Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hefur nýlega birt skýrslu um launaþróun í heiminum 2019-2020. Skýrslan lýsir áhrifum Kóvid-kreppunnar á launaþróun í fjölda aðildarríkja ILO.
Meðal niðurstaðna er að í tveimur af hverjum þremur löndum sem gögnin ná til lækkuðu laun á árinu 2020. Kreppan hefur almennt bitnað mest á láglaunafólki. Þannig er það yfirleitt í kreppum.
Alþjóðavinnumálastofnunin varar við því að í kjölfar kreppunnar muni þrýstingur á lækkun launa halda áfram og ef það gengur eftir mun slíkt hafa neikvæð áhrif á uppsveifluna og auka ójöfnuð. Mikilvægt sé því að draga úr láglaunavanda í framhaldinu til að koma til móts við þá sem þyngstar byrðar hafa borið.
Ef reynsla Íslands í gegnum kreppuna er borin saman við niðurstöður skýrslu ILO þá kemur mikil sérstaða Íslands í ljós.
Í nýlegri smá-skýrslu Eflingar, Kaupmáttur almennings mildaði kreppuna, er launaþróunin á Íslandi í gegnum kreppuna sýnd og má segja að hún sé öndverð við það sem algengast hefur verið í heiminum, skv. gögnum ILO.
Hér hafa laun vinnandi fólks almennt aukist síðan 2019. Þetta má sjá á eftirfarandi mynd. Tölurnar sýna heildarhækkun launa á viðkomandi tímabilum. Frá þeim þarf að draga verðlagshækkun til að fá kaupmáttaraukninguna.
Annað einkenni launaþróunarinnar á Íslandi í gegnum kreppuna er að laun í láglaunastörfum hækkuðu mest, eins og sést á myndinni. Þar með eru talin láglaunastörf kvenna og innflytjenda, sem Eflingu tókst að fá hækkuð aukalega í sérkjarasamningum við Reykjavíkurborg og samtök sveitarfélaga vorið 2020. Það er sérstaklega skynsamlegt að hækka lægstu laun mest í kreppum.
Að þessu leyti felast talsverð jöfnunaráhrif í gildandi kjarasamningum hér á landi og vinna þau gegn þeirri tilhneigingu til aukins ójafnaðar sem felst í verulega auknu atvinnuleysi í kreppunni, sem alla jafna bitnar mest á lægri launahópum.
Venjulegar hefur kaupmáttur almenns launafólks minnkað í djúpum kreppum, bæði hér á landi og víða á Vesturlöndum. Raunar hefur verið algengast að mæta kreppum með meiri kjaraskerðingum á Íslandi en í grannríkjunum á Vesturlöndum. Framvindan á Íslandi nú í gegnum Kóvid-kreppunar er því óvenjuleg – bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi.
Eftir hrun lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann til dæmis um 27% hér, samanlagt á árunum 2009 og 2010. Enda voru kjarasamningar þá teknir úr sambandi og verðbólga óð upp í kjölfar gengishruns. Til samanburðar jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann að meðaltali nú um 2,5% á árinu 2020, sjá hér, bls. 12. Og kaupmáttaraukningin var talsvert meiri en þetta hjá láglaunafólki.
Sérstaða Íslands skýrð
Hvers vegna hefur þróunin á Íslandi verið öndverð því sem algengast hefur verið í aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar?
Jú, það er vegna þess að Íslendingar búa við sterka verkalýðshreyfingu sem náði því fram að viðhalda kjarasamningum í gegnum Kóvid-kreppuna, þrátt fyrir mikinn þrýsting samtaka atvinnurekenda (SA) og sumra fjölmiðla um að taka samningana úr gildi og þrýsta kaupmætti niður.
Raunar er þetta í fyrsta skiptið á lýðveldistímanum frá 1944 að það tekst að halda kaupmætti almenns launafólks í gegnum djúpa kreppu hér á landi og jafnvel auka hann. Það endurspeglar aukinn kraft verkalýðshreyfingarinnar núna, samanborið við fyrri tíð.
Það sem helst stendur útaf er að ekki tókst að fá stjórnvöld til að hækka atvinnuleysisbætur nógu mikið. Eftir situr því sú staðreynd að það fólk sem missti vinnuna vegna Kóvid-kreppunnar ber þyngstar byrðar kreppunnar hér á landi. Aðrir sigla að mestu sléttan sjó í gegnum kreppuna. Þó gætti í sumum tilvikum minnkandi vinnumagns vegna kreppunnar sem kom niður á heildartekjum einstaklinga, þó kaupmáttur héldist.
Þessi sérstaða Íslands hafði þau áhrif að milda kreppuna, eins og sýnt er í ofangreindri smá-skýrslu Eflingar, Kaupmáttur almennings mildaði kreppuna. Við sjáum því nú fram á kröftuga uppsveiflu hér á landi í kjölfar kreppunnar og minni hættu á auknum ójöfnuði en í flestum öðrum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar – ef fram heldur sem horfir.
Stjórnvöld gætu hins vegar skaðað uppsveifluna með því að draga stuðningsaðgerðir sínar of hratt til baka og með skattahækkunum á almennt launafólk. Engin ástæða er til að fara þá leið, enda er skuldastaða ríkisins alls ekki svo slæm. Hagvöxtur framtíðarinnar mun lækka skuldahlutfallið stig af stigi og létta vaxtabyrðina.
Það helsta sem gæti raskað uppsveiflunni er að veiran setji okkur aftur á byrjunarreit með nýjum skæðum afbrigðum.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.