Ég bið ykkur að hverfa með mér rétt sem snöggvast aftur til ársins 1953. Sjötíu ár aftur í tímann. Þá stóð til að nota Hornbjarg og Hælavíkurbjarg sem skotmörk á heræfingu NATO. Já, ég endurtek, NATO fékk leyfi til að tæta í sig björgin á skotæfingum.
Jakobína Sigurðardóttir skáldkona var frá Hælavík. Hún greip til þeirra vopna sem henni voru tömust og orti kraftakvæði eða áhrínisljóð sem er sennilega eitt magnaðasta kvæði sem ort hefur verið til varnar íslenskri náttúru.
Og trúi fólk á galdra þá er morgunljóst að áhrínisorðin virkuðu því enn standa björgin ósnortin.
Jakobína orti svo til varnar sínum hamraborgum og ávarpaði þar náttúruna sjálfa og sínar æskustöðvar:
Láttu, fóstra, napurt um þá næða – norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða. Feigum villtu sýn!
þeim, sem vilja virkjum morðsins níða vammlaust brjóstið þitt.
Sýni þeim hver örlög böðuls bíða- bernskuríkið mitt.
Kraftakvæðið varð lengra, en skemmst er frá að segja að herskipin urðu frá að hverfa vegna aftakaveðurs við Hornstrandir svo ekkert varð af skotárásinni miklu á björgin.
Og þá orti Jakobína á eftir byssunum:
Válega ýfruðu vindar, veifaði Núpurinn éljum,
öskraði brimrót við björgin, boðandi víkingum feigð.
Hljómaði hátt yfir storminn:
Hér skal hver einasta þúfa varin!
og aldrei um eilífð,
ykkur til skotmarks leigð.
Já, hún var varin með göldrum náttúran á Hornströndum þarna fyrir nær sjötíu árum. Friðland Hornstranda, um 600 ferkílómetrar að stærð, var svo stofnað 1975, ríflega tuttugu árum eftir þessa atburði.
Mikið væri einfalt og ágætt ef við gætum gripið til galdra til að vernda hálendið – til að gæta öræfanna allra. En galdurinn felst sennilega mestur og bestur í samstöðu, úthaldi og tærri sýn á markmiðið.
Við, fólkið í landinu, erum landverðir. Og við brettum aftur og aftur upp ermar og berjumst fyrir heiðalandi, öræfum og víðernum.
Við sláum skjaldborg um sanda, vötn og fossa. Það er okkar hlutverk. Okkur fjölgar líka mjög hratt eftir því sem framtíðarfólkið fullorðnast. Og þá fækkar vonandi orrustunum. Okkur fjölgar, okkur sem finnum fyrir hlutverkinu í og með náttúrunni, finnum fyrir kærleikanum og öræfaástinni, finnum fyrir umburðarlyndi fyrir því sem vex og andann dregur og finnum í okkur víðsýni til framtíðar – sýn sem nær svo langt út fyrir okkar augnablik í tilvistinni.
Varnargaldurinn felst í tæru sýninni, að halda fókus, og hann felst líka í fjöldasamstöðunni. Við vitum hvað við þurfum að varðveita og við vitum hverju við þurfum að skila áfram til næstu kynslóða. Við vitum að manneskjan þarf að taka minna pláss í tilvistinni og ganga inn í framtíðina af virðingu og lotningu fyrir náttúru og ótrufluðu víðernum.
Því það er alltaf næsta kynslóð sem er löggiltur eigandi lands og náttúru – ekki kynslóðin sem er alltaf á förum. Hún er aðeins gömul gæslusveit, hverju sinni, yfir eigum afkomendanna.
Samt er það nú svo að þau sem nú lifa telja sig mörg hver eiga rétt á að sólunda auðæfum afkomendanna strax, brjóta allt land sem þau eiga ekki og brjóta svo meira, hrifsa og gleypa, um leið og allar samfélagslegar ákvarðanir ættu að ganga út á að ganga ekki á.
Það er krafa framtíðarinnar til þeirra sem nú lifa litla stund.
Undrið einstaka
Á þarsíðustu öld, í villtasta vestrinu, stofnuðu Bandaríkjamenn sinn fyrsta þjóðgarð, Yellowstone, árið 1872. Og það var enginn smáræðis þjóðgarður: Níuþúsund ferkílómetrar af fjallendi, giljum og gljúfrum – stórfljótum, ám og vötnum og háhitasvæðum. Í dag eru í Bandaríkjunum 420 þjóðgarðar og þar af 63 þjóðgarðar sem Bandaríkjaþing hefur skilgreint sem algjörlega einstök náttúruundur. Þessi einstöku undur skilgreind af þinginu þar þekja samtals 209 þúsund ferkílómetra – eða rúmlega tvö Íslönd.
Um svipað leyti og okkur tókst að friðlýsa Hornstrandirnar hérna heima, árið 1974, var svo stofnaður stærsti þjóðgarður í heimi. Það var rétt hjá okkur, á norðaustur Grænlandi, 972 þúsund ferkílómetrar af þjóðgarði. Sá þjóðgarður er næstum tíusinnum stærri en allt Ísland.
Hálendi Íslands er um fjörtíu þúsund ferkílómetrar. Það er einstakt náttúru-undur á veraldarvísu sem þarf nauðsynlega komast sem fyrst inn í hálendisþjóðgarð. Það er land sem okkur ber skylda til að varðveita sem síðustu stóru, samfelldu og óskemmdu víðerni Evrópu.
Hér eru nokkrir draumastaði á óskalistanum fyrir hálendisþjóðgarðinn. Við skulum fljúga í huganum inn á hálendið sem veturinn er að taka í fangið þessi dægur. Nefnum staðina upphátt með ást í röddinni: Kerlingafjöll, Þjórsárver, Friðland að Fjallabaki, Hveravellir, Guðlaugstungur, Langjökull, Aldeyjafoss, Dynkur, Skjálfandafljót, Hrefnubúðir, Þjófadalir, Hagavatn.
Það er líklega komin héla í mosaþemburnar við Jökulgil og Löðmundur kominn með gráan koll þegar þetta er skrifað.
Eignarhaldið
Enn um stund þurfum við að ákalla norðanélin, villa feigum sýn og verja hverja einustu þúfu því náttúran er nú sem aldrei fyrr borin fram sem auðmeltur skyndiréttur og jafnvel sem neyðarframlag til loftslagsvandans á heimsvísu. Það er nýjasta afsökunin fyrir náttúrufórnunum sem þarf að færa núna strax.
En! Við höfum skýra sýn. Við vitum hvað við þurfum að varðveita. Við þekkjum okkar hlutverk.
Það er þannig að hver einasta kynslóð, sem lifir og heldur um völd, á ekki landið, á ekki náttúruna, á ekki víðernin til að ráðstafa. Öræfin tilheyra ekki orkufyrirtækjum, hagsmunasamtökum og virkjanastofnunum heldur framtíðarfólkinu.
Í augum barna okkar speglast hálendið, víðernin, kyrrðin og auðnin, bústnar þúfur, mýrar og lækir sem hjala.
Dýjamosi og eyrarrós á sandi.
Börnin og börnin þeirra og svo aftur börnin þeirra verða að fá að tilheyra þessu landi svo náttúran lifi okkur af. Þau eiga fossa og fjöll og fossarnir eiga þau. Að tilheyra ósnortnum víðernum er grunnstef og það dýrmætasta sem við getum alltaf gefið næstu kynslóð. Framtíðarfólkið á hálendið og hálendið á þau.
Þetta gagnkvæma eignarhald er heilagt náttúrulögmál. Því er ætlað að viðhalda lífi og veita framtíðarvon.
Orkuskiptin miklu
Samt hafa kynslóðir liðinna áratuga hagað sér eins og enginn sé morgundagurinn, eins og að enginn komi á eftir okkur. Líkt og að við höfum fundið öll svör og verðum að keyra vélarnar á fullri ferð, brjóta allt land og klára alla sjóði náttúrunnar. Þetta er alltaf sama sagan þótt við finnum henni nýjan titil í hvert sinn sem gefið er í botn. Nú heitir sagan Orkuskiptin miklu.
Við erum öll landverðir. Sumir sofa að vísu á verðinum og einhverjir skima eftir peningum eða völdum til að hrifsa til sín á vaktinni. Það er mannsins saga.
En það rennur hratt upp fyrir okkur öllum að við erum líka landverðir fyrir heimsbyggðina. Hálendi Íslands er einstakt á veraldarvísu og geymir stærstu ósnortnu víðerni Evrópu eftir stófellda landnýtingu liðinnar aldar um alla álfu og víða veröld.
Þannig berum við ekki aðeins ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum hérlendis, heldur gagnvart allri heimsbyggðinni.
Um leið standa öll spjót á hálendinu. Orkuskipti verða að vera náttúruskipti á þessum skiptimarkaði og hvergi er minnst á neysluskipti sem eru kannski nauðsynlegustu bíttin en um leið þau erfiðustu.
Einn fremsti náttúrupólitíkus á plánetunni, Sir David Attenborough, sagði: „Sannleikurinn er sá að náttúran breytist nú hratt. Og um leið erum við algjörlega háð henni. Hún færir okkur mat, vatn og loft. Hún er það dýrmætasta sem við eigum og við verðum að verja hana.“
Öræfaástin
Allt snýst þetta svo um ástina. Ást á landi, ást á hvert öðru, ást á framtíðinni, ást á því sem nærist og andann dregur. Fjórmenningar frá Liverpool sungu möntruna góðu: Ást er allt sem þarf.
Við sem berum öræfaást í brjósti vitum að þetta er langhlaup. Við vitum að við þurfum að taka slaginn aftur og aftur. En hér gefst enginn upp.
Við vinnum með náttúrunni en ekki á móti henni og nærumst í hennar skjóli, eins og segir í bæninni hans Fitz úr Fjallaverksmiðju Íslands:
Móðir jörð. Þú sem ert í vanda,
Til komi þinn kraftur, til sjávar, lofts og landa.
Verði þinn vilji svo nærumst í þínu skjóli.
Gef oss að ganga með þér á réttu róli.
Og fyrirgefðu gamlar syndir.
Gefðu þeim sýn sem eru blindir.
Leið þú oss í lífsins ábyrgð
því að þitt er ríkið
náttúran og dýrðin
að eilífu, ástin.
Höfundur er rithöfundur.