Fyrsti dagur nýs kjörtímabils er runninn upp. Margir eru í spennufalli en á sama tíma er mikil eftirvænting í loftinu. Loforðin, slagorðin, orðaskakið, fundirnir og uppákomurnar eru að baki og andlit frambjóðenda hverfa af auglýsingaskiltum. Nýr veruleiki blasir við og að líkum lætur myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Snemma í aðdraganda kosninga átti ég fundi með forystufólki stjórnmálaflokkana. Á þeim fundum kom ég á framfæri sjónarmiðum BHM um þær áskoranir sem bíða stjórnvalda og vinnumarkaðarins. Af mörgu er að taka á nýju kjörtímabili, en þó þetta helst:
- Menntun þarf að meta til launa: Á Íslandi er hvatinn til menntunar hvað minnstur innan Evrópu og OECD ríkjanna. Við verðum að meta sérfræðiþekkingu og menntun til launa á Íslandi, að öðrum kosti er hætt við að við drögumst aftur úr í lífsgæðum og velferðarstigi.
- Byggjum á hugviti: Stjórnvöld hafa lengi rætt um metnaðarfull áform um aukna fjölbreytni útflutningsatvinnuvega. Staðreyndin er þó að Ísland hefur lengst af byggt á sveiflukenndri auðlindanýtingu. Þar er ferðaþjónustan okkar nýjasta bjargræði. Ef tryggja á stöðugleika, vöxt og samkeppnishæfni landsins verður að efla atvinnuvegi sem byggja á hugviti, menntun og nýsköpun. Innan BHM eru 28 stéttarfélög háskólamenntaðs fólks og við erum reiðubúin að koma að gerð atvinnu- og mannauðsstefnu á Íslandi til að byggja um hagkerfi framtíðarinnar.
- Eyðum ómálefnalegum launamun: Kyn, kynhneigð eða uppruni eiga og mega ekki vera áhrifaþáttur í launasetningu á íslenskum vinnumarkaði. Kynskiptur vinnumarkaður er þó því miður enn óásættanleg staðreynd á Íslandi. Þetta sýna meðal annars nýlegar skýrslur Hagstofu Íslands og starfshóps forsætisráðuneytisins.
- Jöfnum laun milli markaða: Árið 2016 var samið um að leggjast í vinnu við að jafna laun milli almenns markaðar og opinbers markaðar í tengslum við breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Í samtali BHM, BSRB og Kennarasambandsins við ríkið um fyrrnefnt samkomulag hefur því miður virst takmarkaður áhugi á því að standa við samkomulagið þrátt fyrir fögur fyrirheit í þeim efnum. Fimm ár eru liðin og enn ekkert samkomulag í sjónmáli.
Auglýsing
- Styrkjum tengsl atvinnulífs og skóla: Háskólamenntaðir koma oft verr undirbúnir á íslenskan vinnumarkað en þeir sem hafa farið í verknám. Í nýrri úttekt OECD er beinlínis sagt að tengsl háskóla og atvinnulífs hér á landi séu of veik. Við þurfum að styrkja þessi tengsl. Huga þarf betur að einstaklingsmiðuðu námi á öllum skólastigum í stað þess að láta eitt yfir alla ganga. OECD hefur sérstaklega gagnrýnt að íslenskir háskólar einblíni frekar á skráningarfjölda nemenda en getu og frammistöðu þeirra. Þarna erum við augljóslega á rangri leið.
- Styðjum betur við nema og barnafólk á vinnumarkaði: Miklar breytingar urðu til bóta á námslánakerfinu á síðasta kjörtímabili. Það breytir því þó ekki að hlutfall háskólanema sem telja sig ekki hafa fjárhagslega getu til að stunda háskólanám án þess að vera í vinnu samhliða er eitt það hæsta í Evrópu. Stjórnvöld þurfa að efla blöndun námsstyrkja og námslána og tryggja að ungt fólk hafi aðgengi að húsnæði á viðráðanlegum kjörum þegar það fer út á vinnumarkaðinn. Þá þarf að hækka fæðingarorlofsgreiðslur og treysta jafnréttishlutverk kerfisins. Núverandi þak á greiðslum kemur sérstaklega illa við sérfræðinga og dregur úr hvötum til þess að öll kynin nýti sér þennan rétt jafnt.
- Hugvit er lausnin við loftslagsvánni: Loftslagsmál eru ein stærsta áskorun okkar tíma og þar geta aðilar vinnumarkaðarins ekki látið sitt eftir liggja. Í baráttunni við loftslagsvána felst einstakt tækifæri til að byggja upp nýsköpunarhagkerfi á hugviti og menntun. Slíkt verkefni þolir enga bið og verður að vera forgangsmál.
- Höldum í tekjutenginguna: Ýmsar efnahagsaðgerðir sem gripið var til vegna heimsfaraldurs voru skynsamlegar og skiluðu góðum árangri. Tekjutenging atvinnuleysisbóta, að minnsta kosti fyrst um sinn eftir atvinnumissi, er skynsamleg og sanngjörn og best væri að festa hana í sessi. Tryggja þarf réttindi sjálfstætt starfandi og einstaklinga með blandaða tekjuöflun á vinnumarkaði til frambúðar. Fólk án atvinnu á að geta að sótt sér menntun og færni samhliða atvinnuleit, án þess að það skerði bótarétt.
- Látum samninga taka við af samningum: Það verður að bæta vinnubrögð og samskipti á vinnumarkaði í kringum kjarasamninga. Ómarkviss vinnubrögð sem einkennast meðal annars af töfum og hótunum koma niður á lífsgæðum okkar allra. Ég styð heilshugar markmið og ádrepur ríkissáttasemjara um að vinnureglan eigi að vera sú að samningar taki við af samningum. En við verðum að byrja strax og vanda vel til verka. Undirbúningur okkar hjá BHM fyrir næstu kjaralotu er þegar hafinn. Samtalið þarf að hefjast sem fyrst.
Stuðning við margt af því sem hér er upp talið má finna í kosningaloforðum flestra þeirra stjórnmálaflokka hverra fulltrúar voru kosnir á þing í gær. Það er rétt rúmlega ár í að samningar renni út á almenna markaðnum og eitt og hálft ár í að flestir samningar BHM renni sitt skeið. Sátt á vinnumarkaði er grundvöllur stöðugleika í íslensku samfélagi. Nú skora ég á næstu stjórn að efna þau loforð og eiga í skilvirku samstarfi við heildarsamtök launafólks á næsta kjörtímabili. Við erum tilbúin – með sjálfbærni, sanngirni og samvinnu sem leiðarljós.
Höfundur er formaður BHM.