Sjónvarpsþátturinn „Verbúðin“ hefur vakið þjóðina til umræðu um efni, sem um árabil hefur verið efst á baugi hjá þessari sömu þjóð. Enn og aftur ræða menn kvótakerfið, framsalið – og það, sem mestu máli skiptir - hvernig sameign þjóðarinnar hefur verið nýtt í þágu þeirra fáu, sem leyfi hafa fengið til þess að nýta sér eign fólksins í landinu í eigin þágu. Sú afstaða mikils meginþorra þjóðarinnar, sem enn og aftur hefur verið sú sama, hefur á öllum þessum árum engu fengið áorkað til breytinga. Er þjóðin þó margoft búin að lýsa skýrt og skilmerkilega hverju hún vill breyta. Nú síðast í skoðanakönnun Fréttablaðsins, þar sem fimm af hverjum sex lýstu andstöðu sinni við aflamarkskerfið eins og það er framkvæmt. Breytingar hafa þó aldrei náð fram að ganga. Þjóðarviljinn til breytinga er skilmerkilegur og skýr. Hann hefur aldrei náð fram að ganga.
Þjóðin ræður – engu
Hversu oft hefur þessi hin sama þjóð gengið til þess að raungera lausnir og breytingar, sem hún hefur sjálf lýst þráfaldlega og einarðlega sem sinni ótvíræðu skoðun? Það hefur hún gert í hverjum Alþingiskosningum á fætur öðrum. Þar, við kjörborðið, ræður þjóðin því, hverja hún velur til þess að raungera margyfirlýstan vilja sinn í stærsta deilumáli um áratuga skeið. Og hefur það val þjóðarinnar verið í samræmi við vilja hennar sjálfrar? Nei, hreint aldeilis ekki. Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur þegar gengið er að kjörborði þvert á móti valið þá, sem hún veit að ekki lúta vilja hennar í þessu mikla ágreiningsmáli þar sem þessi sama þjóð hefur aftur og ítrekað lýst óskoruðum vilja sínum.
Allt þekkt og vitað
Fyrir kosningar hefur aldrei neitt vafamál verið hver hefur verið vilji frambjóðenda til þess að raungera vilja þjóðarinnar í aflamarkskerfinu. Framganga sömu frambjóðenda í störfum Alþingis hefur ávallt verið skýrt merki um hvað þeir hver og einn vilja. Nú síðast lagði þingmaður Vinstri grænna fram á vorþingi frumvarp um lækkun veiðigjalds, sem sjávarútvegsráðherrann og ríkisstjórnin staðfestu ekki fyrr en síðar um haustið. Þar vantaði ekki viljann – vantaði bara þjóðarviljann! Hann fær engu áorkað því þarna er a.m.k. vilji Sjálfstæðisflokksins, vilji Framsóknarflokksins og vilji Vinstri grænna sameiginlegur. Þveröfugur á við vilja þjóðarinnar.
Svo kemur Verbúð tvö
Þegar aldan rís nú á ný meðal íslensku þjóðarinnar í kjölfar „Verbúðarinnar“ og hver þjóðfélagsþegninn á fætur öðrum rís upp til hneykslunar og fordæmingar væri þá ekki ráð að þessir sömu hneyksluðu þjóðfélagsþegnar litu í spegilinn og spyrðu sig þessarar einföldu spurningar: Ætla ég að fylgja eigin skoðunum næst þegar mér gefst kostur á að fylgja þeim eftir? Þegar að því kemur að velja þann eða þá, sem vilja styðja minn vilja – eða hina, sem vilja það ekki? Eða er málið einfaldlega það, að ekkert sé mark takandi á þessum margyfirlýsta vilja þjóðarinnar. Íslenska þjóðin vilji bara rausa og rífast – en nenni sjálf ekkert annað að gera í málinu. Næsta lota hefjist svo þegar sjónvarpið sýni „Verbúð tvö“?
Höfundur er fyrrverandi stjórnmálamaður.