„Netið er eiginlega eins og nýr himinn yfir okkur – og auðvitað nýir undirheimar.“ Þetta eru orð úr munni persónunnar Ása í skáldsögunni Fjarvera þín er myrkur, eftir Jón Kalman Stefánsson, og lýsa vel þeim samfélagsbreytingum sem orðið hafa með tilkomu internetsins. Netið hefur veitt okkur aðgang að nýjum veruleika, ógrynni upplýsinga og nýjum leiðum til að eiga í samskiptum. Fjölmiðlun nútímans fer ekki lengur bara fram í hefðbundnum fjölmiðlum, heldur einnig á samfélagsmiðlum. Tveir af hverjum þremur Íslendingum nálgast fréttir á samfélagsmiðlum, samkvæmt nýlegri könnun Fjölmiðlanefndar.
En netheimum fylgja líka ýmsar áskoranir og skuggahliðar, sem eru alltaf að koma betur og betur í ljós. Algóritmar og meðmælakerfi sem byggja á gervigreind stýra því hvaða efni við sjáum á samfélagsmiðlum og hvað við sjáum ekki. Upplýsingaóreiða, djúpfalsanir og annað vafasamt efni flæðir um gáttir þessara miðla. Fjöldi manna víða um heim hefur atvinnu af því að fjarlægja efni og falska notendareikninga af samfélagsmiðlum, þótt heldur hafi fækkað í þeirra röðum með nýlegum hópuppsögnum hjá Twitter. Fram til þessa hefur ekki ríkt mikið gagnsæi um þessa starfsemi en nýrri löggjöf ESB um stafræn málefni er ætlað að breyta því.
Strangari reglur um stærstu fyrirtækin
Löggjöf þessi kallast Digital Services Act eða DSA til styttingar og tók gildi 16. nóvember sl. í aðildarríkjum ESB. DSA inniheldur reglur um starfsemi tæknifyrirtækja sem gegna hlutverki milliliða í upplýsingasamfélaginu á netinu og tengja þar saman notendur og efni, vörur og þjónustu. Með DSA reglugerðinni verður þessum milliliðum skylt að grípa til aðgerða til að vernda notendur og ríkustu skyldurnar eru lagðar á allra stærstu aðilana; þá sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif á og stýra því hvaða efni birtist notendum. Dæmi um slíka milliliði eru Facebook, Twitter, Instagram, TikTok og Google.
Fjögurra ára aðdragandi
Aðdragandann að DSA regluverkinu er að rekja aftur til ársins 2018 þegar fjögur alþjóðleg tæknifyrirtæki skuldbundu sig gagnvart Evrópusambandinu til að fylgja ákveðnum starfsreglum, EU Code of Practise on Disinformation. Þetta voru Facebook, Google, Twitter og Mozilla og síðar áttu Microsoft og TikTok eftir að bætast við hópinn. Þessar reglur voru uppfærðar í sumar og þá bættust ennþá fleiri fyrirtæki við í hópinn. Í uppfærðum starfsreglum kemur fram að þeim sé ætlað að útfæra og vera í samræmi við markmið DSA gagnvart stærstu tæknifyrirtækjunum.
Fjarlægja skal ólögmætt efni
Helstu nýmæli í DSA eru meðal annars þau að netvettvöngum (e. online platforms) verður skylt að fjarlægja ólögmætt efni af sínum miðlum með skjótum hætti, hafi þeim borist tilkynning um tilvist þess, og jafnframt eiga þessi fyrirtæki að bjóða upp á úrræði fyrir notendur til að kvarta, hafi efni þeirra verið fjarlægt. Allra stærstu tæknifyrirtækin bera mesta ábyrgð en það eru samfélagsmiðlar og leitarvélar með yfir 45 milljónir notenda. Útnefndir verða viðurkenndir tilkynnendur í hverju ríki en það geta verið aðilar eins og Ríkislögreglustjóri, Barnaheill og höfundaréttarsamtök og fá tilkynningar frá slíkum aðilum flýtimeðferð.
Hvað er ólögmætt efni?
Reglurnar miðast við að tæknifyrirtæki fjarlægi efni sem er ólögmætt samkvæmt landslögum í hverju ríki eða samkvæmt Evrópulöggjöf. Þannig myndi Facebook á Þýskalandi t.d. þurfa að fjarlægja myndir sem sýna hakakross nasista, þar sem birting slíkra tákna fer í bága við þýsk lög. Það sama myndi ekki gilda um Facebook á Íslandi. Þetta eru nýmæli að því leyti að hingað til hefur Evrópuregluverk um hljóð- og myndmiðla miðast við „meginregluna um upprunaríki“, sem gengur út á að hljóð- og myndmiðlar þurfi einungis að fara eftir landslögum í einu ríki innan EES-svæðisins.
Hvað með skaðlegt efni sem ekki er endilega ólögmætt?
Stærstu „platformarnir“ og leitarvélarnar eiga að framkvæma reglubundið áhættumat til að meta líkurnar á því að hönnun þeirra, algóritmar og þjónusta geti stefnt grundvallarréttindum notenda í hættu. Réttindum á borð við vernd persónuupplýsinga, tjáningarfrelsi, vernd barna og neytendavernd. Fyrirtækin verða líka að bretta upp ermar til að sporna við kerfisbundinni dreifingu á upplýsingaóreiðu, netofbeldi og falsfréttum um lýðheilsumál, eins og þeim sem vart var við í kórónuveirufaraldrinum. Ef hryðjuverkaárás, náttúruhamfarir, stríð eða heimsfaraldur myndi ríða yfir Evrópu getur framkvæmdastjórn ESB lagt fyrir stærstu tæknifyrirtækin að grípa þegar í stað til aðgerða gegn hugsanlegum upplýsingaóreiðuherferðum.
Hvað með auglýsingar á netinu?
Óheimilt verður að beina sérsniðnum auglýsingum að fólki á grundvelli persónuupplýsinga um trú, kynhneigð, heilsufar og pólitískar skoðanir. Einnig verður óheimilt að beina auglýsingum að ungmennum á grundvelli persónusniðs. Þá verða gerðar kröfur um aukið gagnsæi í kringum auglýsingar og auglýsendur.
Meira gagnsæi
Reglur DSA ganga raunar að stórum hluta út á að tæknifyrirtækin auki gagnsæi í breiðum skilningi, gagnsæi um stafrænar auglýsingar og þá sem greiða fyrir þær, og einnig gagnsæi um notkun algóritma, persónusniðs og meðmælakerfa, meðal annars til að forða því að notendur falli ofan í kanínuholur fóðraðar með áróðri og samsæriskenningum. Fyrirtækin eiga að skila skýrslum og veita fræðimönnum betra aðgengi að upplýsingum og gögnum en verið hefur hingað til.
Hvaða upplýsingar þurfa stóru tæknifyrirtækin að veita?
Allra stærstu tæknifyrirtækin verða að afhenda upplýsingar sem hingað til hafa verið vel varðveittar, en það eru upplýsingar um fjölda þeirra notandareikninga sem þau fjarlægja og einnig upplýsingar um starfsfólk, fjölda þess, sérfræðiþekkingu og tungumálakunnáttu. Þau verða að upplýsa um notkun gervigreindar við fjarlægingu á ólögmætu efni og hvers konar efni hafi verið fjarlægt. Einnig þurfa þau að birta skýrslur um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af þeirra hálfu til að draga úr skaðlegum áhrifum á tjáningarfrelsi, lýðheilsu og lýðræðislegar kosningar á þeirra miðlum.
Hvað gerist ef fyrirtækin fara ekki eftir reglunum?
Eftirlit með tæknifyrirtækjum sem staðsett eru í ríkjum innan EES verður í höndum eftirlitsaðila í hverju ríki, svokallaðra „Digital Service Coordinators“, á meðan eftirlit með allra stærstu aðilunum, eins og Google og Facebook, verður í höndum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eftirlitsaðilar geta mælt fyrir um fjarlægingu á ólögmætu efni og jafnframt munu notendur geta tilkynnt um ólögmætt efni. Ber þá tæknifyrirtækjunum að taka þær tilkynningar til skoðunar. Eftirlitsaðilar geta síðan sektað fyrirtæki um allt að 6 % af ársveltu þeirra vegna brota gegn ákvæðum DSA.
Hvert er gildissviðið?
DSA gildir um aðila með starfsemi í Evrópu, óháð því hvort höfuðstöðvar þeirra eru innan eða utan Evrópu. Eina skilyrðið er að starfsemin beinist að neytendum í aðildarríkjum EES.
Gildissvið reglugerðarinnar er síðan lagskipt eftir eðli þjónustu og fjölda notenda. Í ysta laginu eru hreinræktaðir tæknilegir milligönguaðilar, t.d. fjarskiptaþjónustur og lénaþjónustur. Um þá aðila gilda vægustu reglurnar. Fyrir innan þá eru hýsingaraðilar og sambærilegar þjónustur og eru örlítið meiri kröfur gerðar til þeirra aðila. Næst innst eru þeir sem kalla má netvettvanga, eða „online platforms“ á ensku, og í innsta kjarna eru stærstu netvettvangarnir; samfélagsmiðlar og leitarvélar með 45 milljónir eða fleiri notendur. Um innsta kjarnann gilda ítarlegustu reglurnar.
Hvað með efni fjölmiðla sem deilt er á samfélagsmiðlum?
Hefðbundnir fjölmiðlar falla ekki undir gildissvið DSA, þar sem efni þeirra er hlaðið beint og milliliðalaust inn á miðlana. Samkvæmt DSA eiga samfélagsmiðlar og leitarvélar hins vegar að fjarlægja allt ólögmætt efni af sínum miðlum og er engin undanþága í regluverkinu fyrir fjölmiðla. Þetta var leyst með því að bæta við ákvæði um sérmeðferð fjölmiðla í drögum að annarri reglugerð Evrópusambandsins, European Media Freedom Act, sem birt var 16. september sl. Þannig má segja að þessar tvær reglugerðir kallist á.
Allra stærstu samfélagsmiðlunum og leitarvélunum verður skylt að upplýsa fjölmiðla fyrirfram ef til stendur að fjarlægja efni sem frá þeim stafar. Kvartanir yfirlýstra fjölmiðla yfir fjarlægingu efnis á grundvelli DSA fá forgangs- og flýtimeðferð hjá miðlunum, auk þess sem fjölmiðlar munu geta beint kvörtunum til stjórnar eftirlitsaðila, The European Board for Media Services, sem komið verður á fót.
Yfirlýstum fjölmiðli, sem ítrekað verður fyrir fjarlægingu efnis, skal gefast kostur á viðræðum við fulltrúa samfélagsmiðilsins, til að leita skýringa og, eftir atvikum, koma í veg fyrir að efni fjölmiðilsins verði áfram settar óréttmætar skorður. Þá verður samfélagsmiðlum og leitarvélum skylt að birta árlega upplýsingar um fjölda tilvika þar sem efni yfirlýstra
fjölmiðla voru skorður settar eða það fjarlægt og jafnframt rökstuðning fyrir þeim ákvörðunum.
Þar fyrir utan innihalda drögin að European Media Freedom Act ákvæði sem kveða á um réttindi af ýmsu tagi. Meðal annars reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði, vernd heimildarmanna, sjálfstæði almannaþjónustufjölmiðla, gagnsæi eignarhalds og gagnsæi í auglýsingakaupum ríkisins. Stefnt er að því European Media Freedom Act taki gildi í Evrópusambandsríkjum að ári liðnu.
Rétt er að geta þess að framangreind regluverk hafa ekki bara þýðingu í aðildarríkjum Evrópusambandsins, því að EES-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein er skylt að innleiða þau í landslög, eftir þeim lögformlegu reglum sem gilda um upptöku löggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn.
Það er ekki svo að Facebook og Google megi ekkert lengur. En tæknifyrirtækin verða nú að að axla meiri ábyrgð og aðlaga starfsemi sína að breyttu lagaumhverfi: Nýjum himni yfir okkur þar sem markmiðið er vernda mannréttindi almennings á netinu og styrkja lýðræðislega umræðu.
Höfundur er yfirlögfræðingur Fjölmiðlanefndar.