Við Reykjavíkurtjörn situr maður á bekk. Hann er grafkyrr og hljóður enda um að ræða málmskúlptúr af Tómasi Guðmundssyni eftir Höllu Gunnarsdóttur myndhöggvara. Svipur Tómasar er hugsandi og hann er brosandi í borginni sinni Reykjavík. Reykjavíkurskáldið sem sá borgina í ljóðrænu ljósi samtíðarinnar og framtíðarinnar.
Í fyrra kom greinargerð frá Framkvæmdasýslu ríkisins þar sem kom fram að besti kosturinn fyrir framtíðaruppbyggingu Listaháskóla Íslands (LHÍ) væri að byggja í Vatnsmýrinni. Sú framkvæmd hefði líka í för með sér samlegðaráhrif við aðra háskólastarfsemi í Vatnsmýrinni og uppfyllti þar að auki þá áherslu sem núverandi ríkisstjórn lagði í þessi mál í upphafi stjórnarsamstarfs: „Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstaka áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu, sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu.”
Í umræðum undanfarið hefur komið fram að sá mikli kostnaður, sem fylgir óhjákvæmilega uppbyggingu á nýju húsnæði LHÍ, falli ekki að erfiðri fjárhagsstöðu ríkissjóðs eftir Covid-19 faraldurinn. Því sé verið að leita að öðrum leiðum til að leysa húsnæðisvandamál Listaháskólans og koma honum fyrir í húsnæði sem þegar er til í eigu ríkisins. Enn eina ferðina á að reyna að troða LHÍ (eða hluta hans) inn í húsnæði sem ekki var hannað fyrir þá sérhæfðu og fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Þær skammtíma reddingar verða alltaf klúður.
- Flytja starfsemi Heilbrigðisráðuneytisins og Félagsmálaráðuneytisins og aðra starfsemi úr Skógarhlíð 6 niður í Tollhúsið við Tryggvagötu, í göngufæri við Alþingi og hin ráðuneytin. Í samvinnu við Reykjavíkurborg mætti síðan útfæra lóðina við Skógarhlíð 6 til þróunar meiri íbúðabyggðar á svæðinu og selja hana síðan. Ég þykist viss um að Reykjavíkurborg er tilbúin í þá vinnu
- Þróa lóðina í Laugarnesinu í samvinnu við Reykjavíkurborg og selja síðan Listaháskólahúsið í Laugarnesinu.
Báðir ofangreindir liðir falla vel að þéttingarstefnu borgarinnar og eru til þess fallnir að skapa mikil verðbæti fyrir ríki, borg og íbúa - Flytja starfsemi Utanríkisráðuneytisins niður í Tollhúsið og selja eign við Rauðarárstíg 25
- Selja Listaháskólahúsið við Sölvhólsgötu
Við getum auðveldlega byggt LHÍ í Vatnsmýrinni. Það er hægt að hefjast strax handa við frumhönnun og verkhönnun ef vilji er fyrir hendi. Útboð byggingar getur síðan farið fram þegar ríkissjóður sér fram úr þeim skammtíma rekstrarörðugleikum sem nú eru til staðar. Tækifærin liggja í framtíðinni, bæði fyrir Listaháskólann sem og þjóðina alla. Stytta Tómasar Guðmundssonar mun áfram sitja við tjörnina og Tómas horfa íhugull á borgina vaxa og dafna.
Við Vatnsmýrina
Ástfanginn blær í grænum garði svæfir
grösin, sem hljóðlát biðu sólarlagsins.
En niðri í mýri litla lóan æfir
lögin sín undir konsert morgundagsins.
Og úti fyrir hvíla höf og grandar,
og hljóðar öldur smáum bárum rugga.
Sem barn í djúpum blundi jörðin andar,
og borgin sefur rótt við opna glugga.
- -
Og þögnin, þögnin hvíslar hálfum orðum -
Hugurinn minnist söngs, sem löngu er dáinn.
Ó, sál mín, sál mín! Svona komu forðum
Sumurin öll, sem horfin eru í bláinn -
Ó blóm, sem deyið! Björtu vökunætur,
sem bráðum hverfið inn í vetrarskuggann!
Hvers er að bíða? Hægt ég rís á fætur,
og hljóður dreg ég tjöldin fyrir gluggann.
Höf: Tómas Guðmundsson
Höfundur er vísinda- og uppfinningamaður.