Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar með naumindum, fór mikinn í Ríkisútvarpinu í morgun, svo mikinn að hún náð líka að koma hneykslan sinni á framfæri í fjölmörgum netmiðlum fyrir hádegi (15.11.´21). Það sem vakti ofboð hennar er sala á Mílu og sofandaháttur ríkisstjórnarinnar (þó hún noti ekki beint það orðalag) vegna þess.
En ríkið á ekki Mílu. Því miður. Það seldi Símann með Mílu í hendur íslenskra fjármálamanna árið 2005, ef rétt er munað. Nú vilja peningamennirnir selja fyrirtæki sitt, Mílu. En það er enginn íslenskur nógu viljugur til þess að borga það fullu verði. Það mun því lenda í höndum útlendinga.
Og er það endilega vont? Eru útlendingar verri fyrirtækjaeigendur en Íslendingar? Ef svo er, í hverju liggur munurinn? Eru útlendingarnir ófúsari að fara að lögum en íslenskir karlar og kerlingar?Eru þeir svikulli og óheiðarlegri, útlendingarnir, en landar okkar Oddnýjar?
Það má fullyrða að Oddnýju þykir útlendingar ekki endilega vondir og svikulir. Hún er fulltrúi krata í Norðurlandaráði. Sjálfviljug. Hún treystir útlendingum til dæmis fyrir „vörnum" Íslands. Hún treystir Nato, sem er heill hópur af erlendum þjóðum. Hún treystir útlendingum!
Og hvað er þá að?Jú, Oddný Harðardóttir, þingmaður jafnaðarmanna segir þetta í morgun um söluna á Mílu (15.11.´21) á visi.is:
Út er komin bókin Þjóðarávarpið eftir dr. Eirík Bergmann. Þar er margt sagt og skýrt um þjóðernisstefnu og popúlisma. Eftir lestur bókarinnar skulu þetta verða lokaorð þessa pistils. Þjóðernispopúlismi er afar varhugaverður- ismi og getur, og hefur, leitt fólk og þjóðir afvega, langt frá öllu lýðræði. Það væri bagalegt fyrir íslenskt samfélag ef þingmenn jafnaðarmanna ætla að taka upp orðræðu þjóðernispopúlista líkt og Oddný gerir, talanda sem einkennt hefur forystumenn þessa -isma í árhundruð, og hver sá þekkir sem eitthvað hefur gluggað í mannkynssögu.
Höfundur er rithöfundur.
Eftirskrift bætt við kl: 6:30 þriðjudaginn 16. nóvember.
Það hringdi í mig maður og sagði mér hvernig hann hafði skilið greinarkornið hér að ofan. Það var allt annar skilningur en ég lagði í hana, Honum skildist að það væri vilji minn að útlendingar eignuðust Mílu.
Ég las greinina aftur, hlýt að taka mark á ábendingum, og skýri því mál mitt betur:
„... ríkið á ekki Mílu. Því miður."
Þetta segir í greininni og augljóslega ekki nógu skýrt kveðið að. Því miður merkir hvort tveggja að ég var andvígur sölunni á Símanum á sínum tíma og harma hana enn í dag.
Þetta segir líka í greininni.
„Nú vilja peningamennirnir selja fyrirtæki sitt, Mílu. En það er enginn íslenskur nógu viljugur til þess að borga það fullu verði."
Þetta er ekki heldur nógu skýrt, sagði maðurinn í símann.
Því bæti ég hér við því, sem ég í einfeldni minni hélt að fælist í skráðum orðum, enginn íslenskur nógu viljugur: Ríkið er hér ekki undanskilið og skiftir engu þótt sjálfum finnist mér að hið opinbera ætti yfirtaka Mílu og eiga hana til frambúðar. En vegna þess að það gerir það ekki lendir það í höndum útlendinga.
Og þar er komið að popúlíska tóninum í vaðli þingkonunnar og ástæðu greinarskrifanna:
Henni er ekki sama hverrar þjóðar sá er sem kaupir fyrirtækið. Hann má hvorki vera rússnesku né kínverskur.
Það er þetta sem er hættulegt mannlífinu, sortéringin, hvort sem hún fer eftir húðlit, trúarbrögðum eða uppruna.