Tölfræðingurinn Steve Selvin, prófessor við Kaliforníuháskóla í Berkeley kom með áhugaverða þraut og lét lausnina fylgja í tímariti tölfræðinga the American Statistician árið 1975. Þrautin var lauslega byggð á skemmtiþætti Monty Hall; Let's Make a Deal og er því kölluð The Monty Hall problem eða Monty Hall vandamálið. Monty Hall vandamálið komst í endurnýjun lífdaga árið 1990 í tímaritinu the Parade þar sem lesandi sendi inn þessa spurningu til Marilyn vos Santos. Spurningin sem kom frá lesandanum Craig F. Whitaker til Marilyn var svo hljóðandi:
Segjum að þú takir þátt í skemmtiþætti og þú færð að velja eina hurð af þremur: Fyrir aftan eina hurð er bíll en fyrir aftan hinar tvær eru geitur. Þú ákveður að velja hurð númer 1. Þáttastjórnandinn veit, ólíkt þér, fyrir aftan hvaða hurð bílinn er að finna og opnar hurð númer 3 sem hefur að geyma geit. Eftir að hafa opnað hurðina þá býður hann þér að breyta um svar og spyr: „Viltu breyta og velja hurð númer 2?“. Hefur þú sem þátttakandi í skemmtiþættinum hag af því að breyta svari þínu?
Svarið er að keppandi hefur alltaf hag af því að breyta um hurð. Þegar keppandi valdi fyrst hurð númer 1. þá voru líkindin 1/3 á að sú hurð innihéldi bíl meðan allar hurðir voru lokaðar. Eftir að þáttastjórnandi opnar hurð númer 3, sem inniheldur geit, þá eru líkindin á að hurð númer 2 innihaldi bílinn orðnar 2/3.
Alþingiskosningarnar núna í september eru orðnar mjög sögulegar. Ég gerði mér það að leik að búa til stjórnmálaflokk, XFlokkinn, flokk sem tekur til sín öll vafaatkvæði kosninganna. Atkvæði sem eru ógild, auð, atkvæði flokka sem ná ekki yfir fimm prósent múrinn, atkvæði sem greidd voru Miðflokknum í Suðurkjördæmi en sem enduðu hjá Sjálfstæðisflokki og svo atkvæðin sem greidd voru í Norðvesturkjördæmi. XFlokkurinn hlaut samkvæmt þessari nálgun 39469 atkvæði eða 19,35% atkvæða. Það sem lesa má af þeirri iðju er að atkvæðafjöldinn sem ekki nýttist eða var hafður af fólki með mistökum, kosningalögunum sjálfum eða óheilindum gagnvart kjósendum er augljóslega allt of hár.
Þar með komum við að vandamálinu sem kom upp vegna þess að kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi fór ekki eftir lögum um kosningar til Alþingis. Í dæminu hér að ofan má sjá að Miðflokkurinn er ekki inni, hann var innan við 900 atkvæðum frá því að detta út af þingi miðað við niðurstöðurnar úr kosningunum. Það sýnir sig hversu afdrifaríkt það er þegar oddviti flokksins í Suðurkjördæmi færir sig yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig hefði það komið út fyrir Miðflokkinn hefði umræddur oddviti skipað eitt af þremur efstu sætunum fyrir Sjálfstæðisflokk. Hefði Sjálfstæðisflokkur fengið allavega 900 atkvæði frá Miðflokknum með þeim afleiðingum að hann hefði þurrkast út eða hefði Miðflokkurinn haldið sínum kjördæma kjörna fulltrúa í Suðurkjördæmi?
Í ljósi þess hversu mikill fjöldi atkvæða fellur á milli skips og bryggju í framkvæmd kosninganna til Alþingis í september síðastliðnum að þá er ekkert í stöðunni annað en að kjósa aftur á landinu öllu. Nauðsynlegt er að breyta 108. grein kosningalaga til Alþingis frá árinu 2000 í þá veru að þau stjórnmálasamtök sem koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta verði að hljóta að minnsta kosti fjögur af hverjum hundrað af gildum atkvæðum á landinu öllu. Lýðræðið verður að njóta vafans.
Höfundur er áhugamaður um lýðræðismál.