Hvað gerðist eiginlega? Af hverju segi ég svona? Mér sem hefur verið innrætt að hér sé gott að búa. Öruggt og allir svo miklir vinir og svo mikið jafnræði og lífsgæði. Af hverju ætti ég að skammast mín fyrir land sem hefur gefið mér svo margt?
Það tók mig nokkur ár að átta mig á því að þjóðernisást er tilbúningur, hönnuð af mönnum sem græða mjög mikið á því að þú haldir að hér sé best að vera. Að Ísland sé einstakt blóm og að brottför væri föðurlandssvik. Þeim tókst alveg að halda mér hérna í nokkur ár út á þetta kjaftæði.
En svo kom skellurinn. Hrunið sem var svo dásamlegt. Algjört wake up call. Allt í einu ferskir vindar og fólk að tala um ójöfnuðinn og brjálæðið sem hafði viðgengist. Ég trúði því í alvörunni að eitthvað gæti breyst. Til hins betra.
En það hefur ekkert breyst.
Við kusum yfir okkur lygara og glæpamenn til að stjórna landinu. Leppa sömu lygaranna og stjórnuðu fyrir hrun. Hér var partí en svo fór allt í rassgat, og það eina sem virðist skipta máli er að starta partíinu aftur. Hætta að tala hlutina niður. Peppa punginn. Reka alla blaðamenn sem segja óþægilega hluti. Bara út með þá! Kaupa upp fjölmiðla sem segja óþægilega hluti til að þagga niður í þeim. Suss... Púa á púarana. Pú! Fáum Hannes Hólmstein til að kenna útlendingum um þetta allt og dettum svo í það! Vú!
Það síðasta sem ég hefði veðjað á var að við færum í nákvæmlega sama farið. Ég man eftir því að hafa hugsað í miðri Kreppunni (sem mér er sagt að sé búin) að þegar byggingakranarnir myndu birtast aftur væri stutt í næsta hrun. Ég sá frétt um daginn þar sem taldir voru 150 byggingakranar í Reykjavík. Iðnaðarmenn segja mér að ekki hafi verið eins mikið að gera síðan 2007. Íbúðaverð hækkar. Leiguverð hækkar. Matvælaverð hækkar. Kaupmáttur lækkar. Blaðran þenst út. Við erum í óðaönn að detta í það aftur en það stefnir samt ekki í neitt partí. Bara blanka martröð. Hrun tvö.
Vú.
Og hvað er þá með kapteininn?
Sigmundur Davíð virkaði á mig, þegar hann settist á þing, sem fulltrúi, kannski ekki minnar kynslóðar, en a.m.k. kynslóðarinnar á undan. Það þurfti einhvern til að ferja okkur inn í nútímann og hann var bara ok-let‘s-go. Studdi minnihlutastjórn VG og Samfó, reif kjaft í InDefence og leit raunverulega út fyrir að geta tekið blóðugt trúðanefið af Framsóknarflokknum. Í dag virkar hann bara á mig eins og sósíópati. Einhver sem trúir því ekki að hann geti haft rangt fyrir sér. Í þau örfáu skipti sem hann kemur í viðtöl er hann svo hrokafullur og vandræðalegur að allt landið er með hroll í marga daga á eftir. Hann er í alvörunni svo stórhættulega vanhæfur að ef hann segði að þetta væri gjörningur þá myndi ég trúa því.
Nýja stjórnarskráin okkar, sem við kusum um og átti að tákna breytta og bætta tíma, var sett rakleiðis ofan í skúffu hjá LÍÚ. Kerfisbundið hafa öfl breytinga og jöfnuðar verið brotin niður. Peningarnir stjórna hér öllu. Og þegar peningar stýra er það ekki í náungakærleik, heldur græðgi. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru hagsmunasamtök fjármagnseigenda. Pælum aðeins í eyju sem er umkringd fiski og að eina fólkið sem má veiða fiskinn stjórnar eyjunni. Landinu er stýrt af fólkinu sem á peningana. Fólki sem er mjög lúnkið í því að telja almúganum trú um að hann stjórni. Hann stjórnar engu. Við stjórnum engu. Þú ræður engu. Ekki halda að þú ráðir einhverju. Þú ræður ekki neinu. Við köllum þá ekki kvótaKÓNGA að ástæðulausu.
Svo 10% treysta Alþingi. Spurt er hvers vegna ungt fólk kýs ekki. Ég skal svara: Af því það virkar ekki! Við kjósum hægri vinstri upp og niður norðnorðvestur, og sama hvernig fer er okkur riðið í andlitið. Sama hver „vinnur“ þá töpum við. Við erum pískaðir þrælar valdastéttarinnar og fáum öðru hvoru að velja hver heldur á svipunni. Einn af hverjum tíu treysta æðsta lögjafarvaldi landsins. Hvernig endar þetta?
Feisum það bara: Ísland er ónýtt.
Og ég er ekki að segja hluti hérna að gamni mínu. Ég hef engra hagsmuna að gæta. Landið er bara ein rúst. En þegar fólk viðrar svona skoðanir þá er það stimplað „niðurrifs- og afturhaldsöfl.“ Hvaða helvítis Brave New World 1984 Animal Farm kjaftæði er í gangi?
Ég vil bara fá sanngjörn laun fyrir sanngjarna vinnu og að aðrir fái það sama. Ég vil bara geta eignast börn með konunni sem ég elska og ég vil geta búið með þeim við öryggi og jöfnuð. Eins og ástandið er akkúrat núna er ekki útlit fyrir það. Grínlaust. Ég væri til í að skrifa hérna pistil um hvað allt er æðislegt. Ég meina það. Af því einu sinni fannst mér frábært að búa á Íslandi. En ekki lengur. Það er búið að skemma allt.
Þannig að Sigmundur Davíð, éttu skít.
Hanna Birna, éttu skít.
Sigurður G., éttu skít.
Vigdís Hauks, éttu skít.
Skammist ykkar. Í alvörunni. Skammist ykkar bara.