Um miðja 18. öld var ákveðið að Reykjavík skyldi verða borg en þá bjuggu nokkur hundruð manns á víð og dreif um Reykjavíkursókn. Danir höfðu áhyggjur af okkur Íslendingum og með einhverjum hætti varð að bjarga okkur. Leiðin sem þeir sáu var að þétta byggð og byggja upp kjarna sem yrðir að borg sem gæti veitt menntun, þjónustu, menningu og aukin lífsgæði.
Hvernig fóru Danir að þessu? Þeir fjárfestu og færðu opinbera þjónustu til Reykjavíkur. Þeir fjárfestu í iðnaði og iðnmenntun. Fyrirtækið Innréttingarnar (Hans Majestæt Hystalig Kong Friderich den 5. Stiftede Indretninger) var stofnað 1751 en þetta var fyrirtæki sem skyldi kenna Íslendingum ýmsa iðn.
Þessi fjárfesting markaði þáttaskil en við hús fyrirtækisins varð til fyrsta gatan í fyrirhuguðu þorpi.
Uppbyggingin hætti ekki þarna. Alls konar stofnanir og embætti sem voru hér og þar um landið voru flutt til Reykjavíkur eða nágrenni eins og: Landsfógetinn 1755, Landlæknir á Seltjarnarnes 1763 og síðar færður til Reykjavíkur 1834, Apótekarinn 1772 og fluttur til Reykjavíkur 1834, Hólavallaskóli 1786, biskup yfir Íslandi 1797, Landsyfirréttur 1800, stiftmaður 1804, prentsmiðja í Viðey 1819 og færð til Reykjavíkur 1844, Alþingi endurreist í Reykjavík 1845, Lærði skólinn 1846 og Prestaskólinn 1847 sem urðu undirstaða Háskóla Íslands og svo var Landsbankinn stofnaður og byggður 1886.
Höfn í Reykjavík
Hvað væri Reykjavík án hafnar? “Sennilega ekki höfuðstaður landsins, líklega lítið kotþorð (kotþorp) og fremd (frægð) þess við það eitt bundið, að Ingólfur setti sig þar niður í öndverðu og Innréttingar Skúla fógeta lentu þar”. Svona spurði og svaraði Knud Zimsen fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur (1914-1932) sjálfan sig í bókinni “Úr bæ í borg”. Og það er svo mikið til í þessu hjá honum
Að fjárfesta í höfn í Reykjavík gaf bænum forskot á allt annað á Íslandi. Reykjavík verður við það miðstöð flutninga til og frá landinu. Þegar togarar koma til sögunnar geta þeir lagst að og landað og í kringum það verður gríðarleg fjárfesting og uppbygging atvinnu. Aukin umsvif togaranna kallaði á ennþá frekari fjárfestingar í hafnaraðstöðu.
Hafnaraðstaðan verður svo til þess að þegar seinni heimstríðsöldin (1939-1945) skellur á liggur beint við að Bretar og Bandaríkjamenn hafa aðstöðu í Reykjavík til að leggja herskipum sínum að. Bretar byggja upp flugvöll í Reykjavík og Bandaríkjamenn Keflavíkurflugvöll sem svo er gefinn Íslendingum í lok stríðsins og verður miðstöð millilandaflugs til Íslands og er í dag eina stóra gáttinn inn í landið, og býr til störf og tækifæri.
Hver er ég að fara með þessu?
Ég er að benda á það augljósa. Breyttu aðstæðum og þú breytir möguleikum fólks til búsetu. Þegar hafnaraðstaða var byggð upp í Reykjavík þótti hún náttúrulega ekki góð en sú ákvörðun að byggja upp Reykjavík hefur heldur betur tekist vel. Þetta var rétt ákvörðun. Íslendinga vantaði þjónustukjarna sem gæti vaxið og veitt fólki atvinnu, menntun, þjónustu og menningu. Aukin lífsgæði. Vandinn er sá að löngu eftir að Reykjavík varð borg hefur þessi byggðaaðgerð haldið áfram, þannig að landsbyggðin sem svo sannarlega hefur stutt við höfuðborgina stendur eftir veikari og fámennari með einni undantekningu, Akureyri.
Í dag búa 80% landsmanna í Reykjavík eða innan eins klukkustunda aksturs frá áhrifasvæði hennar. Er náttúrulögmál að þetta sé svona? Nei, augljóslega ekki. Þessi vel heppnaða byggðaaðgerð hefur tekist svo vel að hún hefur skapað gríðarlegt ójafnvægi. Ójafnvægi í búsetu, ójafnvægi í ákvörðunartöku, ójafnvægi í fjárfestingum, ójafnvægi í tækifærum.
Þetta ójafnvægi er ekki gott fyrir Ísland. Vandamál höfuðborgarinnar og landsbyggðanna er samtvinnað í þessari borgarstefnu. Hátt fasteigna- og leiguverð, götur sem ráða ekki við sífellt fleiri bíla, meðan landsbyggðirnar búa við frost í byggingu húsnæðis, lélegar samgöngur og verri aðstaða til mennta og heilbrigðisþjónustu. Afleiðing þess er fámenni.
Breytum aðstæðum
Ef ráðmenn telja að núverandi staða sé ekki góð fyrir Ísland verða þeir að gera eitthvað í þessu. Af dæmunum hér að ofan er augljóst hvað það er, það þarf að stórauka fjárfestingu út um landsbyggðirnar. Það þarf að fjárfesta í innviðum, samgöngum og þjónustu, og breyta aðstæðum á þann hátt, að sá sem býr í Reykjavík í dag sér sér fært að búa út á landi óski hann sér þess, einungis þannig skapast jafnvægi. Til þess að svo megi verða, þurfa alþingismenn, ráðamenn, embættismenn og opinberir starfsmenn sem lang flestir búa á höfuðborgarsvæðinu að vera tilbúnir að breyta borgarstefnu í landsbyggðastefnu.
Höfundur er íbúi á Egilsstöðum.