Stytting vinnuvikunnar hefur verið eitt af stærstu baráttumálum BSRB undanfarinn áratug. Við náðum stórum áfanga í kjarasamningum við ríki og sveitarfélög árið 2020. Þá var samið um allt að 36 stunda vinnuviku hjá dagvinnufólki byggða á endurskipulagi innan vinnustaða og allt niður í 32 stunda vinnuviku hjá vaktavinnufólki sem vinnur á öllum tímum sólarhringsins og gengur þyngstu vaktirnar, hvorutveggja án launaskerðingar.
Í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er aftur að hefjast umræða um styttingu vinnuvikunnar. Áhugavert er að fylgjast með skrifum þeirra sem finna styttri vinnuviku allt til foráttu og þá ekki síst fyrir þær sakir að helstu röksemdirnar gegn styttri vinnuviku hafa ekkert breyst í áratugi þrátt fyrir miklar samfélagsbreytingar. Í því sambandi skiptir engu hvort litið er til tímans í kringum kjarasamningana 2020, ársins 2010 þegar BSRB setti málið á oddinn eða allt aftur til ársins 1971 þegar vinnuvikan var stytt í 5 daga. Enn áhugaverðara er að fylgjast með skrifum þeirra sem einfaldlega vilja afskrifa styttingu vinnuvikunnar hér á landi. Staðreyndin er sú að hún er nú þegar orðin að raunveruleika hjá hluta fólks á íslenskum vinnumarkaði sem hefur einmitt veitt fjölda þjóða og vinnustaða innblástur til að prófa sig áfram með styttri vinnutíma.
Algengast er að hugmyndir um möguleikann á styttri vinnuviku séu afskrifaðar á grundvelli lögmála hagfræðinnar. Það er í sjálfu sér merkilegt því fjöldi innlendra sem erlendra rannsókna sýnir að það má vel stytta vinnuvikuna án þess að það komi niður á afköstum hjá starfsfólki í dagvinnu. Annað gildir um vinnu þar sem unnið er á öllum tímum sólarhringsins því þar verður að koma til aukin mönnun, en þá verður einnig að líta til þess að slíkur vinnutími hefur neikvæðari áhrif á heilsu og lífslíkur fólks og því er enn mikilvægara að stytta vinnuvikuna í slíkum störfum. Reynslan hér á landi, rúmlega 12 mánuðum eftir að vinnutímanum var breytt í vaktavinnu, sýnir enn fremur að kostnaður hefur haldist innan þess ramma sem settur var í upphafi.
Þróun vinnutíma
Lengd vinnuvikunnar hér á landi eða annars staðar í heiminum er ekki náttúrulögmál. Þvert á móti eru engin vísindaleg rök fyrir því að vinnuvikan er víðast hvar 40 tímar á viku. Þróunin á lengd vinnuvikunnar er öfugsnúin að því leyti að hún byggir ekki á vísindalegum niðurstöðum um hve lengi við getum einbeitt okkur eða hvert líkamlegt úthald okkar sé til að sinna hinum ýmsu fjölbreyttu störfum. Hún byggir heldur ekki á þekkingu um hvað geti skilað bestu mögulegu niðurstöðu fyrir einstaklinginn, fjölskylduna, vinnustaðinn og samfélagið allt. Þegar fólk fór fyrst að vinna fyrir aðra vann það gjarnan í líkamlega erfiðum störfum og vinnudagurinn var almennt 10 til 16 tímar, sex daga vikunnar. Til að sporna gegn neikvæðum og óheilsusamlegum áhrifum svo langrar vinnuviku hófu stéttarfélög baráttuna fyrir hámarkslengd vinnuvikunnar, afmörkun hvíldartíma og frítíma fólks frá störfum. Þetta var í iðnbyltingunni undir lok 19. aldar.
Ef við horfum á þróun vinnutíma yfir lengri tíma sjáum við að þrátt fyrir að við vinnum vissulega færri stundir en áður þá hefur hægst verulega á þróuninni undanfarna áratugi. Á áttunda áratugnum þustu konur út á vinnumarkaðinn og atvinnuþátttaka hefur því aukist gríðarlega, tækninni fleygt fram sem veldur því að störf hafa breyst og við erum öll að leysa miklu fleiri og flóknari verkefni í störfum okkar en fólk í svipuðum störfum gerði til dæmis fyrir 50 árum. Í dag eru störf almennt meira krefjandi fyrir hugann en líkamann og ofan á launuðu störfin bætist við önnur og þriðja vaktin sem felst í ábyrgð á börnum og heimilinu en ennþá er lengd vinnuvikunnar sú sama.
Jafnræði í vinnutíma fyrir ólíka hópa
Almennt er talið að um helmingur fólks á vinnumarkaði dagsins í dag geti stjórnað hvaðan það vinnur, hvenær og hversu mikið. Flest spá því að til framtíðar muni sveigjanleiki í þessum störfum aukast og fólk ráði þessu alfarið sjálft, enda verði áherslan þá á verkefnin í stað stimpilklukku. Í þeirri framtíðarmúsík verðum við að velta því fyrir okkur hvort við ætlum áfram að láta launafólk sem ekki nýtur þessa sveigjanleika, hinn helminginn, vinna sömu gömlu vinnuvikuna og var komið á þegar langafar okkar voru að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þetta á til dæmis við um störf þar sem krafist er samskipta, umönnunar, hjúkrunar, löggæslu og annarrar þjónustu við fólk eða viðveru. Það mun óneitanlega hafa áhrif á starfsval fólks.
BSRB hefur verið, og verður áfram, sannfært um gildi styttri vinnuviku fyrir vinnustaði, atvinnurekendur, launafólk og fjölskyldur þeirra sem og samfélagið allt. Ávinningurinn er bætt heilsa og öryggi starfsfólks, aukin lífsgæði, aukið jafnrétti kynjanna, minnkað kolefnisfótspor og hamingjusamari þjóð. Allt sem þarf er hugrekki til að breyta úreltum hugmyndum um vinnutímann, endurskipulagning á því hvernig við vinnum og ríkt samráð og samvinna stjórnenda og starfsfólks þar um. Umræðan á ekki að snúast um hvort rétt sé að stytta vinnuvikuna, heldur hversu stutt vinnuvikan geti mögulega orðið.
Höfundur er formaður BSRB.