Starfsemi háskólabókasafna hefur snúist mikið um að þjónusta nemendur, meðal annars með því að sinna upplýsingalæsiskennslu. Í dag eru upplýsingafræðingar í meiri mæli að þróa rannsóknarþjónustu til að geta aðstoðað og stutt rannsakendur við að stunda opin vísindi.
Rannsóknargögn eru mikil auðlind og samkvæmt FORCE11, sem er alþjóðlegur hópur rannsakenda, upplýsingafræðinga og rannsóknarsjóða, eru rannsóknargögn jafn mikilvæg og vísindagreinar. Á tímum COVID-19 faraldursins er sérstaklega brýnt að halda vel utan um rannsóknargögn og deila þeim meðal rannsakenda um allan heim til að geta stoppað þennan vágest. Opin gögn auka meðal annars gæði og gegnsæi vísinda, stuðla að ábyrgari nýtingu opinberra fjármuna og draga úr tvíverknaði.
Rannsóknarmenning háskóla er að breytast í átt að opnum vísindum þó að Ísland sé enn langt á eftir öðrum Evrópulöndum hvað það varðar. Samkvæmt framkvæmdastjórn ESB miða opin vísindi (e. open science) að því að gera rannsóknir opnari og alþjóðlegri og að ýta undir samstarf með því að nota stafræna tækni og tengslanet. Opin vísindi koma með félagslegar, menningarlegar og tæknilegar breytingar á framkvæmd rannsókna. Undir þeirri regnhlíf eru meðal annars opinn aðgangur og opin rannsóknargögn.
Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO), sem Ísland hefur verið aðili að frá árinu 1964, vinnur með alþjóðlegan vegvísi fyrir opin vísindi. Aðilar samtakanna eiga að innleiða stefnuna, en hún hefur jafnrétti að leiðarljósi og er markmiðið að tryggja jafnan aðgang þjóða að fræðilegri þekkingu.
Árið 2020 voru 14 af 27 Evrópulöndum með sína eigin stefnu eða leiðarvísi tengdan rannsóknargögnum og flest þeirra eru með sameiginlega stefnu um opinn aðgang og opin gögn. Það er því forvitnilegt að spyrja: Hvernig er staðan á Íslandi? Gera íslenskir háskólar rannsakendum kleift að deila rannsóknargögnum og birta þau í opnum aðgangi?
Íslensk rannsóknargögn
Ágústa Pálsdóttir, prófessor í upplýsingafræði, hefur skoðað rannsakendur í Háskóla Íslands og rannsóknargögn þeirra. Í ljós kom að sjaldan er veittur opinn aðgangur að rannsóknargögnum en rannsakendur hafa lengi verið í samstarfi sín á milli og deilt með sér gögnum.
Það eru mjög fáir hvatar fyrir rannsakendur að stunda opin vísindi og umræðan hefur aðallega fjallað um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Árið 2019 skilaði verkefnahópur mennta- og menningarmálaráðherra tillögum að stefnu um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið birti niðurstöður um stefnuna í september 2021 og voru þær mjög óskýrar og ómarkvissar.
Seinni hluti stefnunnar á að fjalla um opinn aðgang að rannsóknargögnum og sú vinna er alveg eftir. Staðan í dag er sú að stjórnvöld, háskóla og rannsóknarsjóði á Íslandi vantar stefnur um opin rannsóknargögn.
Mögulegir hvatar fyrir opinn aðgang að rannsóknargögnum eru til dæmis að ýta undir nýsköpun, gerð gagnaáætlana við styrkumsóknir og aukinn sýnileika rannsakenda. Framgangskerfi háskólanna þarf að hvetja rannsakendur til að birta vísindagreinar í opnum aðgangi en einnig rannsóknargögn. Ef mat á rannsakendum verður skoðað út frá opnum gögnum er hægt að meta hvort stjórnun opinna gagna er til fyrirmyndar og hvort rannsakendur endurnýti gögn frá öðrum fræðimönnum.
Einnig er hægt að umbuna rannsakendum fyrir að nota FAIR-viðmiðin, sem fela í sér að rannsóknargögn eiga að vera finnanleg, aðgengileg, gagnvirk og endurnýtanleg. Að gögn séu FAIR snýst meðal annars um að gefa gögnum alþjóðleg, einstök og varanleg auðkenni. Mikilvægt er að gögn séu með mjög góð lýsigögn. Gögn þurfa einnig að vera með skýr og aðgengileg notkunarleyfi. Markmiðið með því að nota FAIR-viðmiðunarreglurnar er að birta rannsóknargögn í formi sem uppfyllir þessi fjögur atriði svo bæði vélar og manneskjur geti auðveldlega fundið gögnin.
Einnig þurfa háskólar að hafa innviði eins og örugg varðveislusöfn og gera rannsakendum þannig kleift að varðveita og deila gögnum. Ánægjulegt er að sjá að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur sett á laggirnar gagnaþjónustu félagsvísinda sem heitir GAGNÍS og hýsir rannsóknargögn, meðal annars úr könnunum, í opnum aðgangi.
Opin gögn eru ekki alltaf opin
Mikilvægt er að hafa á hreinu að stjórnun rannsóknargagna snýst ekki bara um að gera gögnin opin. Það snýst ekki síður um að sjá verðmæti gagna og halda vel utan um og varðveita rannsóknargögn svo þau glatist ekki. Æskilegast er að birta gögn en það er ekki alltaf hægt. Markmiðið er, eins og meðal annars framkvæmdastjórn Evrópusambandsins orðar það, að gera gögn: „Eins opin eins og hægt er og eins lokuð og nauðsynlegt er.“ Þegar gögn eru viðkvæm er nauðsynlegt að skrá lýsigögn svo hægt sé að sjá að gögnin séu til og að hægt sé að hafa samband við rannsakendur um möguleika á að fá aðgang.
Hlutverk háskólabókasafna
Háskólar á Íslandi þurfa að byggja upp rannsóknarinnviði sem mæta nýjum kröfum um rannsóknarferla og þar hafa bókasöfnin tækifæri til þátttöku í þróun gagnaþjónustu fyrir rannsakendur. Rannsakendur þurfa að fá aðstoð til að skipuleggja, varðveita og deila rannsóknargögnum í gegnum allt rannsóknarferlið.
Á Íslandi eru sjö háskólar. Til að nýta betur opinbert fé og þekkingu um opin gögn væri miðlæg gagnaþjónusta sem allir háskólar hefðu aðgang að besta lausnin, í staðinn fyrir að allir reyni að finna upp hjólið. Sem fyrirmynd væri hægt að skoða starfsemi Svensk nationell datatjänst í Svíþjóð. Þar eru um 40 háskólar sem mynda tengslanet og allir eiga að vera með gagnaþjónustu sem þverfaglega deild, þar sem starfa meðal annars upplýsingafræðingar sem bera ábyrgð á stjórnun rannsóknargagna.
Nú er kominn tími til að aðilar innan háskóla, háskólabókasafna, rannsóknarsjóða og stjórnvalda á Íslandi setjist við borðið, ræði og vinni saman um opin rannsóknargögn til að tryggja jafnrétti háskóla til að geta stundað opin vísindi óháð stærð og staðsetningu.
Höfundur er upplýsingafræðingur á Bókasafni og upplýsingaþjónustu Háskólans á Akureyri.