Verkakonur Íslands

Sólveig Anna Jónsdóttir hvetur verkakonur til að hafna „þeim barnaskap“ að sigrar einstakra valdakvenna komi í staðinn fyrir efnahagslegt réttlæti. „Það er komið svo miklu meira en nóg af þeirri þvælu.“

Auglýsing

Verka­konur Íslands eru ómissandi mann­eskj­ur. Vinnu­afl þeirra heldur leik­skól­unum okkar gang­andi sem og allri þjón­ustu við gam­alt fólk. Vinnu­afl þeirra er einnig und­ir­staðan í verð­mæta­fram­leiðslu þjóð­fé­lags­ins, á hót­el­un­um, í fisk­vinnsl­unni o.s.frv. Vinnu­afl kvenna sem fæddar eru hér og kvenna sem hingað hafa flutt, kvenna með eins fjöl­breyttan upp­runa og bak­grunn og hægt er að hugsa sér er bók­staf­lega grund­vall­ar­for­senda þess nútíma­sam­fé­lags sem við byggj­um. Þær eru hinir raun­veru­legu lyk­il­starfs­menn sam­fé­lags­ins okk­ar, án vinnu­fram­lags þeirra stoppar allt sam­stund­is.

En til­vera verka­kvenna Íslands er þrátt fyrir þessar óum­deil­an­legu stað­reynd­ir, ekki til­vera full af glæstum sigrum kvenna­bar­átt­unn­ar, full af sig­ur­til­finn­ing­unni um að búa í jafn­réttisparadís­inni Íslandi. Sann­ar­lega ekki. Verka­konur Íslands til­heyra hinum risa­stóra alþjóð­lega hópi kven-vinnu­aflsins sem kap­ít­al­ism­inn hefur sent út á vinnu­markað arð­ráns­ins til að halda mask­ínum sam­fé­laga okkar gang­andi dag og nótt, fyrir skíta­laun útreiknuð af reikni­meist­urum stétt­skipt­ingar og kven­fyr­ir­litn­ing­ar. Þar eru verka­konur dæmdar til að dvelja á botn­in­um, vegna sam­ræmdrar grimmdar efna­hags­legrar og póli­tískrar valda­stéttar og alda­langrar kvenna­kúg­unn­ar, jafnt hér sem og ann­ars­staðar í ver­öld­inni.

Auglýsing

Á kven­rétt­inda­eyj­unni Íslandi eiga verka­konur að láta sér duga per­sónu­lega sigra ókunn­ugra kvenna útí bæ. Þegar ekk­ert er eftir í heima­bank­anum og langt í mán­aða­mót, þegar að skóla­ferða­lag barns er í vændum og kostn­að­ur­inn við það étur upp mat­ar­pen­ing heim­il­is­ins, þegar að valið stendur á milli þess að borga reikn­inga eða fara til sál­fræð­ings, þegar leigusal­inn hækkar leig­una ein­fald­lega vegna þess að hann getur það og allir draumar um „fjár­hags­legan stöð­ug­leika“ hverfa útum glugg­ann, þegar hin nístandi sára til­finn­ing sem fæð­ist eftir að þurfa ávallt að setja eigin þarfir og lang­anir aft­ast á for­gangs­röð­un­ar-list­ann hefur tekið sér end­an­lega ból­festu í brjóst­inu sem ást­laus lífs­föru­naut­ur, þegar að pen­inga­leysið fer að fæða af sér heilsu­leysið; þá á verka­konan að muna að ýmsar ókunn­ungar konur hafa kom­ist í ýmsar merki­legar valda­stöð­ur. Hún á að hugsa um Vig­dísi Finn­boga­dóttur eða Katrínu Jak­obs­dótt­ur, hún á að hugsa um Áslaugu Örnu eða Þor­gerði Katrínu, Birnu Ein­ars­dóttur eða Guð­rúnu Haf­steins­dótt­ur, allar „flottu kon­ur“ frétta­tím­anna.

Verka­konan á að horfa í speg­il­inn og við­ur­kenna að hún er svo lít­ils virði, þrátt fyrir að vera mest ómissandi af öll­um, að und­ir­sett staða hennar skiptir engu máli í hinu stóra þjóð­fé­lags­lega sam­hengi, að það eina sem skiptir máli er gleyma því aldrei að á Íslandi geta konur líka orðið stærstu stjór­arn­ir. Verka­konan á að muna að skýrsla er á döf­inni, starfs­hópur er að funda, gögn eru í grein­ingu, að Þor­steinn Víglunds­son fann upp jafn­launa­vott­un­ina, að vinna á heild­stætt mat á því af hverju hún er svona and­skoti blönk alla daga og halda svo heild­stæða kynn­ingu á því heild­stæða mati í Hörpu 8. mars næst­kom­andi þangað sem henni verður ekki boðið en þá er nú mik­il­vægt að muna að þar verða sam­an­komnar margar af flott­ustu konum lands­ins og hvað meira getur verka­kona Íslands eig­in­lega beðið um?

Verka­kona Íslands á að skilja að nýfrjáls­hyggjan hefur vissu­lega ákveðið að skyn­sam­legt sé að bregð­ast við sjálf­sögðum mann­rétt­inda­kröfum kvenna um laga­legt jafn­rétti og við­ur­kenn­ingu. En það skal nægja; þau sem láta sér detta til hugar að krafan um efna­hags­legt rétt­læti sé einnig mann­rétt­inda­krafa og að hana skuli einnig upp­fylla sam­stundis eru nið­ur­rifs­seggir og hyski, hættu­legt glæpa­fólk. Hvers­vegna mætir heiftin þeim sem krefj­ast efna­hags­legs rétt­læt­ir? Jú, vegna þess að ekki má hrófla við efna­hags­legu ein­ræð­is­valdi þeirra sem telja sig eig­endur alls, ekki síst og einna helst verka­kvenn­anna.

Eftir að verka­konan hefur gefið íslensku sam­fé­lagi því sem næst allt sem hún hefur að gefa, lík­am­lega og and­lega heilsu, þrek og þrótt á þeim vinnu­mark­aði sam­ræmdrar lág­launa­stefnu sem hún hefur verið dæmd til að dvelja á, alla sína miklu „fram­leiðn­i“, hefur hún samt ekki gefið nóg; af fórn­fýsi sinni, þeirri fórn­fýsi sem hátt settar konur hafa verið „frels­að­ar“ undan vegna þess að engum dettur lengur til hugar að láta sem að fórn­fýsi sé dyggð hjá konum sem kom­ist hafa langt (hvaða frama­kona fetar frama­braut­ina hönd í hönd með kven­legri fórn­fýsi?) á hún, inn­blásin og inn­rætt af gildum feðra­veld­is­ins, að gefa sína eigin sjálfs­virð­ingu og sætta sig við þá und­ir­settu stöðu sem hún er föst í vegna þess að konur sem hafa aldrei sýnt henni nokkurn minnsta áhuga og vita ekk­ert um hennar til­veru, eru komnar svo afskap­lega langt inn í því grimmi­lega stig­veldi sem skapar og end­ur­fram­leiðir stöðugt hina und­irsettu stöðu verka­kon­unnar sjálfr­ar!

Hvergi birt­ast hinar grát­legu og skammar­legu þver­sagnir borg­ara­legs femín­isma með skýr­ari hætti en í hinni sví­virði­legu kröfu um að verka­konan taki þátt í að við­halda eigin kúgun með því að gleðj­ast yfir stjóra-­sigrum kvenna innan þess stétt­skipta kúg­un­ar­kerfis sem nærir sjálft sig með ofur-arðráni á verka­konum við­stöðu­laust, ár eftir ár eftir ár.

Verka­konur Íslands, ég hvet ykkur til að hafna þeim borg­ara­lega femín­isma sem upp á okkur hefur verið þröngvað. Ég hvet ykkur til að setja ykkur sjálfar efst á for­gangs­röð­un­ar­lista hinnar sam­fé­lags­legu bar­áttu. Ég hvet ykkur til að gera ykkar djúpu og miklu sjálfs­virð­ingu að ykkar beittasta vopni. Ég hvet ykkur til að hafna þeim barna­skap að sigrar ein­stakra valda­kvenna komi í stað­inn fyrir efna­hags­legt rétt­læti ykkur til handa. Það er komið svo miklu meira en nóg af þeirri þvælu.

Verka­konur Íslands, þið hafið engu að tapa og allt að vinna. Í krafti sam­stöð­unnar getum við sjálfar sótt það rétt­læti og þá virð­ingu sem okkur hefur neitað um. Nú er tæki­færið: „Lýður bíð ei lausn­ar­ans“, leys þig sjálf!

Höf­undur er sós­íal­ískur femínisti og skipar 4. sæti á lista Sós­í­alista í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norð­ur.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Í ávarpi sínu fór Katrín yfir þann lærdóm sem hægt er að draga af kórónuveirufaraldrinum, meðal annars að samheldni samfélagsins hafi reynst okkar mestu verðmæti.
Ekki einungis hægt að vísa ábyrgð á launafólk
Katrín Jakobsdóttir segir atvinnulíf og stjórnvöld bera mikla ábyrgð á bráttunni við verðbólguna og að ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni eingöngu á launafólk í komandi kjarasamningum.
Kjarninn 20. maí 2022
Ingrid Kuhlman og Bjarni Jónsson
Læknar og hjúkrunarfræðingar styðja dánaraðstoð
Kjarninn 20. maí 2022
Frá utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg.
Neita að upplýsa um fjölda útgefinna neyðarvegabréfa
Nýlega var reglugerð samþykkt í dómsmálaráðuneyti sem veitir utanríkisráðherra heimild til að óska eftir því að ÚTL gefi út vegabréf til útlendings ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Utanríkisráðuneytið upplýsir ekki um fjölda útgefinna vegabréfa.
Kjarninn 20. maí 2022
Myndin er fengin úr kerfisáætlun Landsnets 2016-2025. „DC-strengur á Sprengisandsleið hefur jákvæð áhrif á mögulega lengd jarðstrengja á Norðurlandi,“ segir í myndatexta.
Sprengisandskapall „umfangsmikil og dýr“ framkvæmd fyrir „fáa kílómetra“ af jarðstreng í Blöndulínu
Landsnet tekur ekki undir þau sjónarmið Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi að skynsamlegt sé að leggja jarðstreng yfir Sprengisand til að auka möguleika á því að leggja hluta Blöndulínu 3 í jörð.
Kjarninn 20. maí 2022
Hersir Sigurgeirsson
Segir sig frá úttektinni á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka
Bankasýsla ríkisins sendi bréf til ríkisendurskoðanda með ábendingu um að Hersir Sigurgeirsson hefði sett „like“ á tiltekna færslu á Facebook sem varðaði útboðið. „Ég kann ekki við slíkt eftirlit,“ segir Hersir.
Kjarninn 20. maí 2022
Hvernig gengur að koma úkraínskum flóttabörnum inn í skólakerfið?
Langfæst börn sem flúið hafa stríðið í Úkraínu með foreldrum sínum á síðustu vikum og mánuðum eru komin inn í skólakerfið hér á landi og spila þar inn margir þættir. Samstarf á milli stærstu sveitarfélaganna hefur þó gengið vel.
Kjarninn 20. maí 2022
Jarðskjálftahrinur ollu mikilli hræðslu meðal barna og engar upplýsingar voru veittar til fólksins, sem margt glímir við áfallastreituröskun. Ásbrú er því ekki ákjósanlegasti dvalarstaðurinn fyrir fólk sem flúið hefur stríðsátök, að mati UN Women.
Konur upplifi sig ekki öruggar á Ásbrú – og erfitt að koma óskum á framfæri
UN Women á Íslandi gera alvarlegar athugasemdir við svör Útlendingastofnunar varðandi útbúnað og aðstæður fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ásbrú.
Kjarninn 20. maí 2022
Myndir af börnum í Austur-Kongó með alvarleg einkenni apabólu.
Fimm staðreyndir um apabólu
Apabóla er orð sem Íslendingar höfðu fæstir heyrt þar til nýverið er tilfelli af þessum sjúkdómi hófu að greinast í Evrópu og Norður-Ameríku. Sjúkdómurinn er hins vegar vel þekktur í fátækustu ríkjum heims þar sem þúsundir sýkjast árlega.
Kjarninn 19. maí 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar