Ég vildi að ég gæti hvatt fólk til að kjósa eftir sannfæringu sinni á laugardaginn. Við eigum jú að velja þá stefnu sem við finnum samhljóm með og taka undir hana með atkvæði okkar. En því miður er það ekki svo einfalt. Við erum komin í þá stöðu að stefna flokka fyrir kosningar er orðin einhver sýndarveruleiki sem er nánast úr öllum tengslum við raunveruleikann eftir kosningar. Og þá er ég ekki að vísa í óheiðarlega stjórnmálamenn sem lofa upp í ermina á sér, þó þeir séu vissulega til. Það er kerfið sem er óheiðarlegt.
Ég er að tala um kosningakerfið okkar, sem er að bregðast okkur. Kerfið er bilað, og hér er bilanagreiningin á því:
1- Fjölgun flokka á síðustu árum hefur mikið verið rædd. Sumir vilja meina að meira úrval sé af hinu góða. Það eru þó takmörk fyrir því. Í þessu landi eru um það bil 300.000 mismunandi skoðanir, en sem betur fer eru ekki jafn margir flokkar. Hlutverk flokkakerfisins er meðal annars að einfalda valið sem kjósendur standa frammi fyrir. Þegar stefnuskrár eru margar og frambjóðendur enn fleiri er hætt við að sumir kjósendur nenni einfaldlega ekki að setja sig inn í málin. Það hafa nefnilega ekki allir brennandi áhuga á stjórnmálum, sem er bara hið besta mál. Við þurfum helst fáa, en skýra og ólíka kosti, en fáum einmitt hið gagnstæða: marga, óskýra og að mörgu leyti sambærilega kosti. Við erum ekki bara beðin um að velja á milli 10 mismunandi flokka, heldur á milli 50 mismunandi stjórnarmynstra með 50 mismunandi stefnuskrám sem enginn veit hvernig líta út. Það mætti alveg eins koma með tvo teninga í kjörklefann og kjósa eftir þeim. Sem betur fer hafa nokkrir flokkar útilokað samstarf við suma aðra flokka, og þannig hefur möguleikum fækkað. Þeir eru samt margir eftir.
2- Fjölgun flokka verður líka til þess að fleiri þeirra eiga á hættu að ná ekki 5% lágmarki sem er nauðsynlegt til að komast inn á þing. Það gæti hæglega gerst til dæmis að tveir flokkar fengju hvor 4,5% fylgi, sem þýðir að atkvæði hjá 9% kjósenda myndu falla dauð. Þessir kjósendur þurfa nú að fara í einhverja flókna útreikninga til að átta sig á því hvort það borgi sig frekar að kjósa flokkinn sem þeir telji vera besta kostinn, eða þann næstbesta, eða jafnvel þann þriðja besta. Ekki einu sinni gamalreyndir stjórnmálaskýrendur geta skorið úr um það.
3- Eitt mikilvægasta hlutverk kosninga er að veita sitjandi ríkisstjórn aðhald, sem felst meðal annars í því að dæma um hvort hún hafi staðið við loforðin sem hún setti fram í stefnuskrá sinni. En þegar margir flokkar eru í stjórn samtímis er óhjákvæmilegt að stór hluti loforðanna fari í vaskinn. Þá er illmögulegt að meta frammistöðu flokkanna hvað það varðar. Kjósandinn getur ekki sinnt aðhaldi ef hann stendur í myrkrinu. Um leið hvetur þetta kerfi til loforðaverðbólgu þar sem flokkarnir vita að þeir verða hvort sem er aldrei í meirihluta, og þar með aldrei í stöðu til að hrinda stefnuskrá sinni í framkvæmd óbreyttri.
4- Og þá erum við komin að kjarna málsins sem er þessi: lýðræði snýst ekki bara um kosningar, það snýst um gagnsæi. Til þess að gagnsæi sé til staðar þurfa málamiðlanir að eiga sér stað fyrir kosningar í gegnum flokksstarfið, því þannig geta allir sem það vilja tekið þátt í þeim, fylgst með og reynt að hafa áhrif á stefnumótun flokksins. Fjölmiðlar geta sagt frá málamiðlunum og túlkað þær. En nú fer sífellt stærri hluti þessara málamiðlana fram eftir kosningar, á milli örfárra manna í reykfylltum bakherbergjum, og enginn veit neitt. Sem dæmi má nefna að nú 4 árum eftir síðustu stjórnarmyndunarviðræður eru stjórnmálamenn enn að tala um að það hafi „slitnað upp úr“ viðræðum flokka frá miðju til vinstri eftir síðustu kosningar. Á hvaða málefni strönduðu viðræðurnar? Hver var það var sem dró lappirnar? Hver ákvað að það skyldi hætta við samninga? Hvað gerðist? Enginn veit nema örfáir, og þeir neita að segja frá því. Það er nákvæmlega ekkert gegnsætt eða lýðræðislegt við slíkar stjórnarmyndunarviðræður, en samt er niðurstaða þessara viðræðna hin raunverulega stefnuskrá flokkana. Hinar eru til skrauts.
Við hljótum að geta fundið leiðir til að bæta þetta kerfi þannig að það líkist meira lýðræði og minna lotterí. Blokkamyndun er ein leið og flokkar ættu að hugleiða það alvarlega fyrir næstu kosningar að fara í miklu nánara samstarf sín á milli, sameinast um fáar en öruggar umbætur og bjóða þannig kjósendum upp á skýra valkosti. Ef flokkarnir eru ekki færir um þetta er ef til vill engin önnur lausn en að hækka þröskuldinn til að komast inn á þing og þvinga þá þannig til sameiningar.