Í dag er fullveldisdagurinn 1. des. Í áratugi var þessi dagur hátíðisdagur og því fagnað að þennan dag árið 1918 varð Ísland fullvalda í flestum sínum málum og gat ákveðið að taka fulla stjórn á öllum sínum málum að ákveðnum árum liðnum. Að 25 árum liðnum (raunar einu ári betur), eins og kveðið var á um í samningum frá 1918, var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Íslendingar vildu slíta öllu sambandi við Danmörk og gerast sjálfstætt lýðveldi. Það var samþykkt með rússneskri kosningu og fullu sjálfstæði lýst yfir á Þingvöllum 17. júní 1944. Árið 1945 var því lýst yfir af hálfu forsætisráðherra að 17. júní væri þjóðhátíðardagur Íslendinga en slíkt var ekki fært í lög fyrr en 1971.
Íslendingar hafa þannig tvo þjóðhátíðardaga, 1. des. og 17. júní en á síðustu árum hefur 1. des. alveg fallið í skuggann og telst ekki lengur merkisdagur í þjóðarsögunni. Haldið var upp á 1. des. með ýmsum hætti um allt land þótt stúdentar við Háskóla Íslands væru þar fremstir í flokki enda áttu þeir eftir að erfa auðæfin og embættin þegar þeir lykju prófi. Eftir lýðveldisstofnunina var haldið áfram að halda upp á 1. des enda þótti hann hinn rétti fullveldisdagur og Ríkisútvarpið gerði hátíðarhöldum stúdenta alltaf góð skil. Skömmu fyrir 1970 náðu vinstrisinnaðir stúdentar meirihluta í Stúdentaráði og notuðu að sjálfsögðu 1. des. til að mótmæla stríðinu í Víetnam, íslenskri spillingu, alþjóðlegu auðvaldi og öllu því sem vont var í heiminum, eða þannig! Þetta féll, vægast sagt, í mjög ófrjóan jarðveg hjá íslensku stjórnmálaforystunni sem var vön því að heyra stúdenta dásama íslenska lýðveldið og tala illa um Dani, og stundum Breta, en aldrei Bandaríkjamenn sem héldu hér úti herstöð með tilheyrandi tekjum fyrir valda aðila í samfélaginu. Þessi áherslubreyting í hátíðahöldum stúdenta var ein helsta ástæða þess að 17. júní var lögfestur árið 1971 sem frídagur og áhersla stjórnvalda færðist frá 1. des. til 17. júní. Vægi 1. des. fjaraði út á næstu tveimur áratugum og stúdentar sáu sig ekki sem einhverja talsmenn fullveldisdags. Til að drepa daginn endanlega var annarkerfi Háskólans breytt á þann vega að próf voru haldin í desember, í stað janúar áður, og þá þurftu stúdentar að lesa undir próf og máttu ekkert að vera að undirbúa einhvern þjóðfrelsisfögnuð í miðjum prófalestri.
Fyrst eftir lýðveldistökuna var kannski meira verið að halda uppi á afmæli lýðveldisins en afmæli Jóns þó skuggi hans hafi aldrei verið langt undan. Til þess að nota Jón Sigurðsson þarf að gera úr honum mikilmenni sem hentar lýðveldissögunni. Ítarlega leit þarf hins vegar að gera í skrifum stjórnmálamannsins Jóns Sigurðssonar til þess að finna hugsanlega kröfu hans um fullveldi til handa landi og þjóð, hvað þá sjálfstæði, frá Danska konungsríkinu. Stjórnmálahugmyndir hans snúast um meiri sjálfstjórn til handa ráðandi öflum, þ.e. þessum ca. 5% karlamann á miðjum aldri sem höfðu kosningarétt. Það má segja að hann verið í framvarðarsveit íslensku þjóðarinnar á þessum tíma enda vel lesinn og ritfær, en hann var engin sjálfstæðishetja ef nútímamælikvarði er lagður á verk hans og hugmyndir. Í innanlandsmálum var hann yfirleitt í andstöðu við ráðandi öfl en Jón vildi frelsi á flestum sviðum á meðan durgarnir vildu meiri völd til að koma í veg fyrir frelsi einstaklinga. Þá er athyglisvert að skoða tengsl Jóns og æðri menntunar en Jón lauk aldrei neinu prófi frá háskóla og skrifaði engin lærð vísindarit þótt hann hafi safnað gögnum og gefið út.
Skoðanir Jóns og verk hans þola illa pólitíska rétthugsun úr ýmsum áttum og þess vegna hefur orðið til þegjandi samkomulag um að gera úr honum goðsögn sem fræðimann og frelsishetju, og vei þeim sem véfengir það! Stjórnmálamenn úr öllum flokkum geta alltaf vitnað til hans og þannig verður 17. júní að karlinum, stjórnmálamanninum og fræðimanninum sem stjórnmálamenn nútímans geta samsamað sig við. Er það eitthvað sem höfðar til okkar allra?
17. júní í dag er í föstum skorðum og fáum til yndis nema stjórnmálamönnum, sölumönnum og ungum börnum sem fá mikið af nammi og komast jafnvel í einhver leiktæki. Stjórnmálamenn halda ræður, skátar halda á fánum og lúðrasveitir blása ættjarðarlög í lúðra en almenningur tengir lítið. Það sem almenningur tengir við eru gasblöðrur, leiktæki og sægæti, og hugsanlega áfengi þegar fer að líða á daginn. Yfirleitt er þó hægt að hafa gaman af, sbr. textann í laginu 17. júní (Hæ, hó, jibbí jei). Öllu vinnandi fólki er dagurinn kærkominn frídagur, annað er dagurinn ekki. Vafalítið hefur 17. júní verið mikill hátíðisdagur á fyrstu áratugum lýðveldisins og fyllt unga sem aldna stolti yfir hinu unga lýðveldi en þess sjást engin merki hjá almenningi í dag. Það eru fáir að fagna sjálfstæði landsins eða einhverri arfleifð Jóns Sigurðsson, ef hún er þá til staðar, á 17. júní. Þjóðhátíðardagurinn okkar höfðar ekki til almennings, eins og hann gerir í sumum öðrum löndum, t.d. Noregi og Bandaríkjunum, vegna þess að inntak hans er ekki fólkið í landinu heldur fólkið (flokkarnir) sem stjórnar landinu.
Á hinn bóginn er fullveldisdagurinn 1. des hvorki flokkspólitískur (þó hann sé að vissu leyti pólitískur) né bundin við tiltekinn einstakling. Því hefur oft verið haldið fram að það sé erfitt að halda upp á 1. des. vegna þess að þá sé oft kalt og vont veður og þess vegna sé betra að hafa 17. júní. Þá er að sjálfsögðu miðað við að hátíðarhöldin 1. des. yrðu eins og þau eru núna á 17. júní. Auðvitað er hægt að halda upp á fullveldi eða sjálfstæði hvenær sem er og hvar sem ef áhugi er fyrir hendi en ef veðurfar hefur úrslitaáhrif á það hvaða dag heil þjóð fagnar fullveldi eða sjálfstæði þá ristir sú tilfinning ekki djúpt.
Að mínu mati þurfum við nýjan þjóðhátíðardag með nýrri hugsun. Við ættum að spyrja okkur hverju við erum að fagna og hvers vegna? Ef viljum halda okkur við stjórnmálasöguna þá skulum við halda okkur við 1. des. því þá urðum við fullvalda og gátum tekið allar ákvarðanir um framtíð okkar á eigin forsendum. 17. júní verður alltaf svolítið súr vegna þess hvernig staðið var að málum árið 1944 og áherslan á alla karlana, Jón Sigurðsson og „þjóðskáldin góðu“, verður oft til þess að þjóðrembugrauturinn ystir, og slíkur grautur gerir engum gott.
Við skulum eiga okkur þjóðhátíðardag og halda uppá það að við erum sérstök þjóð á hjara veraldar sem vill lifa í sátt og samlyndi við umhverfi og nágranna. Við erum ekkert betri en annað fólk en við höfum okkar menningu og siði sem okkur þykir vænt um og erum stolt af. Við getum haldið upp á daginn með ýmsum hætti þar sem allir geta tekið þátt á sínum forsendum, og að sjálfsögðu gætu stjórnmálamenn haldið leiðinlegar ræður ef þeir vilja! Það er bara einn dagur sem sameinar Íslendinga og það er hinn eini og sanni þjóðhátíðardagur; Sumardagurinn fyrsti.
Sumardagurinn fyrsti tilheyrir hvorki stjórnvöldum né kirkjunni (eða öðrum trúfélögum), heldur er hann dagur fólksins þar sem hann markar upphaf betri tíðar og betra lífs. Við vitum það að stundum er ansi vetrarlegt á sumardaginn fyrsta og stundum virðist sumarið alls ekki ætla að koma en þó veðrið láti á sér standa þá er komið sumar í öll íslensk hjörtu. Með því að gera sumardaginn fyrsta að þjóðhátíðardegi leggjum við áherslu á náttúruna, umhverfið, menninguna og söguna og sérhvern þann einstakling sem hefur lifað í þessu landi og alla þá sem vilja lifa á Íslandi, landinu sem okkur öllum þykir svo vænt um.
Höfundur er sagnfræðingur.