Við unnum.
Við, foreldar þriggja barna sem fæddust eingöngu með skarð í gómi, fengum loksins samþykki Sjúkratrygginga Íslands til að laga fæðingargallann hjá börnunum okkar. Þetta er örlítill hópur barna, örfáir foreldrar sem sneru bökum saman, fengu þjóðina í lið með sér og við unnum. Unnum „kerfið“ sem sagði nei án þess að nokkur skildi af hverju. Kannski er barnalegt af mér að orða þetta svona en þannig er tilfinningin.
Við hjónin höfum barist fyrir réttindum sonar okkar í 6 ár; við höfum skrifað ótal bréf til þingmanna og fengið svör frá nánast öllum flokkum, við höfum sótt fundi stjórnmálaflokka til að vekja athygli á málinu, þingmenn hafa fjallað um okkur í ræðustóli Alþingis, við höfum farið á fund í Heilbrigðisráðuneytinu, farið í viðtöl í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, við höfum skrifað facebook-færslur sem hafa verið deilt svo þúsundum skipti, ráðherra hefur breytt reglugerð oftar en einu sinni og bætt við bráðabirgðarákvæði í reglugerðina sem um ræðir núna korteri fyrir kosningar, við höfum kært Sjúkratryggingar þrisvar sinnum til Úrskurðarnefndar velferðarmála, tvisvar til Persónuverndar, einu sinni til Umboðsmanns Alþingis og í ár kærðum við til Héraðsdóms. Dagurinn okkar í dómsal átti að vera núna í október.
Okkur hjónum hefur orðið tíðrætt um „kerfið“ undanfarna daga; af hverju gefur „kerfið“ ekki eftir fyrr en í fulla hnefa þó að allir/flestir sjái óréttlætið? Af hverju þarf venjulegt fólk að halda áfram svo árum skipti til að ná fram réttlæti? T.d. í bankahruninu þá uppgötvuðum við Siggi að undirskriftir okkar höfðu verið falsaðar á lánaumsókn sem bankinn vottaði að væru okkar undirskriftir, við kærðum málið til lögreglu en bankinn gaf ekki eftir fyrr en korter í að málið færi fyrir dóm. Af hverju þarf venjulegt fólk að hafa getu, orku og fjármagn til að fara alla leið? Og hvað með hina sem skortir eitt af þessu?
Við erum auðvitað hoppandi glöð yfir þeirri niðurstöðu að Sjúkratryggingar sjái sóma sinn í að klára að leiðrétta fæðingargalla skarðabarna. Það breytir því samt ekki að „kerfið“ þarf uppfærslu. „Kerfið“ þarf að sjá heildarmyndina og hætta að treysta því að fólk hafi ekki allt sem þarf til að berjast alla leið. Ríkið inni í ríkinu, sem þessar stofnanir virðast margar vera, þurfa að spila með liðinu sem við þjóðin erum. Það eru forngripir í innstu kimum hverrar stofnunar sem þarf að hreinsa út. Við þurfum að útrýma þeim til að fylgja þróun samfélagsins. Þeir eru þarna alls staðar ...
Okkur langar að þakka ykkur öllum sem studduð okkur í baráttunni. Þegar við erum svona fá þá er stuðningur þúsunda ómetanlegur, það eru engin orð sem geta lýst þakklætinu sem við berum í brjósti. Orð virðast svo lítilvæg en ég vona að þau skili sér til sem flestra og þið vitið að þið skiptuð máli og tókuð þátt í skrefi að kerfisuppfærslu sem er löngu tímabær.
Höfundur er móðir.