Fátt er betra en íslensk sumar, ég tala nú ekki um þegar hitinn nær tveggja stafa tölu og sólin skín. Í íslenskri sumarsælu er kannski ekki mikil spurn eftir nýjustu fréttum af loftslagsbreytingum og hamfarahlýnuninni en samt verður ekki undan því vikist að kynna sér þær – og bregðast við.
Daglega berast fregnir af hitabylgjum, gróðureldum, þurrkum og bráðnun jökla. Í norðvesturhluta Bandaríkjanna og Kanada hafa hitametin verið slegin svo um munar og fólk deyr, vegna hitans. Bráðnun heimskautaíssins er hröð og úthöfin súrna vegna hlýnunar.
Greint var frá skelfilegum tímamótum í vikunni þegar var sagt frá rannsókn sem sýnir að Amazon-regnskógurinn losar nú meira af gróðurhúsalofttegundum en hann bindur. Skógurinn er ruddur og brenndur undir soja- og nautgriparækt og ekkert kemur í staðinn. Það er auðvelt að missa móðinn við þennan lestur og halda að ekkert geti stöðvað hlýnun jarðar. Sem betur fer er það ekki þannig, en tíminn er naumur. Og öll höfum við okkar skyldum að gegna.
Vísindin sögðu fyrir um hlýnunina
Allt frá því að vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar af mannavöldum skilaði sinni fyrstu skýrslu fyrir aldarfjórðungi hafa spár hennar gengið eftir. Sviðsmyndirnar eru nokkrar og sýna margvíslegar afleiðingar hlýnunar á vistkerfi og búsvæði jarðar. Sú hætta er raunverulega fyrir hendi að hlýnunin í lofthjúpnum nái vendipunkti (e. tipping point). Þangað viljum við ekki fara því að sé vendipunkti náð er staðan orðin óviðráðanleg og hlýnun af mannavöldum fær ótrufluð að eyða náttúrufari, bræða jökla og útrýma dýrategundum.
Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015 náðu ríki heims samkomulagi sem kennt er við París um að halda hlýnun jarðar undir 2°C (miðað við stöðuna fyrir iðnbyltingu) og reyna að halda henni innan við 1,5°C. En síðan eru liðin nærri sex ár og skuldbindingar sem þessi sömu ríki hafa sjálfviljug axlað duga ekki til. Nú horfir heimsbyggðin til loftslagsráðstefnunnar í Glasgow í árslok í von um skýrari skuldbingingar svo að markmiðinu verði náð í tæka tíð.
Forgangsmál að draga úr losuninni. Bindingin er bónus
Hvert einasta ríki heims þarf að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hamfarahlýnun, hálfkák og fögur orð duga ekki og aðgerðaleysi er ekki í boði. Við verðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum og það er brýnt að horfast í augu við að raunverulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verður að vera í forgangi. Binding koldíoxíðs í landgræðslu og skógrækt skiptir vissulega máli en en eins og málum er komið er hún bara bónus.
Samfylkingin leggur til að dregið verði úr losun hér á landi um 60% eigi síðar en 2030 og að Ísland verði orðið kolefnisneikvætt árið 2040. Til að svo megi verða þurfa allar opinberar fjárfestingar hér á landi að hafa það að markmiði að draga úr losun. Uppbygging atvinnugreina verður að hafa það að aðalmarkmiði að draga úr losun. Skattaívilnanir og efnahagslegir hvatar verða að sjálfsögðu að hafa sama markmið og nýtast öllu launafólki, ekki bara þeim sem hafa efni á að kaupa sér niðurgreidda en rándýra rafmagnsbíla. Uppbygging borgarlínunnar er auðvitað forgangsmál. Til að skapa breiða samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir þurfa stjórnvöld að eiga náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda.
Í takt við tilmæli OECD
Það var ánægjulegt að sjá tilmæli OECD um loftslagsaðgerðir í nýrri skýrslu um Ísland en þau eru í góðu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar. Þar er lagt til að þróa samræmda umgjörð um loftslagsaðgerðir með skýrri forgangsröðun og aðgerðaáætlun og draga úr vægi tæknilegra ráðstafana; framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir loftslagsaðgerðir; leggja kolefnisskatta eða aðra loftlagsskatta á allar greinar út frá losun þ.á.m. jarðhita, sorphirðu og landbúnað. Og að lokum að auka fjárfestingu í lágkolefna samgönguinnviðum, orkuskiptum og stafrænum innviðum.
Þetta er vel hægt!
Frambjóðendur Samfylkingarinnar skoðuðu hið stórmerka CarbFix verkefni við Hellisheiðarvirkjun nýlega. Þar er fjárfesting í hugviti og mannauði að skila okkur ávinningi sem engan hefði órað fyrir: að binda koldíoxíð útblástur frá jarðvarmavirkjun í berglögum. Ekki furða að CarbFix verkefnið hafi vakið heimsathygli. Ég er þess fullviss að framfarir á sviði vísinda og nýsköpunar munu vinna með mannkyni í baráttunni við loftslagsbreytingar en þær gefa okkur ekki leyfi til að sitja með hendur í skauti og vona það besta. Brýnasta verkefni okkar næst ártuginn er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland geti með sanni sagt þegar frá líður: Við gerðum okkar til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun á 21. öldinni.
Höfundur leiðir framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust og er fyrrverandi umhverfisráðherra.