Nú þegar stríðskistur stjórnmálaflokkanna standa opnar og fjármagna ímyndarherferðir vegna komandi Alþingiskosninga mætti staldra við og hugleiða hvernig þær verða fylltar á nýjan leik. Kerfisbreyting hefur orðið á undanförnum árum í því hvernig stjórnmálaflokkarnir fjármagna sig. Áður voru það gjarnan stöndug fyrirtæki sem greiddu væna styrki og þá stóðu þau samtök best að vígi í rekstri kosningabaráttu, sem höfðuðu best til slíkra styrktaraðila. Einn af lærdómum Hrunsins var að slíkt fyrirkomulag væri óheppilegt, þar sem það gerði stjórnmálin ofurseld duttlungum fárra fjársterkra aðila.
Með breytingum á lagaumgjörð stjórnmálaflokka hefur að mestu verið tekið fyrir slíka styrki, en þess í stað hefur beinn styrkur úr ríkissjóði til reksturs stjórnmálaflokka hækkað mjög ríflega, sem útdeilt er á grundvelli úrslita kosninga. Fjármögnun stjórnmálabaráttunnar hefur færst frá því að koma úr vösum vel stæðra styrktaraðila, yfir í að koma úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fyrir rótgrónu stjórnmálaflokkana er þetta hentugt fyrirkomulag. Þeir þurfa ekki lengur að vera stöðugt á biðilsbuxunum eftir fjármagni, heldur einungis að sammælast sín á milli um árlega upphæð úr ríkissjóði, sem síðan er hægt að nýta til reksturs skrifstofu og til að fjármagna kosningabaráttu.
Vandamálið við þetta nýja fyrirkomulag felst einkum í því að það lýðræðislega aðhald að stjórnmálaflokkunum, sem felst í því að þeir þurfi að óska eftir stuðningi í gegnum fjárframlög, hefur stórminnkað. Það er vissulega góð breyting að fjársterkir aðilar geti ekki lengur með beinum hætti keypt sér áhrif í gegnum fjárstyrki, en að sama skapi væri æskilegt að almenningur gæti afturkallað fjárstyrki til stjórnmálasamtaka oftar en á fjögurra ára fresti. Hættan er sú að stjórnmálaflokkarnir breytist úr fjöldahreyfingum, sem reiða sig sífellt á stuðning fjöldans, yfir í fámennar klíkur í kringum flokkskontórana. Þar skáki þær í skjóli fjármuna úr ríkissjóði og endurnýi sífellt umboð sitt með áferðarfögrum auglýsingum fyrir kosningar, einnig fjármögnuðum úr ríkissjóði.
Hefðbundið flokksstarf sjálfboðaliða koðnar niður og víkur fyrir pólitískum atvinnukontóristum og kjörnum fulltrúum, sem eru að mestu óháðir óbreyttu flokksfólki. Í bergmálsherbergjum þessara fámennu hópa myndast síðan kjöraðstæður fyrir sérhagsmuni til að hafa áhrif. Ekki þarf lengur að reka fágaðan áróður til þess að sveigja fjöldahreyfingar á sitt band, heldur nægir að hreiðra um sig í sálarlífi þeirra fáu sem starfa í fullu starfi við stjórnmálin.
Það væri stjórnmálunum hollt að ná betri jarðtengingu við almenning. Það mætti til dæmis gera með því að skipting árlegra greiðslna til stjórnmálaflokka væri ákvörðuð af hverjum og einum skattgreiðanda við skil skattframtals. Skattgreiðendur gætu þannig ákveðið að styrkja ein eða fleiri stjórnmálasamtök innan þess ramma sem ákvarðaður væri árlega í slík útgjöld úr ríkissjóði.
Haukur Logi Karlsson, nýdoktor við lagadeild HÍ