Mynd: Aðsend Hrafnkell Á. Proppé og Lilja G. Karlsdóttir
Mynd: Aðsend

Ekkert bendir til að kostnaður við Borgarlínu sé vanmetinn

Að undanförnu hafa ýmsir fullyrt að Borgarlínan muni kosta mun meira en áætlanir frá 2017 segja til um, jafnvel að kostnaðurinn muni hlaupa á hundruðum milljarða. Það er þó ekkert sem bendir til þess að kostnaður hafi verið vanmetinn, segja forsvarsmenn Verkefnastofu Borgarlínu sem Kjarninn ræddi við í vikunni. Nýtt kostnaðarmat fyrir fyrsta áfanga Borgarlínu, sem verður 13 kílómetra sérrými fyrir strætisvagna svo þeir geti þotið framhjá annarri umferð, hljóðar upp á 17 milljarða króna.

Íbúar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu ættu að byrja að sjá þess veru­leg merki að Borg­ar­lína sé á leið­inni á síð­ari hluta árs 2022, að sögn þeirra Hrafn­kels Á. Proppé og Lilju G. Karls­dótt­ur, sem starfa saman hjá Verk­efna­stofu Borg­ar­línu. Þau segja ekk­ert benda til þess að sú kostn­að­ar­á­ætlun sem gerð var fyrir borg­ar­línu­verk­efnið árið 2017 og hljóðar upp á 63-70 millj­arða króna stofn­kostnað við kerfið fram til árs­ins 2040, stand­ist ekki í stórum drátt­um.

Kjarn­inn sett­ist niður með þeim í lið­inni viku og ræddi um stöðu og fram­gang borg­ar­línu­verk­efn­is­ins, sem hefur verið mikið í umræð­unni á und­an­förnum miss­er­um. Mjög oft fara þær umræður fram á þeim for­sendum að kostn­að­ur­inn við verk­efnið verði svo mik­ill að hann muni sliga sjóði sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Hrafn­kell, sem er for­svars­maður Verk­efna­stofu Borg­ar­línu, segir þó að þau sem komi að verk­efn­inu telji sig geta staðið keik og sagt að í dag sé ekk­ert sem bendi til þess að kostn­að­ur­inn verði af annarri stærð­argráðu en lagt var upp með í önd­verðu.

Nýlega urðu kafla­skil í verk­efn­inu hvað aðkomu rík­is­ins varð­ar, en með sam­þykkt á Alþingi um stofnun nýs félags í sam­eigu sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og ríkis og vil­yrði í 15 ára sam­göngu­á­ætlun rík­is­ins um að verja tæpum 50 millj­örðum króna í fram­kvæmdir við almenn­ings­sam­göngur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu fram til árs­ins 2034 eru áformin um Borg­ar­línu stað­reynd.

Það hefur þó ekki mikið farið fyrir því í opin­berri umræðu hvernig vinn­unni er að vinda fram. Það er kannski af því að umræðan um Borg­ar­lín­una hefur farið fram með tak­mark­aðri þátt­töku fag­fólks­ins sem lifir og hrær­ist í verk­efn­inu alla daga. Verk­efna­stofa Borg­ar­línu varð til snemma á árinu 2019 og það var í raun þá sem að hjólin fóru að snú­ast og fé fékkst til þess að byrja að vinna skipu­lags­vinn­una sem sam­göngu­fram­kvæmd af þess­ari stærð­argráðu fylgir fyrir alvöru.

Auglýsing

Nú er farið að glitta í afurðir af þeirri vinnu, en til­laga að mats­á­ætlun vegna mats á umhverf­is­á­hrifum vegna fyrsta áfanga Borg­ar­línu er þessa dag­ana í kynn­ingu hjá Skipu­lags­stofn­un. Frek­ari tíð­inda er svo að vænta á næst­unni, mögu­lega eftir mánuð eða svo, en þá verða frum­drög að hönnun fyrsta lotu Borg­ar­línu kynnt.

„Við byrj­uðum bara á und­ir­bún­ingnum og útfærsl­unni sjálfri síð­asta vor,“ segir Lilja, sem er sam­göngu­verk­fræð­ing­ur, og bætir við að á árunum þar á undan hafi verið búið að taka ákvarð­anir um það á vett­vangi Sam­taka sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (SSH) að ráð­ast í upp­bygg­ingu hágæða almenn­ings­sam­ganga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til þess að tengja kjarna þess saman og þróa fram­tíð­ar­upp­bygg­ing­u. 

Þetta varð nið­ur­stað­an, segir Hrafn­kell, eftir að sviðs­mynda­grein­ing á val­mögu­leikum varð­andi skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins til næstu ára­tuga sýndu glöggt fram á að það væri hag­kvæm­asti kost­ur­inn til þess að mæta auknum íbúa­fjölda án þess að álag á stofn­vega­kerfið yxi í sama mæli, með til­heyr­andi fjár­fest­ingu.

Fyrsti áfang­inn verð­met­inn á 17 millj­arða

Sem áður segir telja þau Hrafn­kell og Lilja ekk­ert liggja fyrir sem bendi til þess að stofn­kostn­aður við Borg­ar­línu, bygg­ingu sér­rýmis fyrir stræt­is­vagna, hafi verið van­met­inn í þeim áætl­unum sem gerðar hafa verið til þessa.

Kostn­að­ur­inn er met­inn sam­kvæmt íslenskum verð­bönkum og mið­aður að fullu við þær aðstæður sem eru á fram­kvæmda­svæð­inu. Ráð­ist hefur verið í end­ur­mat á kostn­aði við fyrsta áfanga Borg­ar­línu í tengslum við vinnslu frum­draga­skýrslu sem nú er að klár­ast. Þar var kostn­að­ur­inn við fyrstu 13 kíló­metrana met­inn á um 17 millj­arða, segir Hrafn­kell. 

„Ekk­ert í þeirri vinnu, sem er í allt annarri nákvæmni en fyrri kostn­að­ar­á­ætl­un, dregur það fram að kostn­að­ur­inn hafi verið mis­á­ætl­aður í eldri áætl­un. Við erum ennþá í stóru mynd­inni í kringum þessa 17 millj­arða sem gert var ráð fyrir að fyrsta lotan myndi kosta,“ segir Hrafn­kell. En það er samt ennþá óvissa, eins og er alltaf í öllum fram­kvæmdum sem eru ein­ungis komnar á þetta stig. Í dag er hún metin allt að 40 pró­sent.

„Við teljum okkur geta verið nokkuð keik og sagt að það er ekkert sem bendir til þess á þessari stundu að kostnaðurinn verði af einhverri allt annari stærðargráðu en dreginn hefur verið fram“

„Svo kemstu í for­hönn­un, þá minnkar óvissu­pró­sent­an, svo kemur verk­hönnun og þá minnkar hún meira og þú vilt helst þegar þú ert kom­inn í fram­kvæmd­ina, vera kom­inn í kringum 10 pró­senta rólið,“ segir Lilja um óvissu­pró­sent­una.

„Við teljum okkur geta verið nokkuð keik og sagt að það er ekk­ert sem bendir til þess á þess­ari stundu að kostn­að­ur­inn verði af ein­hverri allt ann­ari stærð­argráðu en dreg­inn hefur verið fram,“ bætir Hrafn­kell við.

Við­búið að umræða um annan kostnað fari af stað 

Lilja grípur orðið og segir þó mik­il­vægt að hafa í huga að annar kostn­aður muni falla til í tengslum við borg­ar­línu­verk­efn­ið, þrátt fyrir að sá kostn­aður sé utan kostn­að­ar­ramma verk­efn­is­ins sem slíks. Borg­ar­lína snýst um að byggja sér­rými fyrir stræt­is­vagna og kostn­að­ar­á­ætl­unin felur það í sér, en svo eru aðrir hlutir sem verða gerðir sam­hliða, eins og það að byggja hjóla­stíga, laga gang­stéttir og fleira. 

„Það er ekki inni í þessum kostn­að­ar­tölum sem hafa verið kynnt­ar, en það er pakki fyrir það í sam­göngusátt­mál­an­um,“ segir Lilja, en í sam­göngusátt­mála ríkis og sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu eru 8,2 millj­arðar áætl­aðir í gerð göngu- og hjóla­stíga, göngu­brúa og und­ir­ganga á næstu 15 árum. 

„Síðan ef það er vilji hjá sveit­ar­fé­lög­unum til þess að breyta umhverf­inu og laga í kringum stórar stöðv­ar, eins og til dæmis á Lækj­ar­torgi, þá er hættan sú að það fari allir að tala um að nú sé kostn­að­ar­á­ætl­unin fyrir verk­efnið að blása út.“ 

Það segir Lilja að væri ekki rétt ályktað og Hrafn­kell tekur undir það. 

„Þú sérð að Borg­ar­lína á að stoppa til dæmis við nýtt Hlemm­torg. Nýtt Hlemm­torg verður til hvort sem Borg­ar­lína verður til eða ekki. Það er ekki borg­ar­línu­kostn­að­ur, það er bara kostn­aður við að búa til nýtt almenn­ings­rými sem hefur miklu, miklu víð­ari til­gang en spilar auð­vitað ofsa­lega vel með góðum almenn­ings­sam­göng­um,“ segir Hrafn­kell.

Hlemmtorg mun taka stakkaskiptum, óháð því hvort borgarlínuleiðir aki þar um eða ekki.
Mynd: Úr hönnunartillögu DLD og MW

„Það er eig­in­lega alveg gefið að þessi umræða fari af stað,“ segir Lilja. Hún bætir við að sam­bæri­leg umræða hafi verið í mörgum borgum sem séu að þróa sam­bæri­leg sam­göngu­kerfi. Þessi umræða hafi til dæmis verið hávær í Stafangri í Nor­egi, en mik­ill kostn­aður við hrað­vagna­kerfi sem þar var byggt hefur verið settur í sam­hengi við borg­ar­línu­verk­efnið af hálfu sumra þeirra sem hafa áhyggjur af því að það sama ger­ist hér.

Lilja segir að í Stafangri sé verið að fara í gegnum mikið eldri, þrengri og þétt­ari bæj­ar­kjarna en gert verður á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og að Norð­menn­irnir hafi ekki hikað við að kaupa upp fast­eignir og lóð­ir, sem hafi orðið umtals­verður hluti kostn­að­ar­ins þar þegar upp var stað­ið.

Hún nefnir dæmi um lít­inn pít­sa­stað þar í borg, sem hafn­aði því að nokkur bíla­stæði fyrir framan stað­inn yrðu fjar­lægð til þess að koma hrað­vagna­kerf­inu fyr­ir. Norska svarið við því var að kaupa húsið fyrir aft­an, rífa það og skaffa flat­böku­staðnum bíla­stæði þar. „Þá blæs kostn­að­ur­inn af verk­efn­inu nátt­úr­lega út,“ segir Lilja.

Hrafn­kell segir að almennt sníði Íslend­ingar sér þrengri stakk þegar kemur að sam­göngu­innviðum en Norð­menn og það eigi við í til­felli Borg­ar­línu rétt eins og varð­and­i ­gerð hjóla­stíga, jarð­ganga og vega.

Einka­bíll­inn mun þurfa að gefa eftir pláss

Borgir víða um heim eru að leita lausna til þess að draga úr vægi einka­bíls­ins, sem margar þeirra voru hrein­lega hann­aðar til þess að þjóna. Höf­uð­borg­ar­svæðið er dæmi um slíkt skipu­lag, en yfir­lýst mark­mið sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er að reyna að breyta því hvernig borgin er að þró­ast og hætta að brjóta nýtt land undir byggð, þar sem byggðin inni á núver­andi borg­ar­svæði er fremur gis­in. Höf­uð­borg­ar­svæð­ið er ekki eina borg­ar­svæðið sem er að reyna að auka hlut hágæða almenn­ings­sam­gangna af sam­bæri­legum ástæð­um.

„Ég hef ekki fundið eina ein­ustu borg og lagt á mig tals­vert til að reyna að finna, sem er ekki með ein­hver áform í lík­ingu við Borg­ar­lín­una. Í sum­um, stærri borg­um, eru þetta allar týp­ur, frá „metro“ yfir í betra stræt­is­vagna­kerfi og allt þar á milli, en allar borgir eru að vinna að því að auka það rými sem vist­vænir ferða­mátar fá. Þegar við stöndum frammi fyrir því að rými er tak­markað og einn sam­göngu­máti er ráð­andi, þá ger­ist auð­vitað það að þarf að taka pláss í ein­hverjum til­vikum af þeim sam­göngu­máta, sem er bíll­inn. Það er alveg það sama að ger­ast hér og alls­staðar ann­ars­stað­ar,“ segir Hrafn­kell.



Mögulegar breytingar á umferðarskipulagi, eins og þær eru settar fram í tillögu að matsáætlun vegna fyrsta áfanga Borgarlínu.
Mynd: Verkefnastofa Borgarlínu

Hann nefnir svo Par­ís, Ósló og New York sem dæmi um borgir þar sem einka­bílum hefur hrein­lega verið úthýst af mörgum svæð­um, en Lilja grípur inn í og segir að það séu ekki bara stóru borg­irnar sem séu að auka hlut vist­vænna ferða­máta. 

„Það er jú oft gagn­rýni sem maður heyrir oft, að við séum ekki New York og við séum ekki Kaup­manna­höfn,“ segir Lilja og telur síðan upp borgir sem hafðar hafa verið til hlið­sjónar við borg­ar­línu­vinn­una, Árósa, Óðinsvé og Mal­mö, auk borga í Þýska­landi. „Já og Þránd­heim­ur, Ála­borg, minni borgir,“ bætir Hrafn­kell við.

Dýr­ara að byggja meira fyrir bíl­inn ein­göngu

„Við erum að tala um að eyða tæpum 50 millj­örðum í almenn­ings­sam­göngur á 15 ára tíma­bili. Það er mik­ið, en ekki sér­lega mikið þegar það er sett í stóra sam­heng­ið. Við náum ekki hlut­falls­lega að jafna áherslur Kaup­manna­hafn­ar, til dæm­is,“ segir Hrafn­kell og minnir um leið á ástæður þess að sveit­ar­fé­lögin fóru að skoða þá upp­bygg­ingu á hágæða almenn­ings­sam­göngum sem nú stendur fyrir dyr­um, um miðjan ára­tug­inn.

„Við sviðs­mynda­grein­ingu á því hvaða leiðir væru væn­legar í fjár­fest­ingum í sam­göngum hérna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu þá kom mjög skýrt fram að það að fjár­festa ein­göngu áfram í bíla­sam­göngum eins og gert hafði verið ára­tug­unum áður myndi skila okkur bæði meiri umferð og meiri umferð­artöfum – og vera dýr­ara. Það var á þessum grunni sem öll þessi ólíku sveit­ar­fé­lög sam­mæl­ast um þessa stefnu. Svo er þetta bara svo­lítið lang­hlaup,“ segir Hrafn­kell.

Lilja tekur við: „Þetta var árið 2015 og það er ofboðs­lega mikið sem er búið að ger­ast síðan þá í umræðu um lofts­lags­mál og umhverf­is­mál, sem þetta verk­efni tikkar í öll boxin hjá lík­a.“

Auglýsing

Hrafn­kell minnir á að í sam­göngu­á­ætlun til fimmtán ára sé áætlað að verja 900 millj­örðum til sam­göngu­fram­kvæmda á land­inu öllu. „Mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar, mark­mið allra sveit­ar­fé­lag­anna hérna, þar sem tveir þriðju hlutar íbúa lands­ins búa, er að fjölga not­endum í vist­vænum sam­göngu­mát­u­m,“ segir Hrafn­kell og bendir á að þeir tæpu 50 millj­arðar sem eyrna­merktir almenn­ings­sam­göngum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu séu ein­ungis um 5-6 ­pró­sent af heild­ar­pakk­an­um.

„Ég ætla ekk­ert að gera lítið úr því að 50 millj­arðar eru há upp­hæð, en í þessu sam­hengi er þetta ekki stór biti. Sam­göngu­fram­kvæmdir eru dýr­ar, þetta er alltaf dýr­asti og veiga­mest­i þátt­ur­inn í fram­kvæmdum rík­is­ins og ef við meinum eitt­hvað með því sem þjóð að fjölga fólki sem er að nota virka ferða­máta þá þarf að gefa þessum sam­göngu­mátum meira rými og það þarf að verja til þess pen­ing­um. Hingað til höfum við varið ein­hverjum örfáum pró­sentum í sér­staka inn­viði fyrir almenn­ings­sam­göngur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu af öllu því fram­kvæmdafé sem við höfum nýtt und­an­farna ára­tug­i,“ segir Hrafn­kell.

„Þetta er alltaf spurn­ing um í hvaða sam­hengi þú setur hlut­ina,“ segir Lilja. „Ef við veltum því fyrir okkur að þetta eru 50 millj­arðar af 900 millj­örð­um, þá sjáum við að bróð­ur­part­ur­inn af þessum 900 millj­örðum eru í vega­fram­kvæmd­ir,“ segir Lilja.

Rekstr­ar­kostn­aður eykst með nýju leiða­neti og Borg­ar­línu

Stofn­kostn­að­ur­inn við Borg­ar­lín­una, gerð sér­rým­is­ins, er ekki það eina sem talað er um, heldur hefur væntur auk­inn rekstr­ar­kostn­aður almenn­ings­sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu einnig verið nokkuð til umræðu. Það er dýr­ara að reka hrað­vagna­kerfi með auk­inni ferða­tíðni. Lilja segir að þar sem aldrei hafi verið rekið BRT-­kerfi á Íslandi séu áætl­anir byggðar á athug­unum frá Norð­ur­löndum þar sem reiknað er út hversu hlut­falls­lega dýrt sé að reka hrað­vagna­kerfi umfram venju­legt stræt­is­vagna­kerf­i. 

Útreikn­ingar sem gerðir hafa verið í sam­starfi við Strætó sýna fram á að árið 2024, þegar fyrsti áfangi Borg­ar­línu á að verða kom­inn í notk­un, verði rekstr­ar­kostn­aður almenn­ings­sam­gangna í heild sinni tæpum 34 pró­sentum hærri en hann er í dag, eða 7,9 mill­lj­arðar á ári í stað 5,9 millj­arða í dag.

Hrafn­kell segir að ekki megi gleym­ast að við það að fara að reka Borg­ar­línu þá drag­ist rekstr­ar­kostn­aður núver­andi stræt­is­vagn­kerfis sam­an. „Með því að fara að reka Borg­ar­línu munu detta út leiðir hjá Strætó og þetta þarf alltaf að vinn­ast í mjög góðri sam­vinnu við leiða­kerfi Strætó. Þetta er í raun upp­færsla á því og lang­tíma­þróun á leiða­kerf­inu. Hug­myndin er að með því að gera eina stærri breyt­ingu muni fram­tíð­ar­stofn­leið­irnar í því smám saman breyt­ast í borg­ar­línu­leiðir á þessu tíma­bili sem við erum að fram­kvæma,“ segir Hrafn­kell.

Samhliða því sem Borgarlínan verður til er stefnt að því að breyta leiðaneti Strætó og auka þjónustustigið.
Bára Huld Beck

„En auð­vitað hækkar rekstr­ar­kostn­að­ur­inn. Þegar þú ert að bæta þjón­ustu þá hækkar rekstr­ar­kostn­að­ur­inn,“ segir Lilja. „Það að breyta þessu leiða­kerfi og auka þjón­ust­una alveg um heilan hell­ing, fara í 7 og hálfrar mín­útu tíðni, eykur kostn­að­inn um 34 ­pró­sent árið 2024 miðað við það hann er í dag.“ Hún bætir við að kostn­aður við aukna tíðni í leiða­net­inu almennt, eins og stefnt er að, sé um helm­ingur þessa og beinn kostn­aður við rekstur Borg­ar­línu tvær skýri um helm­ing kostn­að­ar­aukans á móti.

En fyr­ir­séð er að tekj­urnar af almenn­ings­sam­göngum muni einnig aukast á móti: „Þarna er bara verið að draga fram útgjalda­lið­inn. Svo erum við núna að bíða eftir fyrstu skýrsl­unni úr nýju umferð­ar­lík­ani sem er að koma með far­þeg­a­spánna á móti, sem er þá tekju­hlið­in. Þó að útgjalda­lið­ur­inn hækki hækkar tekju­lið­ur­inn líka með auk­inni notk­un, því það er sam­hengi á milli þjón­ustu­stigs og notk­un­ar. Það á svo eftir að klára end­an­lega rekstr­ar­á­ætl­un, með þetta allt sam­an,“ segir Hrafn­kell.

Nánar verður fjallað um Borg­ar­lín­una í Kjarn­anum í vik­unni, en blaða­maður ræddi við Hrafn­kel og Lilju um ýmis­legt annað en ein­ungis kostn­að­inn við fram­kvæmd­ina.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal