Þessa dagana er mikið rætt um söluna á Mílu til Ardian - ungs fransks heildsölufyrirtækis á fjarskiptamarkaði, sem hefur verið að hasla sér völl á þessu sviði. Minna hefur farið fyrir umræðu um sölu til erlendra sjóða á hluta dreifikerfis Vodafone en fyrirtækið sér eins og kunnugt er um dreifingu á útvarps og sjónvarpsefni um land allt.
Hagnaðarsjónarmið ráða
Fyrirtæki sem þessi eru að jafnaði ekki rekin á samfélagslegum grundvelli, heldur eru það hagnaðarsjónarmiðin sem ráða þar för. Það eru gjarnan gefin allskonar loforð við slík eignaskipti og lofað öllu fögrum. Hver man ekki þegar Samherji keypti Gugguna á Ísafirði, gula fleyið sem var stolt ekki aðeins Ísfirðinga, heldur Vestfirðinga allra. Ef ég man rétt var sérstaklega tekið fram við söluna á útgerðinni að skipið landaði áfram á Ísafirði yrði eftir sem áður gult að lit og héldi þar með einkennum sínum. Ekki leið þó á löngu þar til guli liturinn hvarf, skipið hætti að landa vestra og rauði Samherjaliturinn tók yfir. Gott ef það er nú ekki gert út frá erlendum höfnum undir merkjum Samherja.
Dreifingarkerfi ljósvakamiðla
En það er ekki aðeins að við séum að missa tökin á ljósleiðaramarkaðnum hér á landi, því rætt hefur verið um að selja hluta af dreifingarkerfi landsins fyrir ljósvakamiðla. Vodafone sér nú um dreifing á útvarps- og sjónvarpsefni um land allt fyrir alla, að því mér skilst. Þar á bæ er Ríkisútvarpið stærsti viðskiptavinurinn og greiðir þessu fyrirtæki árlega hundruð milljóna króna fyrir dreifing Útvarps og Sjónvarps. Í byrjun nam þessi upphæð á milli 700 og 800 milljónum króna vegna stofnkostnaðar, en líklega eru þetta um 500 miljónir króna árlega um þessar mundir sem Ríkisútvarpið þarf að greiða til einkafyrirtækisins Vodafone til að koma dagskrá sinni í Útvarpi og Sjónvarpi til hlustenda og áhorfenda sinna.
Samgöngur rafmagn og fjölmiðlar
Þessi tvö kerfi, ljósleiðarakerfið og ljósvakamiðlakerfið, sem hér hefur verið minnst á að framan, eiga að sjálfsögðu að vera í eigu ríkisins með einum eða öðrum hætti, annaðhvort beint í eigu ríkisins eða félaga á vegum þessi. Þetta er ekki síður mikilvægir innviðir, en vegir, hafnir, flugvellir og raflínur, því við vitum aldrei hvernig veður skipast í lofti, og sýn einkafyrirtækja breytist frá degi til dags, eins og dæmin sanna. Það dettur varla engum í hug að vegir, hafnir og flugvellir, rafmagnslínur og fleira slíkt sé í eigu og rekin af einkafyrirtækjum, og það sama á auðvitað einnig að gilda um ljósleiðarann og dreifikerfi útvarps og sjónvarps í loftinu.
Það hefur töluvert verið rætt um stuðning við einkarekna fjölmiðla á undanförnum mánuðum, og vel mætti hugsa sér að ef ríkið hefði yfir að ráða dreifikerfi útvarps og sjónvarps að einkareknu ljósvakafjölmiðlarnir fengju aðgang að þessu kerfi á hagstæðum kjörum. Það væri rétt eins og þegar blaðastyrkirnir voru við lýði hér á landi fyrrum og dagblaðapappír var í sérstökum lágum tollflokki til að greiða fyrir útgáfu dagblaðanna sem þá voru og hétu, og héldu uppi lýðræðislegri umræðu hér frá degi til dags.
Við erum eyland
Það er hægt að færa margvísleg rök fyrir því að þessi kerfi séu í eigu ríkisins, rétt eins og við þurfum að búa við matvælaöryggi og vegna þess að við erum eyþjóð, að hér séu áreiðanleg og stöndug samgöngufyrirtæki til að tryggja öruggar og tíðar samgöngur til og frá landinu, að ekki sé minnst á innanlandssamgöngur. Öll þessi atriði sem hér hafa verið nefnd eru þáttur í öryggi landsmanna og að hér þróist líka fjölbreytt og öflug fjölmiðlaflóra, bæði Ríkisútvarpið og einkareknir fjölmiðlar til að halda uppi lýðræðislegri umræðu og skoðanaskiptum um mál dagsins og framtíð lands og þjóðar.
Höfundur er leiðsögumaður, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, ritstjóri Fréttablaðsins og fréttamaður.