Hvar sem maður fer um finnur maður að það er hugur í jafnaðarmönnum. Bankasöluhneykslið rifjaði rækilega upp fyrir fólki vinnubrögð og stjórnarhætti Sjálfstæðismanna sem leiddu á sínum tíma til hruns efnahagslífsins. Þegar sá flokkur ræður för er meira hugsað um hag útvalinna en almannahag, reglur um verklag eru sveigðar eða hreinlega brotnar. Í bankasölunni var afsláttur ætlaður fáum stórum langtímafjárfestum veittur mörgum litlum og sérvöldum skyndigróðafjárfestum, sem meðal annars komu úr hópi þeirra sem sáu um söluna og fengu fyrir 700 milljónir. Svona eru vinnubrögðin á vakt Sjálfstæðismanna.
Það sem sameinar
Og það er kraftur í Samfylkingarfólki alls staðar. Það er næstum áþreifanlegt. Flokkurinn býður fram um allt land, víðast hvar undir eigin merkjum en sums staðar í samvinnu við aðra flokka og óháða sem hafa svipuð viðhorf og félagslegar áherslur.
Víða er Samfylkingin í stjórn bæjarfélaga, annars staðar í minnihluta, og alls staðar eru átakalínurnar þær sömu. Þar sem Samfylkingin er sterk er traustur meirihluti félagshyggjuflokka en þar sem hún er ekki jafn sterk myndar Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta, stundum með þeim flokkum sem keppa við Samfylkinguna um atkvæði félagslega sinnaðra kjósenda.
Oft er spurt: hver er eiginlega munurinn á Samfylkingunni og öðrum félagshyggjuflokkum sem hafa svipaðan málflutning í mörgum helstu deilumálum? Þegar að er gáð kemur í ljós alls konar áherslumunur í einstökum málum, en helsti munurinn liggur að mínu viti í sjálfu erindi flokksins. Aðrir flokkar frá miðju til vinstri voru stofnaðir utan um áherslu á einhverja sérstöðu, það sem aðgreini flokkinn frá öðrum. Samfylkingin var stofnuð til að sameina jafnaðarmenn. Hún er ekki stofnuð kringum sérstöðu, heldur samstöðu. Hún er ekki stofnuð til að sundra heldur til að sameina.
Í Samfylkingunni ríkir hefð fyrir því að rökræða um alls konar mál, og stundum er þar tekist hressilega á eins og heilbrigt og eðlilegt er í stórum flokki með hugsjónaríku fólki, en um leið sameinumst við öll um hina stóru og miklu hugsjón jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og samstöðu. Við viljum að jafnaðarstefnan sé alltaf og alls staðar lögð til grundvallar. Um það sameinumst við.
Umgjörð daglegs lífs
Sveitarstjórnarmálin snúast um daglegt líf okkar og umgjörð þess. Þau snúast um börnin og gamla fólkið, þjónustu við fatlaða og umönnun þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þau snúast um skóla og velferðarþjónustu – en líka um sorphirðu, fráveitumál og göngustíga, snjóruðning og gatnagerð. Þau snúast um menningu og listir og íþróttastarf. Þau snúast um húsnæðismál, skipulag og almenningssamgöngur sem virka, bæði til að standast loftslagsmarkmið og til að skapa raunhæfan kost fyrir fólk sem ekki hefur tök eða áhuga á að reka bíl með ærnum tilkostnaði, hvað þá marga bíla.
Sveitastjórnarmálin snúast þannig um alls konar verkefni í nærsamfélaginu sem tryggja öllum íbúum tiltekið þjónustustig og velferð sem við viljum hafa í lagi. Hver staður hefur sín sérstöku úrlausnarefni og ágreiningur virðist stundum lítill milli flokkana um lausn þeirra. En þegar að er gáð er samspil landsmála og sveitarstjórnarmálanna meira en við gerum okkur stundum grein fyrir. Ríkið hefur tilhneigingu til að hlaða verkefnum á sveitastjórnir án þess að fjármagn eða tekjustofnar fylgi. Ríkið hefur ekki fjármagnað heilbrigðiskerfið eins og því ber, þjónusta við fatlaða er verulega vanfjármögnuð og allt bitnar þetta á sveitastjórnarstiginu. Það eru miklar brotalamir á húsnæðiskerfinu, bæði hvað varðar framboð og fjármögnun, en tilraunir til að kenna stjórn stærsta sveitarfélagsins um gjörvallan húsnæðisvandann eru fráleitar.
Nú er mikið í húfi. Þessar kosningar eru mjög mikilvægt tækifæri fyrir kjósendur að kjósa gegn fjármálaspillingu, gróðavæðingu innviða og sérhagsmunagæslu – en með félagslegum áherslum, umhverfisvitund, virðingu fyrir mannréttindum og öðrum grundvallargildum jafnaðarstefnunnar.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.