Mynd: Arnar Þór Bryndís Friðriksdóttir Arndís Ósk Mynd: Arnar Þór
Bryndís Friðriksdóttir svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins og Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds forstöðumaður verkefnastofu Borgarlínu.
Mynd: Arnar Þór

Áskorun að tryggja flæði á meðan það verður grafið og byggt

Á næstu árum verða umfangsmiklar samgönguframkvæmdir allvíða á höfuðborgarsvæðinu. Sæbrautarstokkur, Miklubrautarstokkur auk framkvæmda við Borgarlínu munu setja mark sitt á samgöngukerfi borgarinnar. Kjarninn ræddi við svæðisstjóra Vegagerðarinnar og forstöðumann verkefnastofu Borgarlínu um stóru verkefnin sem eru í burðarliðnum og hvernig á að láta umferðina ganga upp á meðan þau eru unnin, auk annars.

Það sem af er sumri hafa verið flutt ný tíð­indi af stórum fram­kvæmdum sem eru hluti af sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Inn­sýn fékkst í áform­aða fram­kvæmd Sæbraut­ar­stokks er mats­á­ætlun verks­ins var lögð fram fyrir skemmstu og sömu­leiðis var sagt frá því í lið­inni viku að tíma­á­ætl­anir fram­kvæmda við Borg­ar­línu hefðu verið end­ur­skoð­aðar og þeim seink­að.

Kjarn­inn sett­ist niður með þeim Bryn­dísi Frið­riks­dóttur svæð­is­stjóra Vega­gerð­ar­innar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og Arn­dísi Ósk Ólafs­dóttur Arn­alds for­stöðu­manni verk­efna­stofu Borg­ar­línu í höf­uð­stöðvum Vega­gerð­ar­innar á dög­unum og ræddi við þær um hinar miklu fram­kvæmdir sem eru framundan á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á næstu árum.

Ýmsar spurn­ingar vakna, ekki síst um hvernig umferð­ar­mál á höf­uð­borg­ar­svæð­inu verði látin ganga upp á fram­kvæmda­tíma Borg­ar­línu, Sæbraut­ar­stokks, Miklu­braut­ar­stokks og ann­arra fram­kvæmda, sem munu valda miklu raski árum sam­an. Þessar spurn­ingar hafa sér­fræð­ingar Vega­gerð­ar­innar verið að glíma við að und­an­förnu og komst Bryn­dís þannig að orði á opnum fundi í upp­hafi árs að það væri ekki komið fram „neitt gott svar“ um hvernig þetta yrði allt látið ganga upp.

„Þetta verða þung fram­kvæmdaár framund­an,“ segir Arn­dís. Spurð um hvort eitt­hvað valdi sér­stökum áhyggjum segir Bryn­dís það helst vera að ná að „tryggja flæði“ á umferð, hvort sem um er að ræða umferð einka­bíla, strætó eða hjólandi fólks.

„Eig­in­lega öll þessi verk­efni setja þessa sam­göngu­máta – ég ætla ekki að segja kannski í upp­nám – en það er áskorun að leysa hjá­leiðir á fram­kvæmda­tíma. Það er stóra verk­efnið okkar að tryggja að fólk kom­ist á milli heim­ila og vinnu­staða og skóla á þessum árum. Það þarf að hugsa í lausnum, Strætó þarf að skoða hvernig hann ætlar að aka á fram­kvæmda­tíma og við þurfum að fara að skoða hvernig við leysum hjóla­leið­ir. Þegar við tökum Sæbraut­ar­stokk­inn þurfum við að tryggja góða hjóla­leið þarna yfir, þetta er svo þungur ás í dag úr Graf­ar­vog­inum inn á Suð­ur­lands­braut­ina,“ segir Bryn­dís.

Þar er stefnt að því að setja upp tíma­bundna brú fyrir gang­andi og hjólandi yfir Sæbraut­ina þar til stokk­ur­inn verður klár­aður og segir Bryn­dís horft til þess að hafa hana þannig gerða að hægt verði að flytja hana í burtu og nýta á öðrum fram­kvæmda­stöðum í fram­tíð­inni.

Tvær akreinar í átt að mið­borg­inni á morgn­ana?

Í mats­á­ætl­un­inni vegna Sæbraut­ar­stokks var sett fram til­laga að fram­kvæmda­á­ætlun verks­ins og þar kom fram að horft væri til þess að hafa Sæbraut­ina sem 1+1 veg á fram­kvæmda­tím­an­um. Er talið berst að þessu segir Bryn­dís ekki ljóst hvort það verði nið­ur­staðan og greinir frá því að til standi að skoða aðra mögu­leika, til dæmis að leggja þrjár bráða­birgða­akreinar í stað tveggja á meðan á fram­kvæmdum stend­ur.

Hug­myndin er að akst­urs­stefnan á miðju­akrein­inni verði þá sveigj­an­leg, og hægt verði að beina umferð­inni í þá átt sem straum­ur­inn liggur á hverjum tíma.

„Það væri kostur að geta haft tvær akreinar niður í bæ að morgni og tvær til baka seinni­part­inn,“ segir Bryn­dís, en játar þó að það sé ekki sér­lega mikið pláss til þess að vinna með, þar sem lóðir liggja alveg upp að fram­kvæmda­svæð­inu. Um 33.500 bílar á dag fóru að með­al­tali um fram­kvæmda­kafl­ann á Sæbraut­inni í fyrra, sam­kvæmt umferð­ar­taln­ing­um.

Mikla­braut í göng?

Annar umferð­ar­stokkur er fyr­ir­hug­aður undir Miklu­braut. Verið er að vinna að frum­drögum á þeirri fram­kvæmd og enn er margt á huldu um hvernig best sé að ganga til verka. Það er meira að segja til skoð­unar að gera engan stokk, heldur grafa fremur jarð­göng.

Þær Arn­dís og Bryn­dís segja tvær ástæður fyrir því að jarð­göng hafa verið tekin til skoð­un­ar. Í fyrsta lagi séu það umferð­ar­mál­in, en ef að jarð­göng verða grafin í stað þess að grafa fyrir stokk getur umferðin að mestu gengið sinn vana­gang ofanjarðar á fram­kvæmda­tím­anum og ekki þyrfti að fækka akreinum á Miklu­braut­inni á meðan grafið væri ofan í jörð­ina.

Í öðru lagi eru það veitna­mál­in, en stórar og miklar vatns- og frá­veitu­lagnir liggja um þau svæði sem þarf að grafa upp ef byggja á umferð­ar­stokk. Arn­dís þekkir veitu­kerfið vel, enda kom hún inn í stafn borg­ar­línuteym­is­ins úr stjórn­enda­stöðu hjá Veit­um. Hún segir stofn­lögn frá­veitu liggja um Kringlu­mýr­ina og hana er bæði flókið og dýrt að flytja. Því kunna göng að verða fýsi­legri.

„Við erum nátt­úrega að byggja inni í borg­ar­um­hverfi og það er svo margt sem þarf til að borg „fún­ker­i“. Veitur eru ósýni­leg­ar, þær eru undir jörð­inni og það er mik­il­vægt að púsla þessu rétt, það þarf að vera pláss fyrir lagn­irnar og sum­staðar eru ekki margir kostir í að færa lagn­ir,“ segir Arn­dís.

„Það er ekki bara að þetta sé flók­ið, þetta eru líka rosa­lega dýrar lagnir að færa. Það þarf líka að horfa á þetta út frá því, þetta kostar allt og við þurfum að gera þetta á sem hag­kvæm­astan hátt,“ bætir hún við.

Bryn­dís segir að það sé einmitt þetta sem verði skoðað í frum­draga­vinnu við Miklu­braut­ar­stokk, eða –göng. Fram­kvæmda­kostn­að­ur­inn verði rýndur og einnig afleiddur kostn­aður við veitna­fram­kvæmd­ir. Auk þess er verið að skoða jarð­fræð­ina og meta „hvort þetta sé ekki örugg­lega ger­legt, bæði stokkur og göng,“ segir Bryn­dís.

Tíma­lína þess­ara fram­kvæmda gerir í dag ráð fyrir því að fyrri hluti stokks­ins, eða vest­ari endi hans á milli Snorra­brautar og Rauð­ar­ár­stígs, gæti orðið til­bú­inn á árunum 2025-26. Svo er horft til þess að seinni hlut­inn, lengri part­ur­inn, geti orðið klár á árunum 2029-30. En þessar tíma­á­ætl­anir verða sömu­leiðis rýnd­ar, í frum­draga­vinn­unni sem stendur yfir.

Hug­myndin hefur verið sú að munnar stokks­ins verði í grennd við Kringl­una, á milli Kringlu­mýr­ar­brautar og Háa­leit­is­braut­ar. „Svo erum við að skoða sam­hliða hvort það væri hag­kvæmt að teygja hann lengra, því veg­ur­inn rís upp á Háa­leit­is­braut og fellur svo aft­ur, svo það er líka verið að skoða það að teygja hann í átt að Grens­ás­vegi. Við munum líka skoða hvaða áhrif það hefur á umferð eftir bygg­ingu, við viljum nýta mann­virkið og reyna að taka sem mesta umferð af yfir­borði og nið­ur, og erum með það til skoð­unar hvort það breyti ein­hverju að lengja hann,“ segir Bryn­dís.

Kæru­mál hang­andi yfir Foss­vogs­brúnni

Vinna við land­fyll­ingar vegna Foss­vogs­brúar á að hefj­ast í haust, en for­hönnun þess verks er í gangi og verk­hönnun á að hefj­ast í vet­ur, að sögn Arn­dís­ar. Hún bætir við að land­fyll­ingin undir brú­ar­end­ann sé ekki stórt verk­efni en samt sem áður en um að ræða fyrstu fram­kvæmd­ina sem fer af stað sem teng­ist Borg­ar­línu með beinum hætti.

„Þarna verður grafa komin á stað­inn og það er áfangi, í mínum huga alla­vega, og svo byrja fram­kvæmdir við brúnna að á næsta ári,“ segir Arn­dís og Bryn­dís bætir því við að fyrsta skrefið í brú­ar­bygg­ing­unni verði það að Veitur færi „risa­stóran raf­streng sem liggur þarna yfir vog­inn. „Það ger­ist í sumar og að því loknu er hægt að fara að hefj­ast handa við fyll­ing­ar,“ segir Bryn­dís.

Eins og Kjarn­inn sagði frá í vor var hönn­un­ar­sam­keppni vegna Foss­vogs­brú­ar­innar kærð, í annað skipti. Nið­ur­staða í því kæru­máli, sem lýtur að því að sig­urteymi Eflu verk­fræði­stofu hefði ekki átt að fá að taka þátt í keppn­inni vegna fyrri ráð­gjaf­ar­starfa í tengslum við brúnna, liggur ekki fyr­ir.

Bryn­dís segir „alltaf vont að hafa svona hang­andi yfir“ og að þau hjá Vega­gerð­inni bíði eftir því að fá nið­ur­stöðu í mál­ið, það verði gott að klára það.

Stefnt er að því að Foss­vogs­brú verði til­búin árið 2025, og þrátt fyrir að borg­ar­línu­vagnar verði ekki byrj­aðir að aka um svæðið á þeim tíma­punkti segja þær Bryn­dís og Arn­dís að stefnt sé að því að strætó­leiðir geti byrjað að ganga yfir brúnna strax frá upp­hafi.

Gagn­rýni sem búist var við hafi ekki komið fram

Eins og sagt var frá í lið­inni viku er nú stefnt að því að fyrsta lota Borg­ar­línu verði til­búin í áföngum á árunum 2026 og 2027. Ýmis skipu­lags­mál sem tengj­ast fram­kvæmdum eru í vinnslu í Kópa­vogi og Reykja­vík, sveit­ar­fé­lög­unum tveimur sem fyrsta lotan snert­ir.

Á nokkrum stöðum gera fram­settar áætl­anir ráð fyrir að götu­mynd­inni verði gjör­breytt til að að koma Borg­ar­línu fyr­ir, eins og til dæmis við Suð­ur­lands­braut. Eins og Kjarn­inn fjall­aði um í lið­inni viku eru hug­myndir um fækkun hvoru tveggja akreina og bíla­stæða við Suð­ur­lands­braut­ina ekki óum­deild­ar.

Blaða­maður spurði Arn­dísi hvort að hún hefði ein­hverja skoðun á því hvort rétt væri að fækka akreinum á þessum kafla Suð­ur­lands­braut­ar­inn­ar. Ég læt nú bara sam­göngu­verk­fræð­ing­ana um það. Það er eig­in­lega svar­ið,“ svarar Arn­dís og hlær, en ákvörð­unin um þetta liggur á end­anum hjá borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur.

Full­trúar meiri­hlut­ans þar bók­uðu á nýlegum fundi umhverf­is- og skipu­lags­ráðs að mik­il­vægt væri að „huga að sem hæstri flutn­ings­getu Borg­ar­lín­unnar og miklum gæðum umhverfis hennar þegar end­an­leg ákvörðun um útfærslu henn­ar“ á Suð­ur­lands­braut­inni yrði tek­in.

Bryn­dís segir að framundan sé frekara sam­ráð við íbúa og hags­muna­að­ila er deiliskipu­lags­til­lög­urnar verða lagðar fram, en blaða­maður hafði á orði að fremur fáar umsagnir hefðu borist um svo­kall­aða skipu­lags­lýs­ingu sem lögð var fram síð­asta vet­ur.

Bryn­dís sam­sinnir því og segir raunar að allt frá því að frum­drögin voru lögð fram fyrir rúmu ári, eða í febr­úar 2021, hafi þau hjá Vega­gerð­inni og búist við „miklu meiri umfjöllun og gagn­rýni“ sem hafi svo ekki látið á sér kræla. „En það gæti komið í deiliskipu­lags­ferl­inu, það er ekk­ert úti­lok­að,“ segir Bryn­dís.

Arn­dís bætir því við að það sé gott að fá athuga­semdir fram. „Því þá getur maður unnið úr þeim og tekið sam­tölin og þá eru meiri líkur á að við sjáum alla vinkla.“

Happa­fengur frá Dan­mörku

Verk­efna­stofa Borg­ar­línu er teymi innan Vega­gerð­ar­innar og vinnur náið með sveit­ar­fé­lögum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, Strætó, Veit­um, Betri sam­göngum og fleiri aðil­um, en starfs­menn sveit­ar­fé­laga og þess­ara opin­beru fyr­ir­tækja geta gengið að vinnu­að­stöðu í höf­uð­stöðvum Vega­gerð­ar­inn­ar.

Arn­dís segir að alla jafna séu 10-20 manns að störfum við þau verk­efni sem unnin eru hjá verk­efna­stofu Borg­ar­línu, sem einnig vinnur náið með verk­fræð­ingum Vega­gerð­ar­innar sem eru í stofn­vega-, stokka- og hjóla­stíga­hlutum sam­göngusátt­mál­ans. Enda hanga fram­kvæmd­irnar víða sam­an.

Borg­ar­línu­verk­efnið er það fyrsta sinnar teg­undar hér­lendis og í raun öðru­vísi verk­efni en Vega­gerðin hefur tek­ist á við áður. Bryn­dís og Arn­dís segja frá því að mikil þekk­ing komi inn með erlendum ráð­gjöfum sem hafa verið fengnir að borð­inu.

„Við erum mjög hepp­in, við erum komin með danskan verk­efna­stjóra með okkur í lið sem er nýkom­inn úr Ála­borg­ar­verk­efn­inu sem er nú komið í fram­kvæmd,“ segir Bryn­dís og á þar við Plus­bus í Ála­borg, sem er hrað­vagna­kerfi rétt eins og Borg­ar­lín­an.

„Þetta er í raun nákvæm­lega eins kerfi og Borg­ar­lín­an, svo við erum heppin að fá hann um borð, alveg ferskan úr sam­bæri­legu verk­efn­i,“ sam­sinnir Arn­dís og blaða­maður spyr hvort danski verk­efna­stjór­inn viti ef til vill hvað eigi að var­ast í verk­efnum af þess­um.

Framkvæmdir standa yfir við Plusbus í Álaborg, en þar er um að ræða 12 kílómetra langt hraðvagnakerfi, þar sem strætisvagnar aka um í sérrými að hluta.
Plusbus

Arn­dís játar því og nefnir sem dæmi að í Ála­borg­ar­verk­efn­inu hafi „þau lent í því að vagn­arn­ir, sem eru raf­magns­vagn­ar, hafi verið þyngri en gert var ráð fyr­ir“ og því hafi þurft að ráð­ast í styrk­ingu veg­anna á ákveðnum stöð­um, sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í hönn­un­ar­ferl­inu. Þurfti því að leggja meira slit­lag og styrkja suma kafla leið­ar­innar sem Plus­bus á að aka eft­ir. Nú er borg­ar­línuteymið hins vegar með­vitað um þetta og mun skoða þetta þegar orku­gjafi vagna verður val­inn.

Ákvörðun um vagna liggi fyrir í haust

Talandi um vagna, þá segja Arn­dís og Bryn­dís að það stytt­ist í að ákvarð­anir liggi fyrir um það nákvæm­lega hvers­konar vagnar verði not­aðir hjá Borg­ar­línu. Sú ákvörðun liggur hjá Strætó, en gengið er út frá því að Strætó verði rekstr­ar­að­ili Borg­ar­lín­unn­ar.

„Kosn­ing­arnar settu smá töf á svona ákvörð­un­ar­töku, en ég geri ráð fyrir að þetta verði komið með haustin­u,“ segir Bryn­dís og vísar til þess að í aðdrag­anda og eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar hafi orðið smá hiksti í störfum stjórna og nefnda á vegum sveit­ar­fé­lag­anna.

Arn­dís segir að það sé „rosa­lega mik­il­vægt“ að ákvörðun um hvernig vagna eigi að nota liggi fyr­ir, svo að það liggi fyrir í hönn­un­ar­ferl­inu.

Engin stefnu­breyt­ing eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar

Arn­dís og Bryn­dís eru sam­mála um að sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar í vor hafi ekki orðið til þess að stefnu­breyt­ing hafi orðið hjá sveit­ar­fé­lögum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í garð Borg­ar­línu, en eig­in­lega öll sveit­ar­fé­lögin hafa óskað eftir því að fram­kvæmdum á þeim lotum sem liggja „inn til þeirra“ verði flýtt.

Þegar ég var að fylgj­ast með kosn­inga­bar­átt­unni og fannst mér eng­inn tala á móti Borg­ar­línu nema einn flokk­ur, almennt. Fólk var kannski að tala um að það vildi skoða útfærslur og þess hátt­ar, en það var eng­inn bein­línis á móti, alla­vega svo að ég tæki eftir því. Við höfum ekki fengið nein merki frá sveit­ar­fé­lög­unum um að það séu ein­hverjar breyt­ingar í vænd­um,“ segir Bryn­dís.

Arn­dís segir að henni þyki umræða um Borg­ar­línu vera búin að „breyt­ast og þroskast“ á und­an­förnum miss­er­um. „Ég bjóst við því, þegar ég fór að halda fyr­ir­lestra fyrir hina ýmsu hópa, að þurfa að vera að útskýra hvað Borg­ar­lína er og útskýra „konsept­ið“ og af hverju verið væri að gera þetta, en sam­talið er meira um rekstur og útfærslu,“ segir hún.

„Svo eru öll sveit­ar­fé­lögin búin að senda okkur áskor­anir um að byrja á þeirra leggjum fyrr. Sem er jákvætt, þó maður geti ekki alltaf orðið við því,“ segir Bryn­dís og hlær, en Arn­dís skýtur því þá inn að þess sé ekki langt að bíða að hönn­un­ar­ferli seinni lotna Borg­ar­línu fari af stað sam­hliða því sem hönnun fyrstu lotu vindur fram.

„Horft er til þess að hefja vinnu við lotu númer tvö næsta vet­ur, en það er legg­ur­inn frá Hamra­borg og upp í Lind­irn­ar,“ segir Bryn­dís.

„Það er verk­efni hausts­ins og vetr­ar­ins að horfa á hinar lot­urnar – og fara að tíma­setja þær,“ bætir Arn­dís við.

Hún kom sjálf úr veitu­geir­anum inn í það að stýra verk­efna­stofu Borg­ar­línu og segir að hún hafi fengið hálf­gerða upp­ljómun eftir að hún hóf störf í upp­hafi árs og fór að umgang­ast sam­göngu­verk­fræð­ing­ana sem starfa með henni hjá Vega­gerð­inni.

„Það eru ótrú­lega fáir staðir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu þar sem þú getur búið og átt bara einn bíl á heim­ili án þess að það sé vesen. Svo er fólk pirrað yfir umferð­inni. Af hverju ertu ekki bara pirr­aður yfir því að búa á stað sem er þannig skipu­lagður að þú verðir að eiga tvo bíla? Því þetta kostar pen­ing, það kostar pen­inga að reka bíl,“ segir Arn­dís.

Nánar verður rætt við þær Bryn­dísi og Arn­dísi í Kjarn­anum á næstu dög­um.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal