Íslenskar konur eiga ekkert í gildandi stjórnarskrá. Núlifandi kynslóðir karla ekki heldur.
Í auglýsingu Kvenréttindafélags Íslands 19. júní síðastliðinn segir að kynjajafnrétti náist aldrei hér á landi ef konur eiga ekki fullan og jafnan þátt í ákvörðunartöku á öllum sviðum samfélagsins. „Jafnrétti verður aldrei náð ef það er ekki fyrir okkur öll og kvenfrelsi náum við aðeins í sameiningu.“ Til að magna upp þessi orð var í auglýsingunni notuð ljósmynd sem er einskonar endurgerð á málverki Gunnlaugs Blöndal af Þjóðfundinum 1851. Á ljósmyndinni eru núlifandi Íslendingar. Bæði konur og karlar. Á málverki Gunnlaugs eru eingöngu karlar sem tilheyra löngu liðnum kynslóðum. Konur höfðu hvorki kjörgengi né kosningarétt þegar kosið var til Þjóðfundarins, kjörgengi og kosningaréttur var bundinn við afmarkaðan hóp karla.
Þjóðfundurinn var afleiðing uppreisna og þjóðvakningaröldu sem gekk yfir Evrópu á fyrri hluta 19. aldar og náði hámarki 1848. Kröfur voru uppi um lýðfrelsi og afnám forréttinda aðals og konungsstjórnar. Hræringarnar leiddu til þess að einveldi var afnumið í Danmörku og þar með vaknaði spurning um stöðu Íslands í danska ríkinu. Það var tilefni Þjóðfundarins 1851. Þjóðfundarfulltrúar litu svo á að samkoman væri stjórnlagaþing, jafnsett þinginu í Danmörku. Slík þing höfðu verið haldin víðsvegar í Evrópu en þegar hér var komið sögu hafði slegið í bakseglin. Uppreisnir höfðu verið barðar niður með harðri hendi og gamla valdakerfið náð taki sínu ný, líkt og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur lýsir í grein um Þjóðfundinn í tímaritinu Andvara 1968.
Stjórnarskrá samin af landsmönnum sjálfum komst ekki aftur á dagskrá fyrr en við lýðveldisstofnunina 1944. Allir skildu það svo að lýðveldisstjórnarskráin væri aðeins til bráðabirgða. Því var heitið af helstu stjórnmálaforkólfum landsins að um leið og sjálfstæðismálið yrði í höfn myndu landsmenn semja sér sína eigin stjórnarskrá. Það fyrirheit var ekki efnt fyrr en við Hrunið 2008. Þá líkt og um miðja 19. öld ríkti uppreisnarástand og látið var undan háværum kröfum um nýja stjórnarskrá. Skipuð var stjórnlaganefnd, efnt til þjóðfundar þar sem 1000 fulltrúar voru valdir slembivali úr þjóðskrá, kosið til stjórnlagaþings og þjóðkjörnir fulltrúar skipaðir í Stjórnlagaráð af Alþingi. Í þetta skipti hafði ekki aðeins afmarkaður hópur karla kjörgengi og kosningarétt, heldur konur og karlar til jafns. Stjórnarskrárferlið vakti heimsathygli fyrir víðtæka þátttöku almennings og fæddi af sér tillögur að nýrri stjórnarskrá. Stjórnlagaráðið afhenti Alþingi tillögurnar á tilsettum tíma sem síðan voru bornar efnislega undir landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Yfir 2/3 hlutar kjósenda vildu að þessar tillögur yrðu grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. Ætla mátti að málið væri þar með útkljáð og að ný stjórnarskrá yrði lögfest. En, líkt og 1851, höfðu veður skipast í lofti. Við Hrunið varð gamla valdakerfið skelkað og gaf eftir; þegar lög um stjórnlagaþing voru samþykkt 2010 greiddi aðeins einn þingmaður atkvæði á móti. Haustið 2012 hafði það hins vegar náð að jafna sig. Varaformaður helsta valdaflokks landsins sá þetta fyrir þegar árið 2010 eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið kom út og missti út úr sér opinberlega: „Þessi rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið.“
Endalok Þjóðfundarins 1851 urðu landsmönnum mikil vonbrigði til skamms tíma en hugmyndirnar sem Jón Sigurðsson setti á flot byltingarárið 1848 urðu sannfæring meirihluta þjóðarinnar og áttu eftir að blómstra. Í kjölfar Hrunsins 2008 sömdu landsmenn sér loksins eigin stjórnarskrá í löngu og ströngu lýðræðislegu ferli og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einungis er eftir að Alþingi virði úrslit þeirrar kosningar og í lýðræðisríki er aðeins tímaspursmál hvenær það verður. Ólíkt þjóðfundarmönnum 1851, sem urðu að una því að fundinum var hleypt upp og honum slitið, náðu núlifandi íslenskir borgarar í mark. Tilraunir til að eyðileggja stjórnarskrárferlið sem Hrunið hratt af stað misheppnuðust allar. Landsmenn eiga nýja stjórnarskrá, fólk af öllum kynjum.
Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.