Viðbótarskref
Núverandi orkuvinnslumynstur á Íslandi hefur mótast á fáeinum áratugum. Vatnsafl er ríkjandi í rafmagnsframleiðslu en jarðvarmi í húshitun. Rúm 20% raforkunnar fæst með jarðvarma og hlutfallið hækkar. Umdeild raforkunotkun í málmiðjum og að litlu leyti til gagnavera, tæp 80% raforkunnar, er ekki á útleið, ef marka má pólitíska afstöðu í landinu, enda grunnmúruð í hagkerfið. Lítill vilji er til að bæta þar nokkru við, nema ef til vill fleiri gagnaverum. Uppsett rafafl er um 2.900 megawött (MW), ef allt er talið ,og ársframleiðslan nálægt 20 terawattstundum. Það myndi duga handa Birmingham-borg á Englandi.
Undanfarin 5 til 10 ár hefur hlutfallslega litlu verið bætt við raforkuna. Samtímis hefur stór hluti flutningskerfisins ekki eflst að getu. Er nú svo kom að framleiðslu- og flutningskerfin eru fulllestuð en hafin vinna við orkusparnað, bætta orkunýtingu og aukið afl starfandi raforkuvera, efldar flutningslínur og við að minnka óhjákvæmilegt orkutap í þeim. Ýmsar smávirkjanir skila sínu og unnt er að framleiða raforku í takmörkuðum mæli úr glatvarma stóriðjuvera. Með þessu móti nást fáein hundruð megawatta til góðra nota.
Ný verkefni
Tækniþróun, hagnaðarleit, nýsköpun, sókn í velmegun og byggðafestu, og auðvitað fólksfjölgun, valda því að fjölmörg verkefni eru í bígerð sem þarfnast raforku og geta talist til grænnar atvinnustarfsemi. Má þar t.d. nefna ylrækt, fiskeldi á landi, þörungarækt, líftækniiðnað, endurvinnslu og eldsneytisframleiðslu. Flest rímar við loftlagsmarkmið okkar og vistvæna grunnstefnu orkumála en verkefnin mynda líka þrýsting á greiðari aðgangi að raforku en nú er opinn. Í því sambandi verður að minna á að hluti verkefnanna, einkum þegar fram í sækir, flokkast undir orkufreka framleiðslu/iðnað. Hann er miðaður við 80 GWstunda samfellda ársnotkun að lágmarki í 3 ár eða samsvarandi 10-11 MW aflþörf. Til samanburðar er aflþörf stóriðjuvers Norðuráls rúmlega 500 MW.
Ef mæta á aukinni eftirspurn til hagfelldra, vistvænna verkefna í skugga loftslagsbreytinga þarf væntanlega hundruð megawatta viðbót í raforkukerfið á 10 til 20 árum. Veruleg aflþörf iðjuvera, sem framleiða rafeldsneyti, getur bæst við eftir því hve mikið samfélag og stjórnvöld vilja að framleitt verði af slíkum efnum til orkuskipta í landinu og jafnvel til útflutnings. Samtímis verður að gæta að nægri raforku til annarra þátta orkuskipta og sinna skyldum náttúruverndar.
Rammaáætlun
Lögum um svokallaða Rammaáætlun miða að því að löggjafinn raði orkukostum eftir samfélagsþörfum, sjálfbærni þeirra, jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar og loks ásættanlegu samkomulagi kjörinna fulltrúa. Lögin eru vafalaust gölluð, vægi viðmiða við tillagnagerð stýrihóps fyrstu áfanga ekki sem skyldi og pólitík þingflokka lítt sættanleg. Altént hefur Rammaáætlunin ekki náð lengra á Alþingi en endurröðunar í nýtingar-, bið- og verndarflokka 3. áfanga. Hann er enn einu sinni til umræðu og sjá fjórði í undirbúningi hjá nýrri verkefnisstjórn 5. áfanga. Samtals eru tugir orkukosta til skoðunar og röðunar í flokkana, m.a. fáeinir vindorkukostir. Hvernig sem fer er mikilvægt að orkuvinnsla og orkulindir lúti heildrænu fyrirkomulagi á forræði samfélagsins alls, ekki einstakra sveitarfélaga eða landshluta, og haldist í innlendri eigu.
Skipulagsskylda er áfram á hendi sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum lýtur endurskoðuðum lögum sem reyndar þarf enn að bæta. Brýnt er að lækka matsskyldu vatnsorkuvera og miða við 2-3 MW mark en ekki 10 MW. Það á einnig við vindorkuver sem falla án nokkurs vafa undir Rammaáætlun. Breytingar laga á Alþingi 2011, í meðförum iðnaðarnefndar, kveða skýrt á um að í stað þess að lögin gildi aðeins um nýtingu fallvatna og háhitasvæða, gildi þau um „virkjunarkosti til orkuvinnslu jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna“ (þingskjal 1286 – 77. mál – sbr. álitsgerð Landslaga fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið frá 19. jan. 2015). Augljóslega á það við vindorku jafnt sem áður nýttra vatns- og jarðvarmaorkukosti.
Orkukostir framundan
Alþingi hefur þegar afgreitt röðun virkjanakosta í nýtingarflokki með uppsettu afli 1.151 MW (2013 og 2015). Samkvæmt viðbótartillögum í 3. áfanga Rammaáætlunar eru átta orkukostir (657 MW) í nýtingarflokki nú til ákvörðunar þingsins. Fjórir umdeildir eru við fallvötn (227 MW) og þrír nýta jarðvarma (288 MW) og einn vindorku (100 MW). Samtals er ítrasta uppsett afl í nýtingarflokki komið upp í 1.808 MW en ekki ljóst hve stór hluti verður til til reiðu. Í 4. áfanga koma til skoðunar fleiri vindorkukostir en áður í nýtingarflokki, ásamt jarðvarma- og vatnsaflskostum. Afltalan þar liggur ekki fyrir.
Frammi fyrir völtu efnahagsástandi, framförum í nýsköpun, háleitari loftslagsmarkmiðum og brýnum orkuskiptum ber þingflokkum að ná fram málamiðlun í afgreiðslu Rammaáætlunar. Nýta verður kosti hennar, hvað sem ágöllum líður, og tryggja viðbótarraforku við þá orku sem unnt er að afla m.a. bættri orkunýtingu. Vart er hægt að búast við að alþjóðlega djúpborunarverkefnið (sjá iddp.is), með 5-10 sinnum aflmeiri háhitaborholum, breyti neinu við afgreiðslu 3. og 4. áfanga Rammaáætlunar. Til þess er beislun ofurhola of stutt kominn.
Gagna- og málmiðjuver
Allmörg gagnaver starfa í landinu og þeim fjölgar fremur en hitt. Hóflegur fjöldi, miðað við orkuframboð, er æskilegur. Við eina tegund starfsemi þeirra ber þó að gjalda varhug. Rafmyntaspákaupmennska, einkum með bitcon, fer fram að óljósum hluta með leyndarhyggju og í ólögmætum tilgangi. Raforkunni er betur varið til annarra og þarfari nota, auk þess sem siðfræðilegur grunnur viðskiptanna sæmir ekki samfélagi okkar. Aflnotkun við bitcon-gröft á Íslandi er sögð nema einhverjum tugum megawatta en raunupplýsingar fást ekki. Landsvirkjun mun hafa hafnað nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta og upplýst að gagnaver á Íslandi hyggjast „fasa út“ rafmyntir og leggja áherslu á hefðbundna viðskiptavini. Landsvirkjun og stjórnvöldum ber að sjá til þess, með tiltækum ráðum, að rafmyntagröftur heyri sögunni til.
Sýnilega hefur áhuginn á fótfestu fleiri málmiðjuvera horfið að mestu. Ekki má heldur gera ráð fyrir að meiri raforka fáist til þeirra ef mikilvægari verkefni eru tekin alvarlega. Öll verða þau að hefja, og kosta til, niðurdælingu eða nýtingu kolefnisgass og nýtingu glatvarma í stað stækkunar. Að öðrum kosti, hvað álverin varðar, skipta út kolarafskautum fyrir kolefnislaus skaut. Aflagt kísilver í Reykjanesbæ á ekki að endurræsa vegna andstöðu íbúa og af því að ekki er tryggt með mati óháðra, tilkvaddra matsaðila að það sé fyllilega starfhæft eftir lagfæringar. Auk þess þarf raforkuna sem þangað færi í aðra og vistvænni starfsemi sem og til orkuskipta.
Orkuskipti
Stefnt er að fullum orkuskiptum og jarðeldsneytislausu landi fyrir 2040. Það eru ströng tímamörk ef á að losna við ársinnflutning sem nemur yfir einni miljón tonna af olíum og bensíni í samgöngum og í atvinnustarfsemi á landi og sjó og í lofti. Í staðinn nýtum við raforku úr rafhlöðum, metan, alkóhól, vetni, ammoníak, lífdísil og fleiri efni sem framleidd eru með innlendri raforku eða flutt inn. Orkugjafar með vetni kallast rafeldsneyti. Það getum við framleitt til eigin nota, selt þeim sem hér koma við og þurfa að kaupa orkugjafa. Jafnvel framleitt rafeldsneyti til útflutnings og sölu.
Orkuskipti eru nú nær eingöngu á vegum landsins og aðallega í einkabílageiranum (um 12% samgangna á landi). Meginhluta orkuskipta á að ljúka á innan við 18 árum. Þau eru afar tækniháð og hlutföll framboðs ýmissa orkugjafa óljós. Flest framleiðslufyrirtæki orkugjafa og tækja eru enn á nýsköpunar- og undirbúningsstigi orkuskipta á sjó og í lofti. Eftirspurn raforku er enn metin með fremur grófum áætlunum og þá m.a. samkvæmt þekktum, orkusæknum framleiðsluaðferðum rafeldsneytis. Einng er orkuþörf tækja sem ganga fyrr rafhlöðurafmagni áætluð. Þannig hafa sex sviðsmyndir orkueftirspurnar verð settar fram. Fimm þeirra sýna viðbótarorkuþörf frá um 10% (250-300 MW) til um 120% (yfir 3.000 MW) eftir því hve víðtækum orkuskipum er reiknað með á tilteknum árafjölda og hvort vöxtur framleiðslu, einkum græns iðnaðar, er hafður með eða ekki (sjá: Staða og áskoranir í orkumálum, mars 2022 - á vef unr.is)
Orkuframboð
Hvaðan fæst raforka til orkuskipta? Einn hluti fæst með orkusparnaði, annar með bættri orkunýtni og aflaukningu virkjana, enn einn með endurbættu flutningskerfi og fjórði og sennilega stærsti hlutinn með samblandi nýrra vatns-, jarðvarma- og vindaflsvirkjana. Engar ágiskanir um tölur og hlutföll ólíkra virkjanagerða verða settar hér fram. Hvort sem aflaukning verður á endanum 500, 1.500 eða 2.500 MW á 10 til 30 árum, verður því ekki á móti mælt að full orkuskipti eru skylduverk og risastórt skref sem þolir ekki bið. Uppsagnir samninga við stórðjuver eða lokun þeirra að boði eigenda eru mögulegar sviðsmyndir. Þannig losnaði um hundruð megawatta rafafl. Tillögur um slíkt eru þó fáséðar, m.a. vegna efnahagslegra áhrifa og viljayfirlýsinga stjórnvalda, fyrirtækja og hagaðila um að „grænka“ iðjuverin með ýmsu móti.
Vindorka
Ætla má að fyrir liggi áætlanir eða hugmyndir að um það bil 40 vindorkuverum á landi. Samanlagt afl er miklu meira en sem nemur núverandi uppsettu rafafli. Milli 15 og 20 þeirra hafa borist verkefnastjórn Rammaáætlunar en afar fá munu lenda í nýtingarflokki 3. og 4. áfangans . Mörg hafa borist sveitarstjórnum og undirbúningur sumra þeirra kominn mislangt á veg. Bakhjarlar eru langflestir erlendir en tvö vindorkuver (vestan Hofsjökuls og norðan Búrfells) eru á borði Landsvirkjunar. Þær skoðanir heyrast að vindorka falli ekki undir Rammaáætlun en sé á forræði sveitarfélaga, óháð stærð (og sæti venjulegum ferlum framkvæmda). Það er rangt eins og fyrr er hér minnst á.
Áhugi, einkum breskra aðila, á vindorkuverum undan ströndum Íslands hefur komið fram. Er þá ýmist horft til dýrra kapaltenginga til suðurs eða inn til landsins þar sem raforkan væri nýtt til rafeldsneytisframleiðslu o.fl. Slíkar hugmyndir ganga þvert á stefnumótun í orkuskiptum og þvert á sjálfbæra orkustefnu og eigin forræði yfir orkuauðlindum. Aðstæður á úthafi við Ísland eru mun erfiðari en á hafsvæðum meginlandsins. Það eitt er næg ástæða til þess að vindorku í hafi undan norðvesturhluta meginlands Evrópu beri að afla þar en ekki norður undir heimskautsbaugi.
Þrjú nálæg verkefni
Til þess að auðvelda öllum að átta sig á verkefnum sem blöstu við, eftir að skýrsla starfshóps á vegum ráðuneyti umhverfis- og orkumála var unnin, birtust þar 30 ábendingar og álitamál. Úr þeim þurfa allir hlutaðeigandi að vinna og leysa verkefni sem að þeim snúa. Ég hef m.a. lagt áherslu á að uppfæra verði, með bestu sérfræðiþekkingu, sviðsmyndir í takt við tækni- og samfélagsþróun. Vinna verður fyrstu opinberu aðgerðaáætlunina vegna orkuskipta. Enn fremur hef ég lagt að að stofnað verði Orkuskiptaráð.
Ráðið væri skipað fulltrúum fáeinna ráðuneyta, svo sem úr ráðuneytum loftslagsmála og orku (sem hefði ráðið innan sinna vébanda), iðnaðar, annarra atvinnuvega og nýsköpunar, fjármála og fulltrúa forsætisráðuneytis, enn fremur fulltrúum orkufyrirtækja (Samorku), tækni- og nýsköpunarfyrirtækja eða -samtaka, eldsneytissala, samtökum á borð við Grænvang, auk samtaka á sveitarfélagastigi og sérfræðingum úr menntastofnunum, ríkisstofnunum og t.d. frá verkfræðistofum og a.m.k. einum almannasamtökum náttúruverndar. Hlutverk slíks hóps væri, við fyrstu sýn, ráðgjöf, upplýsingamiðlun og samhæfing vinnu og aðgerða hagaðila og orkugeirans í samvinnu við stjórnvöld og kjörna fulltrúa á báðum stigum stjórnsýslunnar og innan valinna ríkisstofnana. Við gerð og endurskoðun aðgerðaráætlunar í orkuskiptum kæmi ráðið við sögu sem bakhjarl ráðuneyta og aðgerða- og verkefnisstjórnar orkuskipta, sem aftur ynni með verkefnistjórn um loftslagsmál.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna.