Þann 17. september sl. var Nasdaq First North markaðurinn á Íslandi samþykktur af Fjármálaeftirliti Seðlabankans sem Vaxtarmarkaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja (e. SME Growth Market), sem er ný tegund af markaðstorgi sem kom til sögunnar með MiFID II Evrópuregluverkinu. Nasdaq First North hefur í sjálfu sér alltaf verið vaxtarmarkaður, í þeim skilningi að tilgangur markaðarins hefur verið að liðka fyrir fjármögnun vaxtarfyrirtækja, en nú fyrst hefur hann hlotið þennan stimpil hér á landi.
Án þess að fara mikið út í tæknileg smáatriði þá hefur Evrópusambandið verið að stíga skref í þá átt að gera skráningu á almenningsmarkaði (e. public markets) meira aðlaðandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, með vísan til þeirra jákvæðu áhrifa sem fylgja því að fleiri vaxtarfyrirtæki noti hlutabréfamarkaði til að sækja sér fjármagn. Þessu á að ná fram með að sníða regluverkið betur að þörfum slíkra fyrirtækja og draga úr ýmissi skriffinnsku, án þess að það komi niður á fjárfestavernd.
Vaxtarmarkaðir eru ein varða á þeirri vegferð. Áhrifin koma helst fram á tveimur vígstöðvum. Annars vegar í innherjaregluverkinu og hins vegar þegar kemur að svokölluðum lýsingum, en lýsingar eru skjöl sem fyrirtæki geta þurft að birta vegna almenns útboðs eða við skráningu á markað – og geta verið mjög umfangsmikil.
Í innherjaregluverkinu snýr málið að innherjalistum, en minni formkröfur eru gerðar til slíkra lista hjá fyrirtækjum á vaxtarmarkaði. Þegar kemur að lýsingum opnast möguleiki fyrir lítil og meðalstór félög á Nasdaq First North að gefa út svokallaða vaxtarlýsingu vegna útboða, þar sem gerðar eru minni kröfur um efni og form.
Annað mikilvægt atriði snýr að reglugerð um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð. Kría er sjóður á vegum stjórnvalda sem fjárfestir í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds), sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Í dag má vísisjóður sem hefur fengið fjárfestingu frá Kríu ekki fjárfesta í fyrirtæki sem er skráð á venjulegt markaðstorg fjármálagerninga á þeim tíma sem fyrsta fjárfesting viðkomandi vísisjóðs í fyrirtækinu er gerð.
Þessi takmörkun kemur beint úr Evrópureglugerð um vísisjóði. Umræddri Evrópureglugerð var aftur á móti breytt á sínum tíma og opnað á fjárfestingar slíkra sjóða í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru skráð á vaxtarmarkað. Umrædd breyting var ekki bara viðurkenning á mikilvægi vaxtarmarkaða í fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja heldur einnig til marks um að það sé í reynd eðlilegt og æskilegt að vísisjóðir fjárfesti einnig í fyrirtækjum sem eru skráð á slíka markaði.
Nú þegar vaxtarmarkaðshugtakið hefur verið innleitt í íslensk lög og Nasdaq First North hlotið viðurkenningu sem slíkur stendur til að breyta reglugerð um Kríu til samræmis við Evrópureglugerðina.
Nýlegar skráningar Fly Play og Solid Clouds á Nasdaq First North sýna að spennandi vaxtarfyrirtæki geta átt fullt erindi inn á markað. Viðurkenning Nasdaq First North sem Vaxtarmarkaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja er jákvætt skref í átt að betra fjármögnunarumhverfi fyrir slík fyrirtæki og við erum fullviss um að þetta geri markaðinn að enn betri vettvangi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að afla fjármagns og vaxa.
Höfundur er framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.