„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu“
Þetta sagði formaður VG Katrín Jakobsdóttir skömmu áður en hún varð forsætisráðherra. Þarna er formaðurinn að vísa í orð Martins Luther Kings um að bíða með réttlætið jafngilti því að neita fólki um réttlætið. Martin Luther King sagðist einnig eiga sér þann draum um að samfélagið tæki mið af þeirri staðreynd að allir men væru skapaðir jafnir.
Draumur Martins Luther Kings hlýtur að vera leiðarljós allra sem kenna sig við jafnaðarmennsku.
Nú er að hefjast annað kjörtímabil undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Mörg okkar höfðu miklar væntingar til þess að ríkisstjórn undir hennar forystu tæki til hendinni og innleiddi aukið réttlæti í stað þess að viðhalda óréttlæti.
Allar kannanir á efnahagslegri stöðu einstakra hópa sýna að eldra fólk og öryrkjar eru þeir hópar sem eru líklegastir til að búa við fátækt. Af því má leiða að það eru þeir hópar sem lengst hafa beðið eftir réttlætinu.
Sé horft til síðasta kjörtímabils gerðist fátt sem breytti efnalegri stöðu eldra fólks. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru nefnd nokkur atriði sem ríkisstjórnin ætlar vinna að í málefnum eldra fólks. Stjórnarsáttmáli er samansafn markmiða en fjárlög hvers árs kveða á um hvað eigi að vinna að á yfirstandandi ári.
Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktun um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2026. Í fjármálastefnunni er hvergi vikið að því að til standi að leiðrétta óréttlætið gagnvart eldra fólki. Það er hins vegar nefnt að eldra fólk verði aukin byrði á samfélaginu á komandi árum vegna hækkandi hlutfalls þeirra sem ná að verða eldri en 67 ára. Sú neikvæða sýn sem birtist í fjármálastefnunni er mikið áhyggjuefni og nálgast fordóma gagnvart eldra fólki.
Það er horft framhjá því að eldra fólk greiðir skatta af öllu sínum tekjum og nýjustu rannsóknir sýna að það stendur undir þeim kostnaði sem samfélagið verður fyrir vegna þjónustu við eldra fólk. Þess vegna getum við sagt með stolti að eldra fólk er sjálfbært .
Formaður Framsóknarflokksins talaði mikið um í aðdraganda kosninganna að flokkurinn vildi fjárfesta í fólki. Ef horft er til fjárlaga fyrir árið 2022 og fjármálastefnuna til ársins 2026 bendir allt til að Sigurður Ingi hafi ekki átt við að það væri áhugavert að fjárfesta í eldra fólki. Það er mikill misskilningur, því það er góð fjárfesting að bæta lífskjör eldra fólks og skapa því skilyrði til að geta búið sem lengst heima hjá sér. Að fresta því t.d. í hálft ár eða kannski í enn lengri tíma að eldra fólk þurfi á mikilli samfélagslegri aðstoð gefur vel í aðra hönd, það bætir lífsgæði og sparar bein útgjöld sveitarfélaga og ríkis.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins talar um land tækifæranna. Martin Luther King dreymdi jöfn tækifæri fyrir alla. Fjárlögin og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar benda til að Bjarni hafi ekki verið að meina að land tækifæranna væri fyrir alla.
Ef við horfum til fjárlaga fyrir árið 2022 og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar bendir allt til að eldra fólk verði enn að bíða eftir réttlætinu.
Spurningin er: Kemur réttlætið á næsta ári eða kannski á þar næsta?
Ég vil trúa því að Katrín Jakobsdóttir formaður VG hafi meint það árið 2017, rétt áður en hún varð forsætisráðherra, að fátækt fólk getur ekki beðið eftir réttlætinu.
Höfundur er formaður kjaranefndar LEB