Það er frekar óþægileg staðreynd að átta sig á því árið 2014 á Íslandi að maður býr í raun ekki í lýðræðisríki. Seinast þegar ég vissi er það nauðsynlegur hluti af lýðræði að kynna alla valmöguleika fyrir fólki og gefa þeim kost á að hafa aðgang að öllum upplýsingum sem skipta máli.
Núna fyrir sveitarstjórnarkosningar hefur borið meira og meira á því að ýmsir stórir fjölmiðlar hafa kerfisbundið þaggað niður í litlu flokkunum sem eru að bjóða sig fram. Rökin sem gefin eru fyrir þessari þöggun eru margskonar en þó aðallega af tvennum toga: að þau bjóði bara þeim flokkum sem eru með þingmenn eða þeim sem ná yfir 5% í skoðanakönnunum. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi rök eru ekki bara ólýðræðisleg og viðhalda ríkjandi valdakerfi heldur fela þau einnig í sér ákveðna rökvillu.
Sú rökvilla kallast á máli rökfræðinnar, hringskýring. Hringskýring felur það í sér að forsenda skoðunar er útskýrð með skoðuninni sjálfri og er því ekki raunverulega skýring. Tökum dæmi: Ef ég segi að Guð sé almáttugur og einhver spyr mig hvernig ég viti það og ég ég svara með því að vísa í orð Biblíunnar getur sá hinn sami spurt mig hvernig ég viti að Biblían segi sannleikann. Ef ég svara með því að segja að auðvitað sé það satt þar sem Guð almáttugur hafi skrifað biblíuna segir sig sjálft að þarna er ég komin í hring og engin rök sem halda vatni eru þarna á ferðinni. Ef við færum þetta yfir í kosningaveruleikann getur hringskýring litið svona út: Hvers vegna eru þið ekki að mælast með neitt fylgi? Líklega vegna þess að ákveðnir sterkir fjölmiðlar og aðrir viðhafa kerfisbundna þöggun á framboðinu. Nú, hvers vegna eru þeir með þessa þöggun? Nú, vegna þess að við erum ekki með nógu mikið fylgi! Þetta sér hver maður að þetta eru ekki vænleg og málefnaleg vinnubrögð og viðhalda eingöngu ríkjandi valdhafa. Þetta fellur alla vega ekki inn í skilgreininguna á lýðræðisríki eins og ég skil það.
Skemmtilegasta útfærslan á þessari rökvillu er úr gömlu áramótaskaupi frá því snemma á níunda áratugnum þar sem fréttamaður er að taka viðtal við tvo afdala bændur í Laugardalnum. Þar eru þeir spurðir hvort þeir séu með síma. ,,Nei, við erum ekki með neinn síma“. Nú, hvers vegna eru þið ekki með neinn síma spyr fréttamaðurinn. ,,Nú, vegna þess að það hringir aldrei neinn í okkur“. Fréttamaðurinn spyr þá í samúðartón: ,,Hvers vegna hringir aldrei neinn í ykkur?“. ,, NÚ VEGNA ÞESS AÐ VIÐ HÖFUM EKKI SÍMA!“ hreyta þeir í fréttamanninn.
Einhverjir gætu sagt að það sé engin skylda fyrir frjálsa fjölmiðla eða félagasamtök að bjóða öllum með og vissulega enginn lagalegur grunnur sem kveður á um það. Þessi skylda er hins vegar siðferðileg og ennfremur málefnaleg skylda í lýðræðisríki ef fólk vill láta taka sig alvarlega sem fjölmiðil að mínu mati. Nú er ég heldur ekki að segja að ástæðan fyrir lágu fylgi standi og falli eingöngu með umfjöllun tiltekinna blaða. Vissulega er fólk hrætt við nýjungar og hræðist að atkvæði þeirra nýtist ekki sem skyldi. Það er auðvitað annað mál að eiga við hegðun og hugsun almennings og hvernig þeir mynda sér skoðanir. En ég held að margir geti viðurkennt að Íslendingar eru ansi fljótir að gleyma og falla fyrir sömu loforðum sömu flokka kosningu eftir kosningu þrátt fyrir að þau séu mjög oft svikin. Einhvers staðar sá ég skilgreiningu á geðveiki sem að gera alltaf sama hlutinn aftur og aftur og búast við nýrri útkomu. Dæmi nú hver fyrir sig.
Höfundur er í öðru sæti á framboðslista Dögunar í Reykjavík.