Undanfarið hafa borist tíðindi af því að kaupmáttur launa taki nú að dragast saman og að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi dregist saman á öðrum ársfjórðungi 2022. Við fyrstu sýn er freistandi að draga þá ályktun að um óheillaþróun sé að ræða þar sem landsmenn beri skarðan hlut frá borði en slíkar ályktanir krefjast þess að horft sé einnig til undirliggjandi efnahagsþróunar og yfir lengri tímabil. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem senn lýkur gildistíma kjarasamninga og kjaraviðræður fara í hönd. Það má færa sterk rök fyrir því að heppilegast og sanngjarnast sé að meta kaupmáttarþróun yfir lengri tíma, t.d. út frá gildistíma lífskjarasamnings.
Kjaraviðræður snúast um lífskjör fólks og jákvæða þróun samfélagsins. Í kjarasamningum er eitt meginmarkmið allra samningsaðila að auka kaupmátt og það hefur tekist með óyggjandi hætti. Annars vegar hefur kaupmáttur launa aukist um 7% frá gildistöku lífskjarasamningsins og það þrátt fyrir að efnahagsumsvif hafi dregist saman um 5% á mann á tímabilinu vegna heimsfaraldursins.
Hins vegar hefur þróun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er enn hagfelldari en frá upphafi árs 2019 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um heil 13%. Horft lengra aftur í tímann er þróunin enn hagfelldari, frá 2016 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 20%. Á síðustu tíu árum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 39% að meðaltali.
Á sama tíma hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna á Norðurlöndum aukist um 9-20%. Á annan kvarða lagðan með vísan til nýlegrar skýrslu Katrínar Ólafsdóttur fyrir Þjóðhagsráð eru öfgarnar enn meiri: „Ef við horfum eingöngu á tímabilið frá 2012 þá er kaupmáttaraukning áNorðurlöndunum á bilinu 2-10% samanborið við 57% á Íslandi.“
Sagan endurtekur sig. Hagsaga Íslands sýnir með óyggjandi hætti að verðbólga dregur úr kaupmætti launa. Um það þarf ekki að deila. Það er meginverkefni aðila vinnumarkaðar að skapa skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu til að tryggja að samdráttur í kaupmætti verði skammvinnur svo sækja megi fram síðar. Á verðbólgu tapa allir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.