Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Laun kvenna skyldu hækka í áföngum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu, fyrst með hækkun um 1/6 launamismunarins og síðan árlega þar til fullum launajöfnuði væri náð árið 1967. Ríflega hálfri öld síðar hefur launajafnrétti ekki enn náðst.
Launamunur kynjanna hefur vissulega farið minnkandi. Frá 2008-2019 lækkaði óleiðréttur launamunur úr 20,5% í 13,9% og leiðréttur launamunur fór úr 6,4% í 4,3% samkvæmt nýútgefinni launarannsókn Hagstofunnar. Markmiðinu hefur því ekki enn verið náð.
Lengi var talið að orsök launamunar kynjanna væri ekki síst vegna þess að konur hefðu minni menntun en karlar. Í rannsókn Hagstofunnar kemur fram að sú ástæða á ekki lengur við. Stærsta ástæða launamunar kynjanna, líkt og á öðrum Norðurlöndum, er að konur og karlar starfa í mismunandi atvinnugreinum og gegna mismunandi störfum innan þeirra. Með öðrum orðum er kynbundinn vinnumarkaður meginorsök kynbundins launamunar.
Það er hægt að mæla kynbundinn vinnumarkað með svokallaðri DI-vísitölu þar sem DI stendur fyrir Dissimilarity Index. Vísitalan mælir hversu margar konur og hversu margir karlar þyrftu að skipta um starf til að hvert starf hefði jafnmargar konur og karla. Vísitalan fyrir Ísland á árinu 2010 var 0,41 sem þýðir að 41% þeirra sem eru á vinnumarkaði þyrftu að skipta um starf svo það næðist að jafna hlutfall karla og kvenna í öllum störfum. Á sama tíma var vísitalan 0,44 í Danmörku, 0,47 í Noregi, 0,53 í Svíþjóð og 0,60 í Finnlandi, samanborið við 0,49 að meðaltali í Evrópuríkjunum
En af framangreindu virðist nokkuð ljóst að launajafnrétti næst seint eða aldrei ef ekkert er að gert. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að eitt af því sem heldur aftur af þróuninni er ómeðvitaður bjagi (e. unconcious bias). Ósjálfrátt metum við karla og konur á mismunandi máta þótt upplýsingarnar sem við höfum í höndunum gefi okkur ekkert tilefni til þess. Ósjálfrátt teljum við karlinn betri en konuna, þótt upplýsingarnar sem við höfum séu nákvæmlega þær sömu. Ósjálfrátt teljum við konuna frekju, en karlinn flottan þrátt fyrir að upplýsingarnar séu nákvæmlega þær sömu. Við gerum þetta ekki vegna þess að við séum á móti jafnrétti, nei við gerum þetta ósjálfrátt. Þetta liggur djúpt í hefðum, venjum og menningu okkar.
Til að þess að útrýma launamisrétti þarf því annað tveggja að útrýma ómeðvituðum bjaga, eða leita leiða til að meta störf á hlutlausan hátt. Einmitt sú aðferð er lögð til í skýrslunni Verðmætamat kvennastarfa sem inniheldur tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.
Í skýrslunni, sem finna má í Samráðsgátt stjórnvalda, er lagt til að skipaður verði aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti sem hafi það hlutverk meðal annars að greina vandann með því að koma á fót tilraunaverkefni um mat á virði starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og og kunna að vera vanmetnir. Samhliða þessari greiningu yrðu þróuð verkfæri til að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.
Þá verði þróuð samningaleið að Nýsjálenskri fyrirmynd um jafnlaunakröfur. Samningaleiðin verði þróuð með aðilum vinnumarkaðarins og horft til áhrifa breytinga á ráðningasamböndum og útvistun starfa á launamun kynjanna. Jafnframt verði aukin þekking og vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga með fræðslu og ráðgjöf.
Hér er um að ræða mikilvægt framlag í átt til þess að útrýma launamuni kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og verði verði tillögur starfshópsins framkvæmdar getur Ísland enn einu sinni sest á fremsta bekk þeirra ríkja sem fremst standa í jafnréttismálum.
Höfundur er dósent við Viðskiptadeild HR.