Nýjustu boðaðar fjölbreyttar ráðstafanir ríkisstjórnar fyrir milljarða með eingreiðslum, lokunarstyrkjum, viðspyrnustyrkjum og frestun skattgreiðslna vekur upp spurninguna: Hvað verður núna gert fyrir þá eldri borgara sem berjast um í fátækt? Það er ekki uppörvandi fyrir þennan hóp, þegar sagt er að að greiða eigi viðbótarstyrk 200 milljónir vegna faraldursins til barna, eldri borgara, öryrkja, fólks af erlendum uppruna og fólks í félagslega viðkvæmum hópum, þá sérstaklega til að vinna gegn heimilisofbeldi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með útfærslu á þessu fyrirheiti, því forystumenn ríkisstjórnarinnar virðast ekkert ætla að gera á þessu þingi til að bæta stöðu þeirra eldri borgara sem berjast um í fátækt.
Þetta hefur komið fram í aðgerðarleysi þeirra í fjögur ár varðandi þessi kjör. Nú síðast kemur þetta fram í svari þeirra við spurningum í Félagstíðindum FEB í Reykjavík. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi mikið gert, þau vilji vel og brenni fyrir málstaðinn, en erfitt sé að bera kjörin saman við aðra erlendis, vegna gegnumstreymiskerfis þar, en sjóðsstreymiskerfis hér. Þetta forystufólk, sem svaraði spurningunum, virðist ekki gera sér grein fyrir hver bakgrunnur almannatrygginga hafi verið og hvað skyldugreiðsla allra vinnandi einstaklinga alla starfsævi til lífeyrissjóða þýði: Annars vegar lágmarkstryggingu ríkisins, jafna greiðslu til allra eldri en 67 ára og hins vegar viðbótartryggingu hvers og eins frá lífeyrissjóði, í hlutfalli af því sem viðkomandi greiddi til lífeyrissjóðs eða sjóða alla starfsævi. Það ætti að vera erfanleg eignamyndun viðkomandi einstaklings, en hlýtur allavega að vera ósnertanlega trygging hans, sem ríkið ætti ekki að geta eignafært til sín með því að spara greiðslur TR til sama einstaklings á móti þeim greiðslum um 45% umfram kr. 25.000.- á mánuði.
Grunnur að greiðslum TR til eldri borgara
Það var setning laga um alþýðutryggingalög 1936 og sjúkrasamlög, sem náði yfir lífeyristryggingu, slysatryggingu og sjúkratryggingu, sem hver skattskyldur einstaklingur átti að greiða, með árlega ákveðinni upphæð, óháð tekjum, með jafnhárri áætlaðri greiðslu ríkisins á móti. Hér var því ekki um skatt að ræða. Í lögum um TR 1963 segir í 12. gr. um greiðslu lífeyris: Lífeyrir tekinn við 67 ára á ári kr. 16.240.- síðan hækkandi á hverju ári til 72 ára á ári kr. 30.480.- Í 23. gr. laganna er fjallað um mánaðarlega greiðslu ríkisins og í 26. gr. um iðgjöldin, þar sem allir með lögheimili á Íslandi 16 til 67 ára greiði til TR, sama gjald á hvern einstakling. Einnig var í lögum ákveðin árleg greiðsla einstaklings til sjúkrasamlags í hverjum hreppi. Þessar skyldugreiðslur frá einstaklingum voru teknar árlega með skattauppgjöri til 1986, þegar staðgreiðsla var tekin upp, en þá var sagt að iðgjöldin væru áfram tekin inn með áætlaðri skattahækkun.
Rétt væri að finna út hver heildargreiðsla einstaklings, sem hefði greitt þannig árlega alla starfsævi sína í 51 ár frá 16 ára til 67 ára til TR uppfært til verðlags í dag með mótframlagi ríkisins. 1963 greiddi einstaklingur þetta iðgjald til TR kr. 2090. Uppfært til dagsins í dag, þá eru til margar viðmiðanir: Ein er sú, að þá var hægt að greiða fyrir útselda vinnu bifreiðavirkjameistara í 48 tíma fyrir það iðgjaldið. Í dag er þessi útselda vinna um 14 þúsund á tímann, eða sem samsvarar 672 þúsund ársiðgjaldi.
Reiknaður grunnellilífeyrir TR, án heimilisuppbótar til þeirra sem búa einir, sem eru um 1/3 af eldri borgurum, var síðasta ár fyrir kerfisbreytingu 1.1. 2016 kr. 209.831.- , sem skiptist eftirfarandi: Ellilífeyrir: 39.862, tekjutrygging: 125.793 og framfærsluuppbót: 44.176. Heimilisuppbótin var þá 37.071. Þetta ár 2021 er með óbreyttum grunnlífeyri mánaðarlega út árið kr. 266.033.- en heimilisuppbótin er til viðbótar kr. 67.225.- Eftir að hafa greitt skatt af fyrrnefndum grunnlífeyri nemur upphæðin um kr. 233 þúsund mánaðarlega, óbreytt út árið. Sá sem býr einn, fær heimilisuppbót til viðbótar kr. 67.225.- á mánuði og eftir að hafa greitt skatt af þeirri upphæð eru eftir um kr. 279 þúsund.
Þetta er hin ískalda reikningsstaða grunnlífeyris sem íslenska ríkið leggur til grundvallar á greiðslu grunnlífeyris til eldri borgara frá TR. Staðan er þó enn snautlegri fyrir ríkissjóð, því að þessi grunnlífeyrir var aðeins greiddur til um 1300 einstaklinga árið 2018, líklega nærri 2500 í ár. Þetta þýðir að um 31 þúsund einstaklingar fá lækkandi greiðslur frá TR vegna 45% skerðingar á móti lífeyrissjóðsgreiðslum og fjármagnstekjum umfram kr. 25.000.- á mánuði og vinnuframlagi þeirra sjálfra í launum umfram kr. 100.000.- á mánuði. Samkvæmt svari við fyrirspurn á alþingi 2017 má áætla að upphæðin sé í dag um 40 milljarðar, sem ríkisjóður sparar sér að greiða til eldri borgara, - eða hirðir af þeim.
Lífeyrissjóðirnir
Þeir eru sjóðsmyndun einstaklinga alla starfsævi, til að tryggja afkomu sína á efri árum og ætti ekki að koma ríkisstjórnum við, hvorki til að skerða lágmarksgreiðslur frá TR eða sem verra er, að reikna sér framlag þeirra til eldri borgara, í samanburði við greiðslu annarra þjóða til málaflokksins. Greiðslur til lífeyrissjóða erlendis eru í nær öllum löndum hluti af skattgreiðslu viðkomandi til um þriggja lífeyrissjóða, sem ríkisstjórnir fylgjast þá náið með. Hér voru stofnaðir nær 100 lífeyrissjóðir út um allt land. Nú eru um 22 eftir, þar af um 8 virkir með ótrúlega miklum mismun á greiðslum til lífeyrisþega. Annars vegar lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í A og B-deild, þar sem t.d. B-deildin skuldar um 600 milljarða til að geta uppfyllt áætlaðar greiðslur, sem aldrei skerðast og hækka mánaðarlega eftir vísitölum. Hins vegar almennu sjóðirnir sem skerða greiðslur til félaga sinna, ef ávöxtun hjá þeim skerðist. Greiðsla þeirra til eldri borgara er að stærstum hluta frá 60 til 120 þúsund á mánuði, sé miðað við skýrslu vinnuhóps fjármálaráðuneytisins um lífeyrismál gefin út 2015. Að skerða greiðslu TR á móti lágum lífeyrisgreiðslum er algjörlega óásættanlegt.
Leiðréttingar
Undirritaður vill leiðrétta að hafa í greinum í Kjarnanum 3. og 15. desember s.l. lagt út frá framsetningu í fréttum og orðum ráðherra í desember 2020 um að hækkanir yrðu gerðar í fjárlagatillögu til öryrkja og eldri borgara um 2,5% umfram fyrri tillögu, sem var til eldri borgara 3,6% eins og árið áður, vegna fastra hækkana á tekjum í fjárlögum. Þessi umframhækkun var hins vegar færð yfir á atvinnuleysisbætur. Hækkunin í grunnlífeyri án heimilisuppbótar varð því aðeins kr. 9.244.- óbreytt á mánuði út árið 2021. Prósentur og meðaltöl eru ætíð tilgreind í rökstuðningi embættismanna og ráðherra fyrir bættri stöðu eldri borgara, aldrei eru krónurnar nefndar. Þeir sem minnst fá, lifa ekki á prósentum eða meðaltölum. Til samanburðar var hækkun launa að meðaltali síðustu 12 mánuði frá 11 til 17%. Þar má tilnefna hækkun launa til alþingismanna í upphafi árs um kr. 100.000 með hækkun á ýmsum viðbótargreiðslum á mánuði. Einnig vil ég nefna, að ég fæ það háa greiðslu frá lífeyrissjóði ríkisins, að ég fæ ekki greiðslu frá TR og er því hvergi með neinar skerðingar. Greiðslur til mín hækka alltaf mánaðarlega, en ekki einu sinni á ári í ársbyrjun eins og frá TR, óbreytt út árið, án viðmiðunar við launahækkanir eða aðrar hækkanir árið á undan.
Þetta verður að leiðrétta á þessu þingi, ella eiga eldri borgarar aðeins eina nauðvörn til að ná fram einhverjum leiðréttingum næstu fjögur ár: Að bjóða sjálfir fram í næstu kosningum.
Höfundur formaður kjararáðs eldri borgara í Rangárvallasýslu.