Mín ársgreiðsla 2021 eftir alvarlegt slys frá Tryggingarstofnun Ríkisins vegna skerðinga eru heilar 658.367.- Ársgreiðslan er á pari við mánaðarlega launahækkun á grunnlaunum Alþingismanna frá árinu 2016 til dagsins í dag eða 634.000.- á því tímabili, 89% hækkun. Grunnlaun ráðherra hækkuðu um 974.000.- Sjálftakan er álíka gróf og þær skerðingar sem sama fólk telur sjálfsagða fyrir lífeyrisþega. Allt ætlaði um koll að keyra þegar dómarar og efstu lög þjóðfélagsins voru krafðir um að endurgreiða brotabrot af mánaðartekjum sínum vegna mistaka kerfisins. Þeir þurfa ekki að lifa við flóknar skerðingar sem er daglegt brauð lífeyrisþega og í raun ekkert annað en ofurskattur á hlægilega innkomu.
Tryggingastofnun gefur sér ansi ríflegan tíma í að yfirfara mál okkar óheppnu sem missum heilsuna. Veigra þau sér síðan ekki við að gera eingreiðslur vegna tekjutaps fyrri ára upptækar þegar þær loksins skila sér á kolröngu ári án þess maður fái rönd við reist. Eftir margar uppfærslur á tekjuáætlun hjá TR þegar gögn eða breytingar rötuðu til mín þá reiknaðist mér loksins til heildargreiðslur fyrir árið 2021 1.572.618.- Rúmu ári seinna kemst stofnunin hins vegar að því að um ofgreiðslu var að ræða upp á 914.251.- mínus skatt upp á 107.509.- og beri mér að endurgreiða samtals 806.742.-
Sá hinn sami og taldi brýna þörf fyrir þjóðfélagið að setja sultarólina á öryrkja og ellilífeyrisþega með harkalegum skerðingum eftir hrun sem átti að vera tímabundin lausn og skammtaði sjálfum sér 974.000.- í mánaðarlega launa hækkun eða á pari við endurgreiðsluna mína. Til að toppa siðleysið þá er sá hinn sami settur í forystu á nefnd til tveggja ára til að endurskoða eigið óhæfuverk rúmum áratugi seinna með sína 89% launahækkun í vasanum. Það þarf enga rándýra nefnd til að einfaldlega leggja niður þessar siðlausu skerðingar. Það er jafn auðvelt og að hækka eigin laun.
Hversu lengi eigum við að bíða eftir réttlæti Katrínar Jakobsdóttur?
„VG eru ekki lengur bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru einfaldlega sek eins og syndin. Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ segir séra Davíð Þór Jónsson. Mikið er ég sammála honum. Innihaldslaust froðusnakk!!!
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur mínar árið 2021 voru 258.821.- frá Tryggingarstofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Sjóðurinn minn meðal annars notaður til að fjármagna siðlausar launahækkanir Alþingismanna og til að niðurgreiða þá sem ekkert lögðu til í sjóðinn og því áunnið sér lítil eða engin réttindi. Niðurgreiða þá sem unnu svart eða sjálfstæða atvinnurekendur sem greiddu sér út arð í stað eðlilegra launa, ráku einkabílinn á fyrirtækinu og annað skemmtilegt til frádráttar í stað þess að borga sanngjarnan hlut til samneyslunnar rétt eins og almennir launþegar þurfa að gera. Notaðir til að styrkja stöndug stórfyrirtæki til að þeir geti greitt sér arð, haldið fólki á launum, til að segja upp því fólki og til að endurráða sama fólk.
Sem fyrrverandi milli- og efri millitekju manneskja sem greitt hefur dyggilega í allnokkra áratugi í samneysluna þá er ég ekki sátt, öllu heldur bálreið!
Hér fáið þið að sjá ráðstöfunartekjur mínar eftir skatt þegar siðlausar skerðingar hafa átt sér stað fyrir árið 2021. Ævarandi skömm Steingríms, Jóhönnu, Katrínar og Bjarna.
Heildar ráðstöfunartekjur árið 2021 samkvæmt bankareikningi: 3.105.858.- eða samtals 258.821.- í mánaðarlegar greiðslur. Þetta er nú allt örlætið frá hinum háu herrum á Alþingi íslands. Hvernig á að draga fram lífið á þessum aumu úthlutuðu krónum í óstjórnandi verðbólgubáli sem framundan er?
Hvað eru margir sérfræðingarnir og Alþingismennirnir á háum launum við að hirða lífeyrinn okkar með þessum flóknu skerðingum og halda okkur langt undir framfærsluviðmiði?
Nákvæmlega hvað fer mikið af okkar lífeyri í hítina til að fjármagna laun menntaðra sérfræðinga sem vinna við að útfæra og flækja kerfin svo að engin skilji?
Er þetta nokkuð annað en dulið atvinnuleysi vel menntaðra sérfræðinga?
Hvernig má það vera að þeir Alþingismenn sem hafa sig hvað mest frammi um ágæti nýfrjálshyggjunnar og einkavæðinguna hafa sjálfir ekki getað plummað sig í því umhverfi?
Ötulir eru Alþingismennirnir í sjálftökunni á okkar kostnað og duglegir að skara eld að eigin köku. Margir lifa þeir ansi ríflega á spena almennings til lengri tíma. Nái þeir ekki kosningu m.a. þar sem engin frumvörp voru innt af hendi til fjölda ára, nú þá bíður þeirra bara enn ein hálaunuð inni vinnan sem aðstoðarmaður vinar og flokksfélaga eða bara eitthvað sem flokkssystkinin geta töfrað fram á okkar kostnað, þá er ekkert til sparað. Engin nefnd þörf!
Einn þaulsetnasti og dýrasti alþingismaður Íslandssögunnar fær vel launaða nefndar forystu spretthóps við að endurskoða sitt eigið óhæfuverk samanber skerðingar á heimsmælikvarða á hendur þeirra verst settu.
Ég vil gjarnan fá að einbeita mér að bata í stað þess að hafa stöðugar áhyggjur, kvíða, verki og svefnleysi vegna mannfjandsamlegs kerfis. Kerfis sem finnst ég eiga ekkert betra skilið en að liggja heima upp í rúmi alvarlega verkjuð, þunglynd og upplýsa TR reglulega um hversu mörg skeiniblöð ég notaði í mánuðinum til að vera viss um að ég hafi það nú ekki of gott. Framtíðar örorka í þessu mannskemmandi kerfi er álíka öruggt og launahækkanir ráðamanna. Má ekki setja þak á greiðslur til tíðræddra milljónalífeyrisþega úr þínum röðum Bjarni?
Í siðmenntuðu þjóðfélagi ætti ég að borga skatt á við alla aðra en ekki ofurskatta kallaðar skerðingar af smánar upphæðum.
Höfundur er öryrki og fyrrverandi markaðs- og sölustjóri.