Hámarkshraðaáætlunin sem Reykjavík samþykkti fyrir tæpu ári er byrjuð að koma til framkvæmda. Búið er að lækka hraðann í Laugardalnum og á Snorrabraut. Fleiri götur og hverfi eru á leiðinni.
Í stuttu mál ganga tillögurnar aðallega út á það að stækka verulega 30-svæðin í borginni og minnka hámarkshraðann niður úr 40 km/klst á ýmsum tengibrautum sem liggja í og við íbúðabyggð. Markmiðin með áætluninni voru: bætt öryggi, minni hávaði, minni mengun og bætt upplifun íbúa.
Ein af þeim áhyggjum sem heyra mátti væri að lækkaður hraði myndi auka ferðatíma strætó og minnka líkur á því að fólk tæki strætó. Sá þáttur var skoðaður sérstaklega og liggja niðurstöðurnar nú fyrir. Keyrt var ákveðið líkan til að athuga hversu miklar viðbótartafir gætu orðið á hverri ferð. Niðurstöðurnar fyrir þá sviðsmynd sem líklegust var talin má sjá á töflunni fyrir neðan.
Heildarskýrsluna má sjá hér.
Nánast engin töf á fjölförnustu leiðina
Við sjáum að viðbótartöf fyrir fjölförnustu leið strætó, Leið 1 er nánast engin. Á þeirri leið keyrir strætó að langstærstum hluta á stofnbrautum þar sem hraðinn mun haldast óbreyttur. Þarna stoppar strætó líka ört enda er leiðin mikið notuð. Þegar strætó stoppar ört nær hann hvort sem er oft ekki að halda löglegum hámarkshraða lengi og því verða áhrifin lítil.
Fólk sem gengur tekur frekar strætó
Lægri umferðarhraði býr til betra og manneskjulegra borgarumhverfi. Fólk mun frekar vilja ganga meðfram götum þar sem umferð er rólegri. Og fólk sem gengur er líka opnara fyrir að hoppa í strætó. Lækkun hámarkshraða er því ekki bara ásættanleg fyrir strætó, lækkunin stuðlar að því að búa til borgarumhverfi þar sem fólk nota strætó frekar.
Hámarkshraðaáætlunin mun til lengdar stuðla betra umferðaröryggi, minni hávaða, minni mengun og umfram allt bættu borgarumhverfi. Ég hlakka til að sjá hana verða að veruleika.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður skipulags- og samgönguráðs.