Hvers vegna eru laun í svokölluðum kvennastéttum lægri en laun í hefðbundnum karlastéttum? Að þessu er spurt í niðurlagi nýbirtrar launarannsóknar Hagstofu Íslands. Ástæðurnar eru fjölbreyttar og í gegnum tíðina hefur þetta viðfangsefni verið sagt flókið og því gengið hægt að stíga þau skref sem þarf að stíga til að eyða kynbundnum launamun.
Niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar sýna að launamunur kvenna og karla hefur minnkað síðustu ár. Það er í sjálfu sér jákvætt en það er engu að síður fullkomlega óásættanlegt að kynbundinn launamunur sé enn til staðar.
Í skýrslu Hagstofunnar er bent á að vinnumarkaðurinn sé mjög kynskiptur þegar litið sé til atvinnugreina og starfa og það sé meginástæða kynbundins launamunar. Laun séu að meðaltali lægri í stéttum þar sem konur eru í meirihluta og að þær stéttir heyri margar undir opinbera geirann þar sem launamyndun er ólík því sem er á almennum vinnumarkaði.
Baráttan fyrir launajafnrétti hefur staðið í yfir í meira en hundrað ár. Þannig töldu alþjóðleg kvenréttindasamtök að unnist hefði stórsigur þegar Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) féllst á kröfu þeirra um jafnlaunaákvæði í stofnskrá stofnunarinnar árið 1919. Það var í fyrsta sinn sem gerð var krafa um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Það þótti mun róttækari krafa en krafan um sömu laun fyrir sömu vinnu þar sem hún felur í sér að heimilt er að bera saman ólík en jafnverðmæt störf. Það er umhugsunarefni að okkur hafi ekki tekist að framfylgja betur kröfunni um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf líkt og Ísland skuldbatt sig til að gera með fullgildingu jafnlaunasamþykktar ILO fyrir 63 árum.
Vanmat á störfum kvennastétta byggir almennt ekki á ásetningi um að mismuna skuli kynjunum eða meðvitaðri hlutdrægni heldur er það afleiðing af sögulegum, menningarlegum og kerfisbundnum ástæðum. Með þessa þekkingu í farteskinu erum við betur í stakk búin til að útrýma launamisrétti.
Við vitum að aðgerðarleysi leiðir til þess að ekkert breytist. Þess vegna þarf að grípa þegar í stað til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem hafa í sögulegu ljósi verið vanmetin. Þar eiga stjórnvöld að leika lykilhlutverk með því að innleiða skýra stefnu og þróa verkfæri í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Starfshópur forsætisráðherra um endurmat á störfum kvenna hefur birt tillögur sínar um aðgerðir sem hafa það að markmiði að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hópurinn var skipaður í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga milli aðildarfélaga BSRB og ríkis og sveitarfélaga í mars 2020. Tillögurnar fela í sér að aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins fái eftirfarandi hlutverk:
- Að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa með það að markmiði að skapa verkfæri til að framfylgja jafnlaunaákvæði jafnréttislaga. Verkfærin styðji við þau tæki sem þegar eru í notkun.
- Að þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði meðal annars horft til þess hvaða áhrif breytingar á ráðningasamböndum og útvistun starfa hafa á launamun kynjanna.
- Að stuðla að þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu.
Við getum ekki beðið eftir því að vanmat á störfum kvenna hverfi af sjálfu sér. Við verðum að grípa til aðgerða til að breyta hugsunarhætti okkar allra og ákveða að við sem samfélag ætlum að greiða konum réttlát laun fyrir þá vinnu sem þær inna af hendi. Næsta skref í þeirri baráttu er að fara að tillögum starfshópsins og stíga þannig markvisst skref í átt að því að útrýma kynbundnum launamun.
Höfundur er formaður BSRB.