Í tilefni af alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er hér á landi þessa vikuna, Cryosphere 2022, þ.e. freðhvolf jarðar, er hér brugðið upp litlu sýnidæmi um hvernig einfaldar mælingar geta aukið skilning okkar á tengslum hitafars og rýrnunar jökla.
Rennsli jökuláa að sumri endurspeglar eðlilega jöklabráðnun. Jöklarnir safna á sig snjó 9-10 mánuði ársins og leysingartíminn þar sem hluti vetrarfirninganna bráðnar, er ekki nema um 2-3 mánuðir. Þau árin sem leysingin er meiri en sem nemur vetrarákomunni, rýrna jöklarnir. Sú hefur verið raunin nánast allar götur frá 1995. Árið 2015 sker sig úr, en þá var leysingin ívið minni en ákoman á stóru jöklunum; Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli. 2018 mældist afkoman síðan í jafnvægi.
Í fyrrasumar, 2021, var rýrnunin umtalsverð, þó ívið minni en maður hefði getað haldið, miðað hvað sumarið var hlýtt, einkum norðan- og austanlands. En þá verðum við að hafa í huga að leysingin ein ræður ekki afkomunni, heldur líka hve mikið snjóar á jöklana veturinn á undan. Ef við horfum fram hjá ákomunni og lítum á leysinguna eina og sér þá gefa einfaldar afrennslismælingar ágæta mynd.
Jökulsá á Fjöllum er fyrst og síðast jökulá. Afrennsli Dyngjujökuls, Kverkfjalla og vestari hluta Brúarjökuls er til Jökulsár. Um 1.500 km2 vatnasviðs hennar er á jökli. Að vetrinum þegar engin bráðnun er á jökli er rennsli Jökulsár á Fjöllum um 100 m3/s. Þar er um að ræða lindarennsli undan hraunum sem er mjög stöðugt. Í raun grunnrennsli árinnar og samsvarar rennsli í Soginu.
Framan af sumri eykst rennsli Jökulsár á Fjöllum rólega, en tekur kipp fljótlega í júlí þegar leysing á jökli hefst fyrir alvöru. Nær hámarki að jafnaði um og fyrir miðjan ágúst og verður þá um 400 m3/s. Í september dregur síðan úr vatnsmagni og fer mikið til eftir tíðarfari eða hversu langt fram eftir hiti er nægur til að viðhalda ísbráðnun.
Rennslistölurnar eru fengnar úr vatnshæðarmæli neðarlega í ánni eða við brúna á þjóðveginum við Grímsstaði á Fjöllum. Þar hefur rennsli verið mælt frá árinu 1965. Meðaltal er reiknað fyrir tímabilið 1971-2016 (Veðurstofa Íslands).
Yfirstandandi sumar er með allt öðrum brag. Má segja að rennsli Jökulsár á Fjöllum hafi til þessa ekki náð eiginlegu sumarrennsli, þó svo að dægursveiflan hafi skilað rennslistoppum rúmlega 350 m3/s. Sjá má greinilega hvernig dró úr rennslinu um mánaðamótin júlí og ágúst. Þá var svo kalt að uppi á jöklinum snjóaði ítrekað og það um hásumar. Skálavörður í Dreka við Öskju lét hafa eftir sér að hvít jörð hefði verið þar að morgni átta daga í röð.
Athyglisvert er að bera saman mjög mikið rennsli í Jökulsá á Fjöllum í fyrrasumar 2021 við yfirstandandi sumar. Sá samanburður er nánast eins og svart og hvítt. Ef við skilgreinum 350 m3/s sem nokkuð venjulegt sumarrennsli og drögum þá línu inn á línuritin fyrir rennslismælingarnar, sjáum við hve gríðar miklu munar. Í fyrrasumar má segja að þetta skilgreinda sumarrennsli hafi staðið samfellt frá því um 16.- 17. júlí til og með 15. september. Mest var það um 700 m3/s, 31. ágúst. Einkar tilkomumikið hefur verið að standa við Dettifoss þann dag!
Nýsnævi sem fellur á yrjóttan jökulísinn endurkastar sólarljósinu í miklu mun meira mæli en áður. Við það hægir mjög á bráðnun. Þar fyrir utan var líka kalt þessa daga. Til samans vógu þessir þættir þungt. Þaðan í frá hefur jökulbráðnunin ekki náð sér á strik að ráði. Vissulega er hlýr september alveg í myndinni, en alveg jafn líklegt er að það taki fljótt fyrir leysinguna eftir jafn kalt sumar og raun ber vitni.
Vel gæti farið svo þetta árið að afkoma jökla verði í járnum, í það minnsta norðanverður Vatnajökull. Áhugavert verður að bera saman þessi tvö sumur, leysingu jöklanna eins og hún birtist í rennslistölum og þætti lofthitans. Tvö samliggjandi og mjög svo gjörólík sumur gætu þannig hæglega gefið okkur mælikvarða um þann sumarhita sem þurfi til að halda jöklunum í jafnvægi að óbreyttri vetrarákomu. Eða á mannamáli; hve þurfi að kólna hér að jafnaði frá því sem verið hefur til að rýrnun stóru jöklanna stöðvist.
Á Akureyri var meðalhiti júlí og ágúst 2021 þannig meira en 14,2°C og þar aldrei verið hlýrra. Þetta sumarið stefnir í að meðalhiti þessara mánaða verði ekki nema um 10,5°C. Hitinn í september skiptir líka máli, en í fyrrasumar var mjög hlýtt fram eftir mánuðinum.
Góðar rennslismælingar nokkurra lýsandi jökuláa ættu því að geta gefið okkur hina stóru og almennu mynd jöklabreytinga. Mikilvægi vandaðra vatnamælinga ásamt góðu aðgengi gagna verður seint vanmetið fyrir rannsóknir á loftslagi og náttúrufari.
Höfundur er veðurfræðingur og eigandi Veðurvaktarinnar og ritstjóri blika.is.