Í aðdraganda kosninga tala ýmsir flokkar um forvarnir í tengslum við heilbrigðiskerfið og heilsu þjóðarinnar. Ein slík forvörn er skimun fyrir krabbameinum en nokkrar slíkar skimanir hafa sýnt sig að beri árangur þegar kemur að því að bjarga mannslífum og draga úr óþarfa kostnaði og þjáningu vegna meins sem greinist seint.
Samkvæmt tölum frá Krabbameinsfélaginu hefur yfir 450 íslenskum konum verið forðað frá dauða vegna leghálskrabbameins á árunum 1972-2020 og því er mikilvægt að fyrirkomulagi leghálsskimana hér á landi verði komið í lag og konur haldi áfram að nýta þær mikilvægu skimanir.
Önnur slík skimun er skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem er annað algengasta krabbameinið á Íslandi og er einnig það krabbamein sem dregur næstflesta til dauða á eftir lungnakrabbameini. Engin skipulögð skimun er til staðar á Íslandi fyrir þessu krabbameini en á öllum hinum Norðurlöndunum hefur verið hafin lýðgrunduð skimun á ristil- og endaþarmskrabbameini enda hefur verið sýnt fram á að slík skimun dregur úr dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Áætlað er að á Íslandi geti slík skimun komið í veg fyrir að minnsta kosti 6 dauðsföll af þeim 28 á ári sem verða af völdum sjúkdómsins meðal fólks á skimunaraldri.
Eins og við skimun fyrir leghálskrabbameini er hægt að greina krabbamein í ristli og endaþarmi á forstigi - áður en það verður að krabbameini. Þetta er hægt að gera með ristilspeglun en þá er unnt að meðhöndla forstigið með því að fjarlægja það í sömu aðgerð og skimað er fyrir því. Einnig er hægt að skima fyrir krabbameininu með svokallaðri FIT-skimun. Slík skimun miðar að því að finna einkennalaus krabbamein á lægri og læknanlegri stigum. Tugum milljóna hefur verið varið í undirbúning á þeirri skimun hérlendis en ekkert orðið úr henni.
Á hinum Norðurlöndum og í öðrum samanburðarlöndum er mismunandi hvaða aðferð er notast við - en skipulögð skimun er hafin í flestum löndum Evrópu. Fagráð um skimanir fyrir krabbameinum á Íslandi hefur mælt með að einstaklingum sem eru á 51. aldursári verði boðin ristilspeglun sem frumskimun en annars val um að þiggja FIT próf einu sinni.
Í dag er engin lýðgrunduð skimun til staðar á Íslandi þrátt fyrir augljósan ávinning slíkrar skimunar. Þess í stað er til staðar óskipulögð leit þar sem einstaklingar sem upplýstir eru um skimunarmöguleika og hafa til þess fjárhagslega burði mæta sjálfir í ristilspeglun, yfirleitt á einkastofum. Þetta fyrirkomulag ýtir undir heilsufarslegan ójöfnuð þar sem valinn hópur fer óþarflega oft í skimun á meðan meginþorri fólks, og talsverður hluti sem gæti haft gagn af skimuninni, mætir ekki.
Í kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningar 25. september 2021 er lögð áhersla á að koma skimunum á Íslandi í skikkanlegt horf. Þetta getum við aðeins gert ef við fáum til þess umboð í nýrri ríkisstjórn. Sú sem nú situr hefur haft tækifæri til þess en ekki gripið það.
Höfundur er nemi á 6. ári í læknisfræði og skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður fyrir komandi alþingiskosningar.