Þó að þeim fari fjölgandi sem vita hver Elon Musk er eru þeir fleiri sem kannast við Iron Man. Ekki vita þó allir að Elon Musk er fyrirmyndin að Tony Stark, járnmanninum sem getur allt.
PayPal, SpaceX, Teslamotors og SolarCity eru allt fyrirtæki sem hann átti að mestu eða öllu leyti þátt í að koma á fót.
Byrjaði á Blastar
Elon Musk fæddist í Suður-Afríku hinn 28. júní árið 1971 og er því aðeins 42 ára. Hann bjó til og seldi sína fyrstu vöru tólf ára, tölvuleikinn Blastar. 17 ára fór hann að heiman með eina ferðatösku og vasapening. Ferðinni var heitið til Kanada, þaðan sem móðir hans var, og fékk hann þar því ríkisborgararétt og vegabréf. Musk vann fyrir sér og fór í skóla. Skólagangan fór þannig fram að hann las námsefnið í upphafi annar en fór ekki í tíma og tók síðan prófin með glans. Musk er nefnilega þeim hæfilæka gæddur að hann gleymir nánast engu. Á þessum tíma hugleiddi hann stundum hvað myndi hafa meiriháttar jákvæð áhrif fyrir mannkynið. Niðurstaðan var internetið, sjálfbær orka og að byggja aðrar plánetur. Gervigreind og endurritun DNA voru tveir aðrir hlutir sem hann vonaði að myndu einnig hafa jákvæð áhrif.
Árið 1995, þegar Musk var við það að hefja nám við Stanford-háskóla, langaði hann að taka þátt í uppbyggingu internetsins. Hann bað því um leyfi til að snúa aftur til náms ef fyrirtækið hans færi á hausinn. Því næst fékk hann Kimbal bróður sinn með sér í lið. Þeir leigðu sér skrifstofu þar sem þeir unnu og sváfu til að spara peninga og fóru í sturtu í ræktinni. Í upphafi voru einungis til peningar fyrir einni tölvu og á daginn hýsti hún síðuna en á nóttunni notaði Elon hana til að forrita. Fyrirtækið hét Zip2, en það gerði m.a. samninga við Chicago Tribune og New York Times og kom þeim á kortið. Árið 1999 keypti Compaq Zip2 á um 35 milljarða króna og varð það í framhaldinu hluti af AltaVista. Næst stofnaði Musk x.com sem síðan sameinaðist PayPal og eBay keypti árið 2002 á 170 milljarða. Hlutur hans af þeirri sölu var um 18 milljarðar.
Hér hefði margur sest í helgan stein og var Elon spurður af hverju hann keypti sér ekki eyju og drykki kokkteila á ströndinni það sem eftir væri. Svarið var: „Fyrir mig væru það kvalir, skelfilegt líf.“
Eftir söluna á PayPal kíkti Musk á heimasíðu NASA til þess að forvitnast um hvenær stæði til að fara mannaðar ferðir til Mars. Þar var ekkert að finna um slíkt og eftir frekari eftirgrennslan fékk hann það staðfest að engin slík plön væru til. Það var þá sem hann ákvað að setja um 11,5 milljarða í að stofna SpaceX. Markmið SpaceX er að koma á fót nýlendu á Mars, þúsunda eða tugþúsunda manna. Slíkt myndi verða til þess að mannkynið myndi þróa tæknina til geimferðalaga áfram og tryggja þannig framgang mannkyns um ókomna tíð. Ástæðan er sú að það er óumdeilanlegt að fari maðurinn aldrei af jörðinni kemur hann til með að deyja þar út einhvern tímann. Musk hefur sagt að hann hafi frekar reiknað með því að SpaceX færi á hausinn og hann væri að henda þessum peningum á bálið. Einn af vinum hans setti saman myndband af eldflaugum að springa í loft upp til þess að reyna að fá hann ofan af hugmyndinni en Musk sagði að ef eitthvað væri nógu mikilvægt ætti maður að reyna það þó að líkurnar væru minni en meiri á því að það gengi upp. Fyrsta geimflaugin sprakk, næstu tvær náðu ekki út í geim og peningarnir voru nánast búnir. Hann náði að skrapa saman í fjórðu tilraunina en ef hún hefði ekki tekist hefði fyrirtækið farið á hausinn.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/52[/embed]
Einstakur árangur
Síðan þá á SpaceX að baki 14 heppnuð geimskot og 38 til viðbótar hafa þegar verið pöntuð, meðal annars af NASA, en SpaceX sér núna um flutning á búnaði til og frá alþjóðlegu geimstöðinni fyrir stofnunina. SpaceX var fjórði aðilinn í heiminum til að skjóta geimfari á braut um jörðu og ná að endurheimta það aftur. Hinir þrír voru Bandaríkin, Rússland og Kína. Kostnaðurinn við geimskot fyrirtækisins er aðeins brot af því sem áður tíðkaðist í geiranum. Fyrirtækið hefur einnig stigið stór skref í áttina að því að gera geimflaugar sínar að fullu endurnýtanlegar. Kostnaðurinn við eldsneytið er einungis 0,5% af kostnaði við geimskot og því verður algjör bylting þegar sá árangur næst. Dyrnar til Mars opnast upp á gátt.
Musk telur að þetta verði eftir 10-12 ár. Sjálfur ætlar hann að deyja á Mars, bara ekki við komuna.
Tesla-ævintýrið hefst 2003
Tesla Motors var stofnað árið 2003. Musk setti um 3,5 milljarða í fyrirtækið, var stærsti hluthafinn og gerðist stjórnarformaður. Stofnmarkmið Tesla Motors var að flýta fyrir umskiptum bíla heimsins yfir í sjálfbæra orku. Árið 2008, þegar farið var að halla verulega undan fæti hjá Tesla, rak Musk framkvæmdastjóra fyrirtækisins og tók við þeirri stöðu.
Það er almennt orðið viðurkennt að hlýnun jarðar eigi sér stað af manna völdum og þá sérstaklega vegna aukins útblásturs koltvísýrings. Menn virðast þó ekki alveg geta komið sér saman um hversu hratt og hversu alvarlegar afleiðingarnar eru og verða. Þær veðuröfgar sem við höfum á undanförnum árum orðið vitni að eru þegar farnar að kosta aukin mannslíf og gríðarlega fjármuni. Hitabylgjur, þurrkar og flóð munu færast í aukana og sumir vilja meina að með aukinni bráðnun jökla og þiðnun sífrera geti ástandið orðið svo slæmt að lítið verði við ráðið. Flóðin árið 2012 í New York yrðu þá mjög lítilvæg svo að dæmi sé tekið.
Fyrsta verk Tesla var að sýna fram á að ef framleiddur væri eftirsóknarveður rafbíll myndi fólk kaupa hann. Tesla Roadster kom á markað árið 2008. Bíllinn var flottur sportbíll byggður á Lotus Elise sem komst um 370 km á hverri hleðslu og var einungis 3,7 sek. í 100 km/klst. Bíllinn varð til þess að stóru bílaframleiðendurnir tóku við sér og árið 2011 komu á markað Chevrolet Volt og Nissan Leaf.
Tæknin þróuð
Ákveðið var að byrja á að framleiða dýran bíl í fáum eintökum til að þróa tæknina. Næsta skref var helmingi ódýrari bíll í töluvert fleiri eintökum og síðasta skrefið á að vera bíll í miklu magni sem flestir bílakaupendur hafa efni á.
Strax árið 2009 kom frumgerð af bíl númer tvö, sá heitir Model S. Fyrstu eintökin af honum voru afhent kaupendum sumarið 2012. Musk er titlaður vöruarkitekt bílsins og voru fyrirmælin sem hann gaf sínu fólki einföld, „þið eigið að búa til besta bíl í heimi“. Ástæðan var sú, sagði hann, að ef fólk ætti að skipta um tækni yrði nýja varan að vera betri en sú gamla. Niðurstaðan var bíll sem hefur sópað að sér verðlaunum. Öryggi fékk mest vægi í hönnuninni og skilaði það sér í því að bíllinn fékk hæstu einkunn í opinberum árekstrarprófunum í Bandaríkjunum sem fengist hefur frá upphafi. Þar fyrir utan þykir Model S gríðarlega fallegur. Hann tekur 7 farþega og mikinn farangur. Hröðunin er 4,2 sekúndur í 100 km/klst. og hann kemst 500 km á hverri hleðslu. Hleðslutíminn er einnig styttri en þekkst hefur áður, hægt er að hlaða 360 km drægni á hann á aðeins 30 mínútum.
Eftirspurnin eftir bílnum er slík að þrátt fyrir að framleiðslugetan sé að nálgast 1.000 bíla á viku er enn margra mánaða bið eftir bíl.
Þriðju kynslóðar bíllinn er væntanlegur á markað árið 2017. Til þess að ná kostnaðinum við hann nægjanlega niður og til þess að tryggja nægt framboð á rafhlöðum í bílana ætlar Musk að byggja eigin verksmiðju. Hún er kölluð The Gigafactory og þegar hún verður komin í full afköst árið 2020 mun hún framleiða meira af rafhlöðum en framleiddar eru samtals í heiminum í dag. Stóru plönin enda ekki þar, til þess að klára markmiðið um 100% rafdrifinn flota bíla þarf 200 slíkar.
Tesla Motors hefur einnig sett upp yfir 100 hraðhleðslustöðvar á heimsvísu svo að eigendur Model S geti farið í langferðir. Stöðvarnar eru kallaðar Superchargers og þar er frítt að hlaða og verður alltaf. Sólarsellur sjá stöðvunum fyrir rafmagni og því verður koltvísýringsmengun engin af akstrinum.
Þar kemur til sögunnar hin hliðin á sjálfbæru orkunni. SolarCity er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að setja upp sólarsellur á þök heimila og fyrirtækja. Hægt er að kaupa eða leigja sellurnar og sér SolarCity um allt frá a-ö. Ef fólk kýs að leigja lítur dæmið þannig út að fólk fær sellur á þakið hjá sér og rafmagnsreikningurinn hjá því lækkar í kjölfarið. Fyrirtækið vex gríðarlega hratt.
Musk fékk hugmyndina, fjármagnaði í upphafi og er stjórnarformaður en tveir frændur hans reka fyrirtækið.
Nýlega keypti Solarcity sólarselluframleiðanda og strax eru komin plön um stækkun verksmiðjunnar í áður óþekktar stærðir í anda rafhlöðuverksmiðjunnar.