Þróun til vistvænni og sjálfbærari borgaralegs flugreksturs er hröð. Stærstu framleiðendur farþega- og flutningavéla, frá Airbus og Boeing til kínverska Comac og brasilíska Embraer, (að öðrum ónefndum) og hönnuðir minni flugvéla vinna hörðum höndum að orkuskiptum og stuttbrautarlausnum. Unnið er að nýsköpun flugtækja til vistvænni nærsamgangna, svo sem dróna og smáflugvéla til mjög stuttra farþega- og flutningaferða. Forvitnilegt er að skoða alls konar sviðmyndir um loftferðir um miðja öldina. Stóru flugmálasamtökin eru mikilvægir dráttarklárar. Alþjóðaflugmálastofnunin (IACO - 196 ríki) stefnir að sjálfbærum vexti í borgaralegu flugi og Alþjóðasamband flugfélaga (IATA - um 270 flugfélög) leiðir samstarf um umbætur og nýjungar í flugþjónustu sem fagsamtök. Hollt er að hafa þennan alþjóðlega ramma í umræðum um skipulag flugleiða og flugvalla á Íslandi.
Alþingi setur stefnu
Á þingárum mínum, sem annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, var samþykkt metnaðarfull samgönguáætlun 2020-2034 ásamt fyrstu flugstefnu landsins. Hún er framsækin, m.a. vegna Loftbrúarinnar og skipan innanlandsflugs í almenningssamgöngur. Að auki var stefnan einróma styrkt með þingsályktun í nafni nefndarinnar um orkuskipti í flugi. Samkvæmt henni á m.a. að hefja notkun vistvænna orkugjafa fyrir 2030. Flugþjónusta er löngu viðurkennd sem lykilþáttur samgangna á Íslandi, innan- og utanlands. Skerfur íslensks flugs í orkuskiptum, og þar með minni losun kolefnis, er stór, t.d. miðað við losun frá fólkbílum hérlendis. Á heimsvísu er 2,8% heildarkolefnislosunar frá borgaralegu flugi (2020) og þar með um 13% af samgöngum. Okkur ber að skila íslensku framlagi með fullum orkuskiptum, miðað við tækniþróun, fyllsta öryggi og sem lægst vistspor, ávallt í samhengi við aðra notkun jarðefnaeldsneytis og lífsferlisgreiningu tækja og tóla sem til þarf.
Ríkar samfélagsskyldur
Ríki, sveitarfélög og þá umfram önnur, sjálf Reykjavíkurborg, hafa samgönguskyldum að gegna við íbúa landsins. Að frátöldum ferðum um hafnir og vegi er brýnt að geta náð milli þéttbýliskjarna og til höfuðborgarinnar eftir sæmilega greiðri leið, fyrir sæmilegt verð og á sæmilega stuttum tíma. Þar er flug einboðið. Því minni kolefnislosun á mann í heild og styttri ferðatími, þeim mun betra.
Horfa verður, samhliða orkuskiptum í flugi, til orkuskipta í bílasamgöngum. Akstur, lengd og tími, hefur áhrif á staðsetningu flugvalla sem næst bæjar/borgarlandi, eða innan þess. Eðlilegt má telja að öllum gefist tækifæri að ná sem greiðast milli lykilstaða eða lykilbæja, hvert sem erindið er. Það raungerist í flestum löndum með lagningu járnbrauta eða flugvallargerð. Hjá smáþjóðum eru flugvellir nálægt helstu borgum, eða innan þeirra, og megin járnbrautarstöðvar miðlægar. Hér eru flugvellir t.d. á Ísafirði, Bíldudal, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Norðfirði, í Hornafirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík ígildi járnbrautarstöðva og Reykjavíkurflugvöllur ígildi aðaljárnbrautarstöðvar landsins.
Bestu fáanlegu gögn og álit
Staðsetning höfuðborgarflugvallar er margþætt. Samfélagslegi þátturinn varðar alla byggð í landinu, ekki síður en í Reykjavík, nokkra þætti umhverfis- og loftslagsmála, margvíslega starfsemi og atvinnu og skipulag höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur nokkra mikilvæga þætti þjónustu og innviða sem bundnir eru höfuðborginni einni og ýmis öryggismál. Náttúrufarsþættir snúast um aðflugs- og lendingargæði (veðurfar og landslag), náttúruvá af völdum jarðskjálfta, höggunar og eldgosa, fyrirsjáanlega hækkun sjávarborðs og aðlögun að henni. Upptalningin er ekki tæmandi. Nú er unnið að sérfræðiskýrslu um helstu þætti sem snúa að því að gera upp á milli flugvallar í Vatnsmýri og flugvallar í Hvassahrauni m.a. með nýjum mælingum, m.a. á ókyrrð og veðurfari, og í ljósi nýhafins óróatímabils á Reykjanesskaga. Um það eru til jarðfræðilegar heimildir og gögn. Hvassahraunsflugvöllur er alls ekki einhlítur kostur að svo komnu máli.
Reykjavík – flugstöð Leifs Eiríkssonar
Þróun flugþjónustu, m.a. flughæfni véla og stærð flugvalla, og þróun innanlandssamgangna á vegum úti (stytting vegalengda og meiri samnýting stórra og smárra bíla) er andstæð flutningi innanlandsflugs til Miðnesheiðar. Enn fremur er rekstrarfjárfrek járnbrautarlest sem þolir veðurfarið, liggur um ótryggar náttúruvárslóðir og sennilega um þrenn, alllöng jarðgöng, allt of stórt verkefni um langa hríð, miðað við samfélagsstærð og ferðamannafjölda. Leysa verður tengingu við alþjóðaflugið SV-lands með fólksbílum og rafknúnum rútum.
Sérstaða sjúkraflugs
Þjónusta aðalsjúkrahúsa krefst þrenns konar sjúkraflugs. Nú stefnir í flugferðir til spítalanna á Akureyri og í Reykjavík verði um eitt þúsund á ári. Ríflega þriðjungur sýnist vera forgangsverkefni. Sérhæfðar, fremur litlar sjúkraþyrlur, sem væntanlega verður látið reyna á sunnanlands, nýta aðflug yfir byggð og lendingarpall á, eða upp við, spítala. Sérhæfðar tveggja hreyfla skrúfuþotur þurfa meðallangar flugbrautir fyrir nánast öll veðurskilyrði. Stórar þyrlur á borð við Gæsluvélarnar nýta aðflug eftir flugbraut eða opnu, óbyggðu landi. Þessi samfélagslegu öryggisskilyrði benda eindregið til mikilvægis núverandi flugvallar svo lengi sem Landsspítalinn er á sínum stað og það sama gildir, væri hann í Fossvogsdal. Til frekari fróðleiks um sjúkraflug.
Hvað nú?
Nýjum borgarstjórnarmeirihluta ber að tryggja nýtingu flugvallarins, má vera í endurhannaðri mynd, að lágmarki sem fullburða innanlands- og sjúkraflugvöll, þar til (og ef) annar jafn góður kostur í einu og öllu er ljós. Varaflugvellir landsins eru nú ákvarðaðir á Akureyri og Egilsstöðum og ekki þörf á löngum þotuflugbrautum í Vatnsmýri. Nokkuð af byggingarlandi gæti verið til reiðu við og innan hluta núverandi flugbrauta. Þar verður að hyggja að hraðri hækkun sjávarborðs. Það á einnig við um opnar flugbrautir, verði flugvellinum haldið virkum í marga áratugi, og þær t.d. lengdar í sjó fram til að nýta byggingarsvæði eða vernda votlendi innar í landinu. Ríkisvaldinu ber einnig að vinna með borgarstjórn, öðrum sveitarfélögum og aðilum flugþjónustunnar að öflugu innanlandsflug í almannaþágu. Alls konar flugþjónusta innanlands er þjóðþrifamál sem þarfnast samfélagslegra, nútíma lausna.
Höfundur er fyrrum þingmaður VG í Suðurkjördæmi.