Ég heyrði þann 9. júlí 2022 endurfluttan á Rás 1 ársgamlan útvarpsþátt Lísu Páls um göngugötuna Laugaveg. Þar ræðir hún m.a. við Hjálmar Sveinsson, þá borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og fyrrum formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.
Ég vil byrja á að taka fram að ég hef ekkert á móti göngugötum, fjarri því. En hins vegar er ekki sama hvernig að þeim er staðið. Við göngugötur eru ekki bara verslanir, fólk býr líka við þær og það þarf að taka tillit til þess. Þess vegna hjó ég í viðbrögð Hjálmars við athugasemd Lísu, um að það kunni að koma íbúum illa að bannað sé að aka um göngugötur og þungar sektir liggi við því að aka eða leggja í göngugötu. Hvað ef það vantar pípara með þungan búnað, sem hann getur ekki borið langa leið? Hvað með ömmu gömlu sem á að bjóða í mat, en getur ekki gengið spölinn að bílnum? Leigubílar fást ekki til að aka inn í göngugötur, því þeir eiga háar sektir yfir höfði sér. Þetta hlýtur að vera íþyngjandi fyrir íbúana, sagði Lísa. Hjálmar Sveinsson hafði engar áhyggjur af þessu: Það hafa verið göngugötur í öðrum löndum í áratugi. Fólk verður bara að læra á þetta.
Læra hvað, Hjálmar?
Leyfið mér að segja dæmisögu sem er að gerast einmitt þessa dagana. Góð vinkona mín er illa veik og nokkrir ættingjar og vinir aðstoða hana eftir föngum. Það væri ekki í frásögur færandi, ef hún byggi ekki við götu sem nýlega var gerð að göngugötu. Sem stendur getur hún ekki gengið nema fáein skref, í mesta lagi niður tröppurnar og út í bíl sem lagt er beint fyrir utan. Fyrir nokkru sótti ég hana til að fara í meðferð upp á spítala og ók henni svo heim aftur. Ég ók afar hægt og varlega þessa húslengd inn göngugötuna og lagði fyrir utan dyr hennar, reyndar fyrir aftan sendiferðabíl sem ég held að hafi verið að koma með aðföng í verslun beint á móti. Studdi mína vinkonu upp á loft og hljóp svo niður til að færa bílinn. Þá var stöðumælavörður að enda við að setja 10.000 króna sektarmiða á bílinn. Honum þótti leitt að geta ekki dregið kæruna til baka þegar hann heyrði um málavöxtu, en réði mér að skrifa Bílastæðasjóði og fara fram á niðurfellingu sektar í ljósi aðstæðna. Ég skrifaði samdægurs. Svarið kom eftir þrjár vikur: Bifreiðinni TKS96 hafði verið lagt á gangstétt (er öll gatan orðin gangstétt? Ég lagði þar sem ég hef alltaf lagt, svipað og sendiferðabíllinn) og það væri brot á eftirtöldum paragröfum í lögum lýðveldisins. Ekki nóg með það, heldur hefði bifreiðinni TKS96 verið ekið inn göngugötu! Og það væri brot á eftirtöldum paragröfum í lögum lýðveldisins. Því væri beiðni um niðurfellingu sektar hafnað. Sektin stæði.
Ég játa að það þykknaði í mér. Ég hafði samband við sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og gat ekki betur heyrt en hún væri sammála mér um að svona mál þyrfti að leysa. Það verður að vera hægt að sækja sjúkling sem á heima við göngugötu. Ef það gengur ekki verðum við að kalla til sjúkrabíl í hvert sinn sem vinkona mín þarf að fara milli staða. Reikningurinn verður að sjálfsögðu sendur á Reykjavíkurborg. Sviðsstjórinn hló við og sagði það væri alger óþarfi, auðvitað væri hægt að leysa þetta.
Liðu svo 3 vikur. Eftir ítrekun mína hringdi kona frá Bílastæðasjóði til að leita lausna. Sjúklingurinn gæti sótt um fatlaðramerki í bílinn sinn. En hún á ekki bíl. Ég stakk upp á að Bílastæðasjóður hefði lista yfir 2-3 bíla sem hefðu heimild til að aka þennan spotta og leggja fyrir utan til að aðstoða sjúklinginn. Á tölvuöld gæti það ekki verið flókið. Konan spurði hvort ég væri að biðja sig að brjóta lög lýðveldisins? Það gæti hún ekki gert. Ég gæti hins vegar leitað til sýslumanns um heimild til umferðar um svæðið. Slíkri umsókn frá sjúklingnum þyrfti að fylgja mynd og læknisvottorð.
Ég hafði samband við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu. Jú, sjúklingurinn gæti sótt um slíka heimild, og fengið einn slíkan passa. En við erum fleiri, sem aðstoðum hana, benti ég á. Gætum við þrjú fengið hvert sinn passann? Nei! Við gætum bara nálgast passann hvert hjá öðru. Ertu að leggja til að ég aki upp í Mosfellsbæ til að ná í passann svo ég geti farið niður á Laugaveg að sækja sjúkling sem á að fara á Hringbraut? Já, þannig verður það að vera, það er bara einn passi samkvæmt lögum lýðveldisins. Ertu að fara fram á að opinber starfsmaður brjóti lög?
Ég sagðist ekki vita hvað ég væri að fara fram á. En nú, þegar ég hef heyrt Hjálmar Sveinsson tjá sig um þessi mál, veit ég að fólk verður bara að læra á þetta. Spurningin er hver þarf að læra. Sjúklingurinn hreyfihamlaði? Píparinn með þunga búnaðinn? Amma gamla fótafúna? Hvað eiga þau að læra?
Það skyldi þó ekki vera að einhver annar þurfi að læra hvernig á að reka göngugötur með góðum árangri? Getur verið að Hjálmar Sveinsson og borgaryfirvöld eigi eitthvað ólært?
Guðrún Pétursdóttir er prófessor emerita og ekur vélknúnu ökutæki.