Við mannfólkið höfum raskað kolefnishringrás jarðar með því að seilast djúpt í iður hennar og brenna lífrænt kolefni/jarðefnaeldsneyti sem mamma jörð var fyrir löngu búin að taka úr umferð. Við losum þannig mun meiri koltvísýring út í andrúmsloftið en vistkerfi jarðar í hafi og á landi hafa tök á að binda á ný. Við bætist svo gríðarleg röskun/eyðing jarðvegs og gróðurs sem hefur stórlega skert getu vistkerfa á landi til að varðveita og binda kolefni. Í grunninn er þetta nú ekki flóknara en svo, þó það sé æði margþætt verkefni að ná kolefnisjafnvæginu á ný.
Ísland er eitt af vistfræðilega verst förnu löndum Evrópu
Meira en helmingur íslenskra vistkerfa er í hnignuðu ástandi af okkar völdum, bæði þurrlendi og votlendi. Við erum bara svo vön ásýnd Íslands svona að við höldum flest að þetta sé í besta lagi. En, svo er ekki. Núverandi ástand landsins okkar er markað ósjálfbærri landnýtingu fyrri alda vegna þess að við skildum ekki vistfræðileg takmörk þess. Það villti fyrir okkur hvað landið var frjósamt. Sáum ekki fyrir rofgjarnan jarðveg, samspil norðlægrar hnattstöðu og veðurfars og ýmsa náttúruvá. Rannsóknir sýna að jarðvegsyfirborð var stöðugt fyrir landnám, það var fyrst og fremst landnýtingin sem raskaði jafnvægi í hringrásum vistkerfanna og veikti gróðurþekju þeirra svo vatn og vindur áttu greiða leið að jarðveginum – þá varð fjandinn laus!
Núverandi staða er sú að framræsla votlendis hefur skert og sundrað búsvæðum dýra og plantna og leitt til stórfelldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum. Birkiskóglendi og víðikjarri hefur verið eytt með neikvæðum afleiðingum fyrir þær lífverur sem þar búa og jafnframt hefur geta vistkerfa til að standast áföll, eins og öskufall og sandfok, skerst og hætta á eyðingu gróðurs og jarðvegs aukist. Ósjálfbær landnýting hefur líka leitt til hnignunar og eyðingar mólendis og dreifing framandi ágengra lífvera er sumsstaðar ógn við náttúruleg vistkerfi.
Skógrækt er landbúnaður, endurheimt birkiskóga er náttúruvernd
Það er ekki öllum ljóst að vernd og endurheimt vistkerfa er ein umfangsmesta náttúruverndar- og loftslagsaðgerð sem Ísland getur ráðist í. Það kemur samt mjög skýrt fram í 1 gr. laga 60/2013 um náttúruvernd. Þar segir:
„Markmið laga þessara er að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Þau eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt og einnig stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum.“
Þetta þýðir á mannamáli að skógrækt með innfluttum tegundum, eins og stafafuru, greni, lerki eða ösp, fellur ekki undir þessa skilgreiningu og er því ekki náttúruverndaraðgerð. Enda er skógrækt landbúnaður. Atvinnugrein rétt eins og fiskeldi og á að vera skipulögð og meðhöndluð í takt við það. Ekkert kjaftæði.
Hvað er endurheimt vistkerfa?
Endurheimt vistkerfa felur í sér að vinna með náttúrunni og styrkja og efla hennar ferla svo hún geti náð kröftum á ný. Þannig dregur líka úr losun frá landi og kolefnisforði í jarðvegi og gróðri byggist aftur upp. Með endurheimt vistkerfa eflum við líka getu og viðnámsþrótt náttúrunnar til að standast alls konar álag, svo sem af völdum öskufalls, flóða og annarrar náttúruvár. Endurheimt framræsts votlendis snýst fyrst og fremst um að hækka vatnstöðu á ný og endurheimta lífríki votlendisins (s.s. plöntur og fugla) samhliða því að stöðva/draga úr losun. Endurheimt þurrlendisvistkerfa felur í sér að hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálf með eins litlum inngripum og hægt er. Við þurfum að miða öll inngrip við að þau séu sem vægust en skili sem mestum árangri til langs tíma. Reyndar þurfa inngripin stundum að vera stórtæk í byrjun en lokamarkmiðið er alltaf það sama – sjálfbær, virk og fjölbreytt vistkerfi. Dæmi um verndar- og endurheimtarverkefni eru aukin útbreiðsla birkiskóglendis í Þórsmörk, og víðar, verndun birkitorfa, svo sem í Áslákstungum í Þjórsárdal, stöðvun sandfoks inn í Dimmuborgir í Mývatnssveit sem og fjölmörg önnur verkefni sem hafa verið unnin af bændum, landnotendum og fleiri aðilum um allt land síðustu áratugina.
Áratugur endurheimtar vistkerfa
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áratuginn 2021-2030 áratug endurheimtar vistkerfa. Það er ákall um heimsátak í verndun og endurheimt vistkerfa í þágu fólks og náttúru. Einhverra hluta vegna virðumst við Íslendingar ekki vera með ástand og mikilvægi íslenskra vistkerfa alveg á hreinu, einkum þegar kemur að loftslags- og náttúruvernd. Því þarf að breyta. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar þurfa að bregðast kröftugar við ákalli Sameinuðu þjóðanna og setja stóraukin þunga í loftslagsaðgerðir sem stuðla að náttúruvernd samhliða samdrætti í losun og/eða aukinni kolefnisbindingu.
Höfundur er PhD í umhverfisfræðum og sviðsstjóri hjá Landgræðslunni.