Við leggjum háa tolla á innflutt matvæli. Þeir valda því að verð kjöts, mjólkurvara og eggja er um 35% hærra hér en annars væri og líka mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Þetta háa matarverð er mjög íþyngjandi fyrir landann, sérstaklega fátækt fólk. Flestar þjóðir Evrópu hafa enda fellt niður matartolla sín á milli. Við eigum að sjálfsögðu að gera það líka.
Það bætir hag neytenda
Ef tollarnir verða felldir niður myndi matarkostnaður á mann lækka að meðaltali um 15.000 kr. á mánuði, eða 180.000 kr. á ári. Fyrir 3ja manna fjölskyldu gerir þetta um 540.000 kr. á ári. Til að afla þeirra tekna þarf um 1 milljón króna tekjur fyrir skatta.
Niðurfelling tolla þýðir ekki bara minni dagleg útgjöld til matarkaupa. Lægri matarkostnaður lækkar lán og afborganir. Færri Íslendingar myndu flytjast frá landinu og við fengjum fleira ferðafólk út um land og svo framvegis.
Bætum líka hag bænda
Búvörusamningar renna út á næsta ári. Mikilvægt er að taka upp nýja landbúnaðarstefnu til að bæta hag bænda og neytenda sem og í þágu umhverfis- og loftlagsmála. Nærtækt er þá að taka mið af kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið í Evrópu á síðustu áratugum og kallast Sameiginlega landbúnaðarstefnan (e: CAP).
Fyrirkomulagið er þannig að virkir bændur, sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir, fá fastan mánaðarlegan grunnstuðning sem svarar til launa. Stuðningurinn tengist ekki beint framleiddu magni af tilteknum landbúnaðarvörum, lambakjöti og mjólk eins og hér. Hann fá allir virkir bændur sem starfa í viðurkenndum greinum landbúnaðar samkvæmt starfshlutfalli. Greiðslunum er ætlað að stuðla að stöðugu framboði helstu matvara og þær eru óháðar sveiflum á matvælamörkuðum.
Bændur afla sér viðbótar arðs með því að framleiða þau matvæli sem gefa þeim viðbótar arð. Um leið og bændum er þannig tryggt afkomuöryggi eru markaðsöflin virkjuð þannig að landbúnaðurinn aðlagar sig hraðar og betur að eftirspurn neytenda.
Umbuna mætti sérstaklega fyrir ýmislegt svo sem lífræna framleiðslu og umhverfisvæn þjóðþrifaverkefni svo sem skógrækt og endurheimt votlendis.
Upphæð allra greiðslnanna ræðst af ákvörðun stjórnvalda í samráði við bændur og aðra hagaðila. Þeim má haga þannig að bændur hafi það gott um leið og neytendur fá meira vöruframboð á hagstæðara verði.
Kjarasamningar, bændasamningar, lífskjör
Hár framfærslukostnaður á Íslandi þrýstir á um launahækkanir og eykur framleiðslukostnað fyrirtækja. Launahækkanir umfram getu fyrirtækjanna auka verðbólgu. Hún tekur til baka launahækkanirnar, hækkar lán og afborganir og veikir hag fyrirtækjanna.
Hár framleiðslukostnaður gerir landið minna samkeppnisfært. Færri góð fyrirtæki setjast hér að og fleiri Íslendingar flytja úr landi.
Það er mikils virði að stuðla að svipuðu verðlagi hér og í nágrannalöndunum og það má auðveldlega gera með því að fella niður matartolla. Þeir eru enda þjóðarskömm í ljósi útbreiddrar fátæktar og þess að þúsundir barna sem lifa við ónóg efnisleg gæði.
Hér er kjörið mál til að taka á komandi kjaraviðræðum og samningum við bændur.
Höfundur er viðskiptafræðingur.
Tilvísanir:
https://agriculture.ec.europa.eu/common-agricultural-policy/cap-overview/cap-glance_en