Innrás rússneska hersins í Úkraínu er fólskuverk. Ráðist er á friðsamt fullvalda ríki með ómældum hörmungum fyrir íbúa þess. Hugur okkar er hjá úkraínsku þjóðinni sem hefur sýnt fádæma hugrekki og þrek í þessum ömurlegu aðstæðum. Við Íslendingar stöndum sameinuð í því að gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr þjáningum saklausra borgara sem stríðið bitnar hart á. Landamæri Íslands hafa verið opnuð fyrir úkraínskum flóttamönnum og fjöldi fólks hefur boðið fram aðstoð sína við móttöku þeirra og aðhlynningu. Ísland tekur óhikað þátt í efnahagsþvingunum Vesturlanda gegn rússneskum stjórnvöldum, þvingunum sem við vitum að munu einnig snerta okkur með beinum og óbeinum hætti. Þetta gerum við vegna þess að það er rétt. Vegna þess að við finnum til með úkraínsku þjóðinni. Og vegna þess að við viljum ekki heim þar sem réttur hins sterka er ótakmarkaður. Fyrir okkur sem smáþjóð er mikið í húfi að lög og reglur haldi í samskiptum þjóða.
Ný heimsmynd
Innrásin í Úkraínu markar tímamót í sögunni. Ráðist hefur verið að þeirri heimsmynd sem mótaðist eftir fall Berlínarmúrsins og byggði á fyrirkomulagi sem ríkt hafði í samskiptum vestrænna þjóða frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Fyrirkomulagi sem einkenndist af samningum, reglum, alþjóðlegum stofnum og frjálsum viðskiptum.
Viðbrögð Vesturlanda hafa öll verið á einn veg. Mikil samstaða hefur verið meðal þeirra um að aðstoða íbúa Úkraínu og treysta um leið sameiginlega öryggishagsmuni. Grunnhlutverk hvers ríkis er að tryggja öryggi borgara sinna. Flest ef ekki öll ríki í Evrópu eru nú að endurskoða stefnu sína í öryggis- og varnarmálum og innan ESB er rætt um að dýpka samvinnu á þessu sviði. Sum ríki hafa reyndar þegar breytt um stefnu. Þannig hafa Þjóðverjar ákveðið að stórauka útgjöld sín til varnarmála. Í Svíþjóð og Finnlandi hefur stuðningur við aðild að NATO stóraukist og meira að segja Svisslendingar víkja frá aldalangri hefð hlutleysis.
Öryggishagsmunir Íslands
Saga Evrópu er saga átaka. Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk var alger samstaða í Evrópu um að breyta þyrfti samskiptum þjóða til að tryggja að slíkar hörmungar myndu aldrei endurtaka sig. Hugmyndin var að samþætta hagsmuni sem flestra ríkja þannig að stríð yrði „ekki einungis óhugsandi heldur raunverulega ómögulegt,“ eins og sagði í Schuman-yfirlýsingunni frá 1950 sem lagði grunninn að Evrópska kola- og stálbandalaginu, fyrirrennara Evrópusambandsins. Í grunninn er ESB nefnilega friðarbandalag þar sem sameiginlegar reglur gilda. Um svipað leyti stóðu ríki Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku að stofnun Atlantshafsbandalagsins sem er sameiginlegt varnarbandalag til að verjast ytri ógnum.
Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu strax við stofnun þess. Réttilega var það mat íslenskra stjórnvalda að þannig væri öryggishagsmunum Íslands best borgið. Þó svo að skiptar skoðanir séu um aðild Íslands að Atlandshafsbandalaginu, þá er og hefur lengi verið mikill stuðningur við aðildina meðal almennings. Þátttaka Íslands í þessu varnarsamstarfi lýðfrjálsra ríkja á vesturhveli jarðar hefur enda reynst okkur ákaflega vel.
Innrásin í Úkraínu kallar á umræðu um hvernig haga beri öryggis- og varnarmálum hér á landi til framtíðar, hvaða breytingar komi þar til greina og hverjar þeirra þjóni best okkar hagsmunum. Það gefur augaleið að öryggi okkar hlýtur áfram að stórum hluta að byggjast á virkri þátttöku í stofnunum Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða varnarsamningi okkar við Bandaríkin. En átök í heimi nútímans snúast ekki síður um viðskipti og takmarkanir þeirra. Viðskiptahagsmunir eru öryggishagsmunir. Þeir snúast um það sem kalla má efnahagslegt öryggi. Ísland er lítið opið hagkerfi sem byggir velmegun sína á viðskiptum. Vesturlönd eru samstíga í því að beita rússnesk stjórnvöld harðari viðskiptaþvingunum en áður hafa þekkst. Viðskiptaþvinganir í hnattvæddum heimi hafa allskyns ófyrirséðar afleiðingar fyrir viðskipti milli landa. Skortur verður á hrávöru og matvælum sem kallar á viðbrögð ríkja til að tryggja eigin hagsmuni. Óvissan er því mikil um framtíðina. Hvernig getur Ísland dregið úr þessari óvissu og tryggt efnahagslegt öryggi þjóðarinnar?
Efnahagslegt öryggi Íslands
Möguleikarnir virðast í fljótu bragði einungis vera tveir, að halla sér að Bandaríkjunum eða halla sér að Evrópu. Nokkrir meinbugir eru á þéttari efnahagssamvinnu við Bandaríkin. Kerfi fyrir slíka samvinnu er ekki til staðar. Einnig hafa stjórnmál í Bandaríkjunum horft meira og meira inn á við á undanförnum árum og áhugi þeirra á vandamálum annarra hefur dvínað að sama skapi. Því er augljósa svarið að halla sér að Evrópu. Aðild að Evrópusambandinu er besta tryggingin sem Íslandi stendur til boða til að tryggja viðskiptahagsmuni og efnahagslegt öryggi þjóðarinnar á þeim viðsjárverðu tímum sem framundan eru. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu hefur vissulega reynst okkur vel á þeim tæplega þremur áratugum sem liðnir eru frá því að það varð til. En hún mun ekki duga til í breyttum heimi. Aðeins full aðild að ESB mun tryggja þá mikilvægu þjóðarhagsmuni sem hér um ræðir.
Ef núverandi stjórnvöld ætla að axla ábyrgð á öryggi Íslands við þær aðstæður sem nú eru uppi í heiminum þurfa þau að endurvekja og ljúka aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Í þessu fælist ekki ákvörðun um aðild. Sú ákvörðun á að liggja hjá þjóðinni. Þjóðin getur hins vegar ekki tekið afstöðu til aðildarsamnings sem ekki er búið að semja.
Því skora ég á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að bregðast við þeirri ógn sem við nú stöndum frammi fyrir með því að hefja að nýju og ljúka aðildarviðræðum við ESB. Það er besta leiðin til að tryggja efnahagslegt öryggi þjóðarinnar til framtíðar.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar.