Mynd: Bára Huld Beck Bjarni og Katrín
Mynd: Bára Huld Beck

Hundruð milljarða mögulegur ávinningur af því að forðast harðar sóttvarnaaðgerðir

Stjórnvöld hafa lagt mat á efnahagsleg áhrif þess að opna landið og borið það saman við ábatann af því að hleypa ferðamönnum inn. Í minnisblaði ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í dag segir að „efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna“.

Frá því að tak­mörk­unum var lyft á landa­mærum Íslands um miðjan júní hafa um 70 þús­und ferða­menn komið til lands­ins auk um 45 þús­und íslenskra rík­is­borg­ara. Fram­lag hvers ferða­manns á hag­kerfið er metið á 100 til 120 þús­und krónur og því er áætlað að þeir ferða­menn sem hafa heim­sótt Ísland síð­ustu tvo mán­uði hafi lagt um átta millj­arða króna til efna­hags­lífs­ins á þeim tíma. Til sam­an­burðar getur útbreiðsla far­ald­urs­ins dregið úr neyslu inn­an­lands um tíu millj­arða króna, líkt og gerð­ist þegar sett var á hart sam­komu­bann hér­lendis í vor. 

Þetta kemur fram í minn­is­blaði sem var lagt fram í rík­is­stjórn í dag og var unnið að beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, og Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra vegna fyr­ir­hug­aðrar end­ur­skoð­unar á sótt­varna­ráð­stöf­unum á landa­mær­um. Í því eru viðruð efna­hags­leg sjón­ar­mið um áhrif harð­ari tak­mark­ana.

Þar er í fyrsta sinn lagt hag­rænt mat á kostnað þess að smit taki sig aftur upp sem leiði af sér harð­ari sótt­varn­ar­að­gerð­ir, en í fyrri sam­an­tekum stjórn­valda, ann­ars vegar skýrslu stýri­hóps sem stuðst var við þegar liðkað var fyrir frek­ari opnun landamæra og hins vegar grein­ar­gerð frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu frá því í byrjun júní, var fyrst og síð­ast fjallað um hver hag­ræn áhrif þess að opna landið frekar yrðu á ferða­þjón­ustu.

Auglýsing

Nið­ur­staðan virð­ist vera sú að efna­hags­legur kostn­aður þess að hafa landa­mærin opin sé meiri en ábat­inn sem það skapi fyrir ferða­þjón­ust­u. 

Á sama rík­is­stjórn­ar­fundi og minn­is­blaðið var lagt fram ákvað rík­­is­­stjórnin að eigi síðar en frá og með mið­viku­deg­inum 19. ágúst næst­kom­andi verði allir komu­far­þegar skimaðir tvisvar við kom­una til Íslands. 

Fyrri sýna­­taka verður á landa­­mærum, að því búnu ber komu­far­þegum að fara í sótt­­­kví í 4-5 daga þangað til nið­­ur­­staða er fengin úr seinni sýna­­töku. Börn fædd 2005 og síðar þurfa þó ekki að fara í skim­un. 

Með þeirri ákvörðun er verið að þrengja veru­lega að getu ferða­manna til að koma til Íslands.

Fluttum neyslu heim

Í minn­is­blað­inu segir að óvissa um horfur í ferða­þjón­ustu á heims­vísu næstu mán­uði sé alger. „Ógern­ingur er að spá fyrir um komur ferða­manna þegar aðstæður geta breyst veru­lega milli daga og því ekki gerð til­raun til þess hér. Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferða­manna í júlí ásamt árs­tíða­sveiflu í fjölda ferða­manna árið 2019 til að fram­reikna fjölda ferða­manna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferða­manna sem heim­sækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bil­inu 165 til 200 þús­und. Reyn­ist nauð­syn­legt að beita harð­ari sótt­varna­ráð­stöf­unum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar en draga veru­lega úr eða koma í veg fyrir komur ferða­manna gæti þjóð­ar­búið orðið af 20-24 mö.kr til árs­loka vegna minni umsvifa í ferða­þjón­ust­u.“

Á móti hafi Íslend­ingar flutt til lands­ins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlend­is, en korta­velta Íslend­inga hér á landi í júní óx um 13 millj­arða króna sam­an­borið við sama mánuð í fyrra. 

Í minn­is­blað­inu segir að nið­ur­staða rann­sóknar í Banda­ríkj­unum var sú að sam­fé­lags­legur kostn­aður af hverju COVID-19 smiti væri jafn­virði um 40 millj­óna króna á núver­andi gengi. „Efna­hags­legir hags­munir af því að kom­ast hjá hörðum sótt­varna­að­gerðum geta hlaupið á hund­ruðum millj­arða króna á árs­grund­velli. Mun meiri kostn­aður er af almennum sótt­varna­að­gerð­um, svo sem sam­komu­banni, en sér­tækum aðgerðum á borð við smitrakn­ingu og sótt­kví. Þegar far­ald­ur­inn stóð sem hæst var korta­velta Íslend­inga inn­an­lands um 10 millj­örðum króna minni á mán­uði en hún hefði verið án far­ald­urs­ins eða sem sam­svarar um fjögur pró­sent af lands­fram­leiðslu hvers mán­að­ar. Í mörgum Evr­ópu­löndum þar sem beitt var harð­ari aðgerðum en á Íslandi dróst lands­fram­leiðsla saman um 10-20 pró­sent á öðrum árs­fjórð­ung­i.“

Eðli­legt að greiða gjald til að mæta sam­fé­lags­legum kostn­aði

Í minn­is­blað­inu er einnig farið yfir að óefn­is­legur kostn­aður af því að far­ald­ur­inn geisi sé einnig veru­leg­ur. „Það er til dæmis lýj­andi að þurfa að búa við ótta við að veikjast, að lúta sótt­varna­reglum í langan tíma og geta ekki hitt vini og vanda­menn. Margir væru til­búnir að greiða háar fjár­hæðir fyrir að kom­ast hjá þessu ef það væri mögu­legt. Við stefnu­mótun ber að taka til­lit til þessa kostn­aðar ekki síður en beina efna­hags­lega kostn­að­ar­ins.“

Auglýsing

Helstu nið­ur­stöður sem fram eru settar í minn­is­blað­inu eru því þær að skimun á landa­mærum sé þjóð­hags­lega hag­kvæm í þeim skiln­ingi að skimunin virð­ist svara kostn­aði þar sem stórt hlut­fall smit­aðra er greindur og þeir sem ferð­ast valda sam­fé­lags­legum kostn­aði vegna smit­hættu. „Landamæra­skimunin hefur auk þess fæl­ing­ar­mátt gagn­vart ein­stak­lingum sem vita að þeir kunna að bera veiruna. Ferða­langar ættu að greiða allan kostnað við skim­un.“

Þá segir í nið­ur­stöðu­hluta minn­is­blaðs­ins að ef gera ætti breyt­ingar á landamæra­skimun nú þá virð­ast „hin hag­rænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröf­ur. Ef of langt er gengið í þeim efnum er ein­fald­ara að vinda ofan af þeim ákvörð­unum en að hemja útbreitt smit. Hvort rétta leiðin við smit­varnir á landa­mærum sé að hefja skimun allra sem hingað koma ásamt sér­tækri gjald­töku og stíf­ari kröfum fyrir þá sem hafa sterk sam­fé­lags­leg tengsl hér, hefja almenna tvö­falda skimun með sótt­kví eða beit­ing ein­hverra ann­arra úrræða ræðst fyrst og fremst að sótt­varn­ar­sjón­ar­miðum við núver­andi aðstæð­ur.“

Auk þess segir að rík hag­fræði­leg rök hnígi að því að þeir sem leggja í ferða­lög greiði sér­stak­lega fyrir þann sam­fé­lags­lega kostnað sem af þeim hljót­ast við núver­andi aðstæður til við­bótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæra­skim­un. Hag­ræn rök hnígi til þess að „gjald sé lagt á komur far­þega til að koma til móts við þann sam­fé­lags­lega kostnað sem fylgir hættu á að smit ber­ist til lands­ins við núver­andi aðstæður og end­ur­spegl­ast ekki í verð­lagn­ingu ferða­laga á mark­aði, en of lágt verð leiðir til óhag­kvæmrar áhættu­töku sem slíku gjaldi er falið að leið­rétta. Mark­mið gjalds­ins er því hlið­stætt mark­miði kolefn­is­gjalds sem ætlað er að draga úr kolefn­is­út­blæstri fremur en að fjár­magna rík­is­sjóð.“

Stjórn­völd gerðu mis­tök með því að opna landið

Gylfi Zoega, pró­­fessor í hag­fræði, gagn­rýndi ákvörðun stjórn­valda um að opna landið frekar í grein sem hann birti í nýjasta tölu­­blaði Vís­bend­ingar sem barst áskrif­endum í lok síð­ustu viku. 

Þar sagði hann að stjórn­­völd hefðu gert mis­tök með því að opna landið fyrir ferða­­mönnum um miðjan júní og ofmátu kosti þess að opna land­ið, en van­mátu þá hættu sem slík opnun skap­aði fyrir efna­hags­líf­ið. Ekki hafi verið gerð heild­­stæð athugun á efna­hags­­legum áhrifum opn­un­­ar­innar við und­ir­­bún­­ing henn­­ar. „Með ákvörð­unum sínum um opnun lands­ins hafa stjórn­­völd stefnt mik­il­vægum almanna­­gæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efna­hag lands­ins einnig stefnt í hætt­u.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar