Flokkur fólksins hefur lagt fram tvær tillögur í borgarstjórn um að Reykjavíkurborg setji sér metnaðarfulla stefnu til að flýta fyrir orkuskiptum á Íslandi. Orkuskipti eru einna mikilvægasta aðgerðin til að Ísland nái markmiðum sínum í loftlagsmálum samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
Tillögur Flokks fólksins eru tvíþættar. Annars vegar snúa þær að því að í útboðum Reykjavíkurborgar á þjónustu leigubíla og bílaleigubíla verði miðað við að bifreiðar verði að vera umhverfisvænar. Þar er mikilvægt að strax séu sett skýr fyrirmæli um að breytingin taki gildi innan tveggja ára þannig að þeir sem bjóða í slíka þjónustu fyrir Reykjavíkurborg hafi tíma til að uppfæra sinn bílaflota. Áréttað er að hér er ekki átt við aðkeyptan akstur stærri flutningabíla eða sérhæfðra ökutækja eins og ferðaþjónustu fatlaða, strætó, götusópa o.s.frv. þar sem umhverfisvæn úrræði eru tæpast til staðar.
Hinn tillagan snýr að því að stofnanir og fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar skrifi undir Hreinn 2 og 3. Stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar, sem geta notað umhverfisvænar bifreiðar, ættu að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Í henni kæmi fram að nýskráðir bílar yrðu að vera umhverfisvænir. Miða ætti við að allar bifreiðar hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki verði umhverfisvænar árið 2025, verði því komið við. Undirritun slíkrar yfirlýsingar myndi tryggja að nýjar bifreiðar verði ekki keyptar nema að þær standi undir því að vera umhverfisvænar. Skilaboð Reykjavíkurborgar væru hér skýr. Með þessu væru gefin nokkur ár til að skipta út þeim bifreiðum sem þegar hafa verið keyptar og óhagkvæmt væri að skipta strax út.
Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sýni árvekni, frumkvæði og framsýni umhverfismálum. Þar á borgin að vera í fararbroddi.
Í baráttu okkar gegn umhverfismengun skiptir allt máli og dropinn holar steininn.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.