Kæra Lilja Alfreðsdóttir,
Á haustdögum árið 2014 tók ég þá ákvörðun að flytjast af landi brott og hélt til Bretlands í nám. Ég hef haft ástríðu fyrir dagskrárgerð í sjónvarpi frá blautu barnsbeini og hafði starfað við það meira og minna síðan ég setti fyrst myndavél á öxlina í sumarafleysingum hjá RÚV á Akureyri fyrir tæpum 17 árum síðan. Starfaði sem tökumaður og klippari á fyrstu mánuðum N4, svo við ýmis verkefni í Reykjavík fyrir alla helstu fjölmiðla landsins. Mín ástríða snýst um að miðla skemmtilegum og fróðlegum sögum af fólki, tónlist og menningu. Þegar ég fór í fyrst í kvikmyndaskóla þá ætluðu öll bekkjarsystkin mín að leikstýra bíómyndum – en ég vildi bara gera sjónvarpsþætti, og alls ekki leikna.
Ástæða þess að ég fór af landi brott árið 2014 var kannski fyrst og fremst að ég gat ekki hugsað mér að starfa í því umhverfi sem fjölmiðlum og dagskrárgerðarfólki var búið þá. Mér sýnist að síst hafi það skánað á þessum átta árum. Ég hafði lent ítrekað í fjöldauppsögnum, og oft vann maður myrkranna á milli að þáttagerð, þar sem verðið sem RÚV greiddi fyrir innlent dagskrárefni nægði varla fyrir bensínkostnaði okkar sem gerðum þættina.
Það stakk því í hjartað að lesa bréf Maríu Bjarkar Ingvadóttir til fjárlaganefndar. María hefur af miklum eldmóð leitt starf N4 síðustu ár, með hugsjón að leiðarljósi frekar en kannski viðskiptavit. Auðvitað hefur það alltaf verið þrautaganga að halda uppi fjölmiðlun úti á landi. Héraðsfréttablöð, útvarpsstöðvar og aðrir fjölmiðlar eru þó hvaða samfélagi sem er nauðsyn – ekki bara við upplýsingagjöf og fréttamiðlun, heldur til þess að rita sögu þess og halda spegli að menningu þess og mannlífi.
María Björk leggur til góðar hugmyndir sem sjálfsagt er að skoða alvarlega, en ég er feginn því að þér hefur verið falið að skoða þessi mál í stærra samhengi. Hér er nefnilega miklu stærri vandi á ferð en bara tilvist N4 á Akureyri.
Ég hvet stjórnvöld og íslenskt samfélag allt til þess að líta sér í barm og íhuga hvaða verðmiða við ætlum okkur að setja á fjölmiðlun – á landinu öllu. Fréttamiðlun er jú nauðsynleg í lýðræðissamfélagi, en sögur af fólki, atburðum og menningu eru límið sem heldur íslenskri þjóðarvitund saman.
Það er þó ekki bara fjölmiðlun á landsbyggðinni sem þarf nauðsynlega að efla, heldur innlenda dagskrárgerð almennt, þá sérstaklega svokallað non-fiction efni, eða allt það sem ekki fellur undir leikið efni. Fjárskortur og niðurskurður plagar bæði RÚV og einkastöðvarnar – og sem áhugamaður um vandaða dagskrárgerð þá hef ég haft af því vissar áhyggjur undanfarið að gæði íslenskrar dagskrárgerðar fari þverrandi ár frá ári. Það er ekki bara nóg að moka út efni, fagmennska og metnaður er nauðsynlegur. Bæði á íslenska þjóðin það skilið að geta horft á vandað efni, og svo er hér um að ræða heila stétt fagfólks sem þarf að halda við þekkingu og reynslu svo að hún hverfi ekki alfarið.
Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að framleiða 365 þætti á ári fyrir 200 milljónir, og kvóti á innlendar sjónvarpsstöðvar um hlutfall íslenskrar dagskrárgerðar hjálpar ekkert þegar einblínt er á að fylla kvótann fyrir eins lítið og hægt er. Þá endar það auðvitað þannig að hæfileikaríkt dagskrárgerðarfólk hverfur til annara starfa, eða til útlanda eins og undirritaður.
Hugmynd Maríu um íslenskt TV2 er ekki algalin – en það má líka horfa til Bretlands. Í Bretlandi eru kvaðir á fjölmiðlum í almannaþjónustu (BBC, ITV, Channel 4 og Channel 5). Þeir þurfa að eyða 70% af fjármagni til innlendrar dagskrárgerðar í efni sem framleitt er utan Lundúna. Það styður bæði við uppbyggingu og fjárfestingu í framleiðslu úti á landi, sem býr til störf, og tryggir að það efni sem í boði er endurspegli bresku þjóðina alla. Í árdaga N4 var rekstrargrundvöllurinn tryggður með samstarfi við Stöð 2 um fréttavinnslu og dagskrárgerð, sem entist ekki lengi. Ríkisútvarpið ætti auðvitað að ganga til samninga við N4 og vera bundið lögum til þess að kaupa innslög, fréttir og dagskrárefni af framleiðendum úti á landi, bæði sjálfstæðum verktökum og framleiðslufyrirtækjum eins og N4.
Ég legg til að þú skoðir eftirfarandi atriði:
1 - Að endurvekja Menningarsjóð Útvarpsstöðva, og fjármagna með 10% gjaldi á alla auglýsinga- og áskriftarsölu erlendra miðla á Íslandi - enda leggja þeir ekkert til innlendrar dagskrárgerðar.
2 - Eyrnamerkja 50% fjármagns í sjóðnum til framleiðslu utan Reykjavíkur.
3 - Setja kvaðir á alla ljósvakamiðla sem senda út á landsvísu að ákveðið hlutfall aðkeyptrar dagskrárgerðar sé framleitt utan Höfuðborgarsvæðisins – og að ákveðið hlutfall endurspegli samfélagið utan þess líka.
4 - Undanskilja ekki dagskrárefni sem framleitt er til dreifingar á vef eingöngu og horfa til nýtingar nýmiðla.
Kærar kveðjur,
Ingimar Eydal Davíðsson, dagskrárgerðarmaður og framleiðandi.
Höfundur starfar við dagskrárgerð í Los Angeles og er með mastersgráðu í dagskrárgerð fyrir sjónvarp frá National Film and Television School í Bretlandi.