Halldór Benjamín Þorbergsson birti í gær grein í Viðskiptablaðinu sem dregur upp mjög ranga mynd af skattbyrði tekjuhópa. Sýndar eru tölur sem benda til að tekjuhærri helmingur almennings greiði allan tekjuskattinn sem á er lagður í landinu (sjá hér).
Skilaboðin eru þau, að ríka fólkið greiði skattana fyrir tekjulægri helming almennings (16 ára og eldri).
Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson hefur einnig flaggar slíkum tölum.
Fær þetta staðist? Nei, fjarri lagi.
Réttið upp hönd sem sleppið við staðgreiðslu?
Er ekki dregin staðgreiðsla í hverjum mánuði af tekjulægstu lífeyrisþegum sem og einstaklingum á vinnumarkaði sem hafa heildartekjur undir 490 þúsund krónum á mánuði?
Ójú! Heldur betur.
Þeir sem eru með 490 þúsund á mánuði greiða af því um 105 þúsund í staðgreiðslu á mánuði. Þeir sem eru með 350.000 krónur, sem eru lágmarkslaun á vinnumarkaði í dag, greiða 72 þúsund í staðgreiðslu á mánuði. Lífeyrisþegi með 300 þúsund í heildartekjur á mánuði greiðir um 40 þúsund krónur í staðgreiðslu.
Halldór og Bjarni fá þessa niðurstöðu með því að sleppa greiðslu útsvars og neysluskatta úr myndinni. Allir greiða útsvar, nema helst stóreignafólkið sem er eingöngu eða að mestu leyti með fjármagnstekjur. Flest lágtekjufólk greiðir útsvar.
Þegar talað er um tekjuskatt þá er venjulega verið að vísa til þess sem tekið er af fólki í staðgreiðslu, samanlagðan tekjuskatt og útsvar. Hluti þess rennur til ríkisins en hluti (útsvarið) fer til sveitarfélaganna. Það snýst um hvernig skatttekjum hins opinbera er skipt milli ríkis og sveitarfélaga. Að sleppa útsvarinu er blekking þegar fjallar er um dreifingu skattbyrðarinnar.
Síðan greiðir fólk einnig óbeina skatta, neysluskatta (t.d. virðisaukaskatt af keyptri vöru og þjónustu).
Lágtekjufólk eyðir öllum tekjum sínum í daglega neyslu og framfærslu sem ber neysluskatta, mest virðisaukaskatt. Hátekjufólk sem á afgang eftir framfærsluna til að leggja í sparnað og fjárfestingu greiðir því ekki neysluskatta af öllum tekjum sínum.
Það þýðir að neysluskattar leggjast með hlutfallslega meiri þunga á lægri tekjur. Þetta er vel þekkt staðreynd úr skattafræðum. Tekjuskattar leggjast hins vegar með vaxandi þunga á hærri tekjur (nema fjármagnstekjur, sem koma mest til hátekjufólks).
Þegar bæði útsvar og neysluskattar eru tekin inn í myndina þá verður niðurstaðan sú, að lægri tekjuhópar og milli tekjuhópar greiða stærstan hluta af skatttekjum hins opinbera (sjá grein Indriða H. Þorlákssonar fyrrverandi ríkisskattstjóra um það hér.
Sú mynd sem Halldór Benjamín og Bjarni Benediktsson draga upp er því gróf blekkingarmynd.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.