Einstaka sinnum er sagan svo gráglettin að fórna örlagaríkum framtíðarmálum á altari viðfangsefna líðandi stundar. Einatt reynist það afdrifaríkt. Stefan Zweig líkti slíkum augnablikum mannkynssögunnar við skapadægur. Þótt ekki ætli ég mér þá dul að líkja klækjum íslenskra stjórnmála við þau örlagaríku augnablik sem urðu Zweig að yrkisefni, geta ákvarðanir af þessu tagi engu að síður orðið lítilli þjóð afdrifaríkar.
Jónas frá Hriflu var plássfrekur stjórnmálamaður einkum á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar. Hann var öflugasta áburðarkerra Framsóknarflokksins og dagskrárgerðarstjóri íslenskra stjórnmála. Skömmu fyrir miðbik fjórða áratugar aldarinnar voru atkvæðahlutföll á Alþingi þannig að Framsóknarflokkurinn þurfti annan flokk með sér til að mynda þingmeirihluta. Alþýðuflokkurinn hafði verið utan stjórnar frá stofnun og var reiðubúinn. Hrossakaupin voru sögð vera þau að Alþýðuflokkurinn neitaði að setjast í stjórn með Jónas innanborðs en Framsóknarflokkurinn fékk því framgengt að Alþýðuflokkurinn setti kjördæmamálið og leiðréttingu mikillar skekkju í vægi atkvæða í bið. Síðarnefndi flokkurinn taldi mikilvægara að ná fram lögum um almannatryggingar. Leiðrétting á afdrifaríku misvægi atkvæða var fórnað fyrir aðkallandi félagsleg úrlausnarefni.
Afdrifarík fórn
Þetta reyndist verða Alþýðuflokknum og þjóðinni langdræg og skaðleg fórn. Það varð ekki fyrr en um þrjátíu árum seinna sem leiðréttingarskref í átt að jafnara atkvæðavægi var stigið og þá mynduðu Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokknum bandalag þar um. En þá var það orðið of seint fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var búinn að hrista af sér fjöldafylgið vegna þráláts áhrifaleysis. Baráttan við Sósíalistaflokkinn og hliðarseta á stjórnmálabekknum kom í veg fyrir að hann næði þeim þingstyrk sem atkvæðamagn hans hefði gefið, undir jöfnum leikreglum. Nokkur ójöfnuður ríkir enn og hefur verið trygging fyrir valdaflokkana tvo að stjórna landinu til skiptis með tilfallandi aðstoð frá vinstri. Í öll þrjú skiptin sem Alþýðuflokkurinn settist í stjórn eða vann saman með Sjálfstæðisflokknum var það þó til að leysa stór mál. Kjördæmamálið árið 1959; ný hagskipan 1962 : inngangan í EFTA 1969 og samninginn um EES 1993.
Kerfisvandi knýr á dyr
Nú stendur þjóðin frammi fyrir miklum kerfisvanda. Við erum orðin samofin hagkerfum landa Evrópusambandsins eftir þrjátíu ára þátttöku í og aðlögun að innri markaði þess. Við höfum yfirtekið einstakar tilskipanir, jafnvel heilu lagabálkana og gert að íslenskum lögum. Íslensku atvinnulífi er því lífsnauðsynlegt að vera samkeppnishæft við erlenda keppinauta á þessum stóra markaði.
Ný vegferð
Það kom því á óvart þegar nýr formaður Samfylkingarinnar tilkynnti að forgangsröðun áherslumála flokksins yrði breytt. Aðild að ESB yrði sett í bið. Önnur mikilvægari félagsleg framfaramál yrðu sett á oddinn. Svipuð rök voru líka sögð í upphafi fjórða áratugarins þegar Alþýðuflokkurinn var að gera hosur sínar grænar fyrir maddömu Framsókn. Það voru afglöp sem ristu djúpt og flokkurinn og náði sér aldrei af. Íslenskt samfélag þróaðist frá jöfnuði til sérhygli. ESB aðild er ekki lengur einhver skrautfjöður um efnahagslegt öryggi og samstöðu með grönnum okkar. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka ervu er orðin forsenda félagslegs stöðugleika og framfara. Lærum af gamalli reynslu Alþýðuflokksins og nýrri hjá Vinstri Grænum. Horfumst í augu við staðreyndir. Þær leiða okkur sjaldnast á villigötur.
Höfundur er hagfræðingur.