamönnum tekst, að vinna jafnvel þegar þeir tapa.

Samkomulag um að kyngja vilja Sjálfstæðisflokks

Það leiðir að þriðju ástæðunni. Helstu klókindi Bjarna felast í því að sannfæra aðra stjórnmálaleiðtoga um að það sé ekki hægt að stýra landinu án hans og Sjálfstæðisflokksins. 

Í þeim hrossakaupum er Bjarni í lykilstöðu til að gefa aðeins eftir hér og þar í skiptum fyrir það að kerfin sem flokkurinn hans og helstu valdafjölskyldur landsins hafa smíðað í sameiningu haldist nokkurn veginn eins og þau eru. 

Þetta er staða sem flestir Sjálfstæðismenn skilja, og þess vegna láta þeir litlar málamiðlanir yfir sig ganga. En þá er líka eins gott að hinir flokkarnir kyngi því sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ná fram. 

Það verð sem flokkar greiða fyrir það að ganga í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum er meðal annars að þeir verða að undirgangast áðurnefnda pólitísku menningu hans. Fyrir vikið hafa Vinstri græn tapað 55 prósent kjósenda sinna á yfirstandandi kjörtímabili og Framsóknarflokkurinn horfir mögulega fram á baráttu fyrir pólitísku lífi sínu í næstu kosningum samkvæmt stöðu hans í könnunum. 

En Sjálfstæðisflokkurinn siglir lygnan sjó. 

„Magnaður“ árangur þjóðar sem sýnir samkennd og ábyrgð

Það sá auðvitað enginn COVID-19 fyrir. Að í heiminum myndu skapast aðstæður þar sem allir þyrftu að færa einstaklingsbundnar fórnir til verja aðra. Frammistaða Íslendinga almennt við þessar aðstæður hefur verið ótrúleg. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði það „magnað“ í viðtali við Kjarnann hvað nær allir hafi fylgt þeim takmörkunum sem sóttvarnayfirvöld hafa beðið um að sé fylgt til að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins og heilbrigðiskerfið fyrir fyrir álagi. Ekki ferðast. Ekki hitta vini. Ekki hitta ættingja. Haldið tveggja metra fjarlægð. Verið með grímur. Sprittið ykkur. Sýnið ábyrgð. 

Takið heildarhagsmuni, og hagsmuni annarra hópa, fram yfir eigin vilja og sér­tæka hags­muni. Hagið ykkur eins og siðlegt samfélag. 

Það er gríðarlega mikilvægt við svona aðstæður að þeir sem setja reglurnar, eða eru í framlínu þess að framfylgja reglunum, fari eftir þeim. Upp hafa komið aðstæður þar sem þeir hafa ekki gert það. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins varð uppvís af því í sumar. Yfirlögregluþjóninn sem við áttum öll að hlýða fór líka gegn þeim fyrir nokkrum vikum. 

Og á Þorláksmessu gerði einn af þremur leiðtogum ríkisstjórnarinnar sem tekur ákvarðanir um að takmarka frelsi okkar hinna, það líka.

Engin gríma, með allt of mörgum að virða ekki fjarlægðartakmörk

Jólin eru mörgum erfið við þær aðstæður sem eru uppi. Fólk getur ekki hitt veika ættingja sína. Foreldrar þurfa að gera upp á milli barna sinna til að uppfylla „jólakúluskilyrðin“. Margir þurfa að horfa á jarðarfarir ástvina á YouTube. Tugir þúsunda hafa misst vinnuna, rekstraraðilar hafa tapað lífsviðurværinu og fjölmargir eru uppfullir af kvíða og vanlíðan. En fólk almennt hlýðir þeim reglum sem settar eru. Vegna þess að það upplifir sig sem hluta af heild, getur sett sig í spor annarra og sér gildi þeirrar samstöðu sem kallað er eftir.

Bjarni Benediktsson fór á listasýningu eftir að hún lokaði, en auglýst hafði verið að sýningin stæði til klukkan 22. Lögreglan segir að starfsemi salarins hefði átt að vera lokuð þegar hún var kölluð til og því var um samkvæmi utan opnunartíma að ræða. Þar voru, samkvæmt lögreglu, 40-50 manns sem er langt umfram það sem sóttvarnir kalla á og heimild var fyrir. 

Í dagbók lögreglunnar á aðfangadag sagði: „Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum.“

Auglýsing
Bjarni var ekki með grímu á stað þar sem enginn annar var með grímu, samkvæmt lögreglu. Hann var staddur í samkvæmi þar sem fjarlægðartakmörk voru hvergi virt, samkvæmt lögreglu. Í samkvæmi þar sem reglur um aðgengi að sprittbrúsum voru ekki í samræmi við reglur, samkvæmt lögreglu. Í fréttaskýringu Vísis um málið kemur fram að lögreglan kom ekki í Ásmundarsal fyrr en klukkan 22:50, eða 50 mínútum eftir að sýningunni sem er í salnum átti að vera lokið samkvæmt auglýstum opnunartíma. 

Á sama tíma fer Bjarni, ásamt tveimur öðrum, fyrir ríkisstjórn sem krefst þess að almenningur færi fórnir sem Bjarni Benediktsson er ekki tilbúinn að færa. 

Of mikilvægur til að segja af sér

Bjarni hefur beðist afsökunar. Í þeirri afsökunarbeiðni kemur fram að hann telur sig fórnarlamb aðstæðna. Það gerðist bara skyndilega að svona margt fólk var mætt á staðinn og hann áttaði sig ekki á því fyrr en of seint. Í því felast mistök hans.

Í viðtali við Vísi sagði Bjarni að þessi hegðun hans kallaði ekki á afsögn. Til þess væri hann of mikilvægur. Þá væri líka stutt í kosningar og þar geti fólk sagt sína skoðun á honum. „Við erum í miðju verki við að reisa efna­hag okkar við og vinna bug á þessum far­aldri og mér finnst þetta mál ekki vera til­efni fyrir mig til þess að stíga frá því verki. Það er ein­fald­lega of stórt og mikið verk­efni til þess að klára.“

Í gær snerist athyglin svo af hátterni ráðherrans og að vinnubrögðum lögreglunnar. Hún gerði eitthvað rangt vegna þess að hún sagði satt frá. Og það verður, að mati sumra, að hafa afleiðingar. Fyrir lögregluna.

Ekkert í þessum viðbrögðum kemur á óvart. Bjarni tapar enda varla atkvæði á hegðun sinni. Kjósendum hans líkar við sterka manninn sem þarf ekki að lúta sömu reglum og hann setur smælingjunum. Hælbítunum. Öfundarfólkinu. 

Og vélin í kringum hann fer nú að festa sig í aukaatriðum málsins til að draga athyglina frá aðalatriðinu. Þennan leik höfum við öll leikið svo oft áður. 

Setningarunur sem þýða ekkert

Þess vegna var strax beðið eftir viðbrögðum Katrínar Jakobsdóttur. Þannig er pólitísk menning okkar orðin. Það býst enginn við því að alþjóðlega hefðbundin viðmið um pólitíska ábyrgð eigi við um Sjálfstæðisflokkinn. Samstarfsaðilar flokksins sem gefa sig út fyrir að vera með hærri siðferðisþröskuld sitja þess í stað uppi með að svara fyrir hann, og taka pólitísku afleiðingunum. Sem er svipað og spyrja vinkonu brennuvargs af hverju hún stöðvi ekki allar þessar íkveikjur.

Dapurlegast er að ekkert í viðbrögðum hinna stjórnarleiðtoganna kom heldur neitt á óvart. Katrín Jakobsdóttir beið í sólarhring með að tjá sig og sagðist svo ekki gera kröfu um að Bjarni segði af sér. 

Svo sagði hún: „Svona atvik skaðar traustið á milli flokk­anna og gerir sam­starfið erf­ið­ara. Sér­stak­lega vegna þessa að við stöndum í stór­ræðum þessa dag­ana, hins vegar hefur sam­staðan innan stjórn­ar­innar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði málið óheppilegt en ekkert aðalatriði. „Aðalatriðið er að horfa á stóru myndina. Við þurfum að komast í gegnum þetta saman.“

Þessar setningarunur þýða í raun ekki neitt. Þær eru orðasalat sett saman til að slá ryki í augu almennings. Þær gefa í skyn afleiðingar án þess að nokkrar séu. Traust skaðast á milli flokka, en samstarf þeirra mun halda ótrautt áfram. Ekki horfa á mistök Bjarna, heldur óskilgreinda stóra mynd.  

Með öðrum orðum þá verður stjórnarsamstarfið algjörlega óbreytt.

Málið mun ekki hafa neinar afleiðingar vegna þess að Bjarni vill ekki að þetta hafi neinar afleiðingar. Hann er of stór til að bera ábyrgð. Þegar Bjarni gerir mistök þá er það samstarfsflokkanna að verja þau, og ganga um leið á pólitíska inneign sína. Það er þeirra hlutverk. 

Þeir kyngja. Bjarni sigrar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari