Mynd: Bára Huld Beck Bjarni og Katrín

Hundruð milljarða mögulegur ávinningur af því að forðast harðar sóttvarnaaðgerðir

Stjórnvöld hafa lagt mat á efnahagsleg áhrif þess að opna landið og borið það saman við ábatann af því að hleypa ferðamönnum inn. Í minnisblaði ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í dag segir að „efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna“.

Frá því að takmörkunum var lyft á landamærum Íslands um miðjan júní hafa um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins auk um 45 þúsund íslenskra ríkisborgara. Framlag hvers ferðamanns á hagkerfið er metið á 100 til 120 þúsund krónur og því er áætlað að þeir ferðamenn sem hafa heimsótt Ísland síðustu tvo mánuði hafi lagt um átta milljarða króna til efnahagslífsins á þeim tíma. Til samanburðar getur útbreiðsla faraldursins dregið úr neyslu innanlands um tíu milljarða króna, líkt og gerðist þegar sett var á hart samkomubann hérlendis í vor. 

Þetta kemur fram í minnisblaði sem var lagt fram í ríkisstjórn í dag og var unnið að beiðni Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á sóttvarnaráðstöfunum á landamærum. Í því eru viðruð efnahagsleg sjónarmið um áhrif harðari takmarkana.

Þar er í fyrsta sinn lagt hagrænt mat á kostnað þess að smit taki sig aftur upp sem leiði af sér harðari sóttvarnaraðgerðir, en í fyrri samantekum stjórnvalda, annars vegar skýrslu stýrihóps sem stuðst var við þegar liðkað var fyrir frekari opnun landamæra og hins vegar greinargerð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá því í byrjun júní, var fyrst og síðast fjallað um hver hagræn áhrif þess að opna landið frekar yrðu á ferðaþjónustu.

Auglýsing

Niðurstaðan virðist vera sú að efnahagslegur kostnaður þess að hafa landamærin opin sé meiri en ábatinn sem það skapi fyrir ferðaþjónustu. 

Á sama ríkisstjórnarfundi og minnisblaðið var lagt fram ákvað rík­is­stjórnin að eigi síðar en frá og með mið­viku­deg­inum 19. ágúst næst­kom­andi verði allir komu­far­þegar skimaðir tvisvar við kom­una til Íslands. 

Fyrri sýna­taka verður á landa­mærum, að því búnu ber komu­far­þegum að fara í sótt­kví í 4-5 daga þangað til nið­ur­staða er fengin úr seinni sýna­töku. Börn fædd 2005 og síðar þurfa þó ekki að fara í skim­un. 

Með þeirri ákvörðun er verið að þrengja verulega að getu ferðamanna til að koma til Íslands.

Fluttum neyslu heim

Í minnisblaðinu segir að óvissa um horfur í ferðaþjónustu á heimsvísu næstu mánuði sé alger. „Ógerningur er að spá fyrir um komur ferðamanna þegar aðstæður geta breyst verulega milli daga og því ekki gerð tilraun til þess hér. Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna árið 2019 til að framreikna fjölda ferðamanna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund. Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar en draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu.“

Á móti hafi Íslendingar flutt til landsins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlendis, en kortavelta Íslendinga hér á landi í júní óx um 13 milljarða króna samanborið við sama mánuð í fyrra. 

Í minnisblaðinu segir að niðurstaða rannsóknar í Bandaríkjunum var sú að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi. „Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli. Mun meiri kostnaður er af almennum sóttvarnaaðgerðum, svo sem samkomubanni, en sértækum aðgerðum á borð við smitrakningu og sóttkví. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um fjögur prósent af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20 prósent á öðrum ársfjórðungi.“

Eðlilegt að greiða gjald til að mæta samfélagslegum kostnaði

Í minnisblaðinu er einnig farið yfir að óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi sé einnig verulegur. „Það er til dæmis lýjandi að þurfa að búa við ótta við að veikjast, að lúta sóttvarnareglum í langan tíma og geta ekki hitt vini og vandamenn. Margir væru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir að komast hjá þessu ef það væri mögulegt. Við stefnumótun ber að taka tillit til þessa kostnaðar ekki síður en beina efnahagslega kostnaðarins.“

Auglýsing

Helstu niðurstöður sem fram eru settar í minnisblaðinu eru því þær að skimun á landamærum sé þjóðhagslega hagkvæm í þeim skilningi að skimunin virðist svara kostnaði þar sem stórt hlutfall smitaðra er greindur og þeir sem ferðast valda samfélagslegum kostnaði vegna smithættu. „Landamæraskimunin hefur auk þess fælingarmátt gagnvart einstaklingum sem vita að þeir kunna að bera veiruna. Ferðalangar ættu að greiða allan kostnað við skimun.“

Þá segir í niðurstöðuhluta minnisblaðsins að ef gera ætti breytingar á landamæraskimun nú þá virðast „hin hagrænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröfur. Ef of langt er gengið í þeim efnum er einfaldara að vinda ofan af þeim ákvörðunum en að hemja útbreitt smit. Hvort rétta leiðin við smitvarnir á landamærum sé að hefja skimun allra sem hingað koma ásamt sértækri gjaldtöku og stífari kröfum fyrir þá sem hafa sterk samfélagsleg tengsl hér, hefja almenna tvöfalda skimun með sóttkví eða beiting einhverra annarra úrræða ræðst fyrst og fremst að sóttvarnarsjónarmiðum við núverandi aðstæður.“

Auk þess segir að rík hagfræðileg rök hnígi að því að þeir sem leggja í ferðalög greiði sérstaklega fyrir þann samfélagslega kostnað sem af þeim hljótast við núverandi aðstæður til viðbótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæraskimun. Hagræn rök hnígi til þess að „gjald sé lagt á komur farþega til að koma til móts við þann samfélagslega kostnað sem fylgir hættu á að smit berist til landsins við núverandi aðstæður og endurspeglast ekki í verðlagningu ferðalaga á markaði, en of lágt verð leiðir til óhagkvæmrar áhættutöku sem slíku gjaldi er falið að leiðrétta. Markmið gjaldsins er því hliðstætt markmiði kolefnisgjalds sem ætlað er að draga úr kolefnisútblæstri fremur en að fjármagna ríkissjóð.“

Stjórnvöld gerðu mistök með því að opna landið

Gylfi Zoega, pró­fessor í hag­fræði, gagnrýndi ákvörðun stjórnvalda um að opna landið frekar í grein sem hann birti í nýjasta tölu­blaði Vís­bend­ingar sem barst áskrif­endum í lok síðustu viku. 

Þar sagði hann að stjórn­völd hefðu gert mistök með því að opna landið fyrir ferða­mönnum um miðjan júní og ofmátu kosti þess að opna land­ið, en van­mátu þá hættu sem slík opnun skap­aði fyrir efna­hags­líf­ið. Ekki hafi verið gerð heild­stæð athugun á efna­hags­legum áhrifum opn­un­ar­innar við und­ir­bún­ing henn­ar. „Með ákvörð­unum sínum um opnun lands­ins hafa stjórn­völd stefnt mik­il­vægum almanna­gæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efna­hag lands­ins einnig stefnt í hætt­u.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar