Hve margir hafa velt fyrir sér sjálfbærni sem á að einkenna ferðaþjónustu á Íslandi?
Nú orðið þykir sjálfsagt að móta pólitíska grunnstefnu í málaflokkum utan um hugtakið sjálfbærni enda um framtíð mannkyns að tefla. Sjávarútvegur og mest allur iðnaður skal vera sjálfbær. Einnig orkuvinnsla og öll orkunýting, sem og landbúnaður og matvælaframleiðsla. Um þetta ríkir veruleg almenn sátt þótt menn greini oft á um stöðuna og leiðir að markinu.
Fyrir allmörgum árum varð ferðaþjónustan enn einn atvinnuvegurinn sem á að verða sjálfbær. Vel að merkja á það að gerast í skrefum eins og eðlilegt má telja. Sjálfbær ferðaþjónusta veldur umhverfisáhrifum sem ýmist er hægt að jafna með mótvægisaðgerðum eða veldur ekki skaðlegum umhverfisáhrifum og nær jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar.
Sjálfbær ferðaþjónusta gagnast samfélaginu og veldur ekki óafturkræfum, samfélagslegum skaða og er í reynd (og þróast) í sátt við samfélagið, bæði staðbundið og í heild. Sjálfbær ferðaþjónusta skilar fjármunum til samfélagsins, að frádregum kostnaði og fjárfestingum hennar vegna, og hefur ekki neikvæð áhrif á efnahagslífið eða menninguna. Vissulega eru til nákvæmari útlistanir á sjálfbærni, en ofanskráð dugar til að mála grófu myndina.
Sjálfbærni fylgja ýmsar takmarkanir í aðgerðum og hegðun manna. Henni fylgja svonefnd þolmörk. Umhverfinu, samfélaginu og hagkerfinu eru takmörk sett, eigi sjálfbærni að vera ásættanleg og raunveruleg. Veiðar og fiskeldi í sjó við Ísland, og vinnsla afurðanna, eiga sér augljóslega þolmörk, ekki satt? Sama ber að segja um ferðaþjónustuna.
Við greiningu þolmarka hennar er í mörg horn að líta. Horft er til dæmis til fjölda ferðamanna, dvalartíma, komu og brottfara eftir árstíðum, á ferðahætti innanlands, öryggismál, ólíkar ferðaslóðir eftir landshlutum, gæði innviða til þjónustu og samgangna, álagsstaði, upplifun gesta og heimamanna og mælanleg áhrif á náttúruna, þar með talið víðerni og loftslag. Meta verður enn fremur fjárhagsleg áhrif af ferðaþjónustunni, áhrif hennar á aðra atvinnuvegi, á fjölbreytni þeirra og framtíðarþróun, á menningu og mannlíf.
Að greiningu þolmarka lokinni verður að fylgjast með og mæla áhrif atvinnugreinarinnar jafnt staðbundið og á stærri skala, að því marki sem það er unnt.
Þolmarkagreining fer fram með vísindalegum aðferðum í flestum tilvikum en stundum, með matskenndum hætti. Stjórnmál og ólík hugmyndafræði þeirra koma til álita þegar á að ákvarða viðbrögð og móta stefnu, bæði í heild og ár frá ári. Hægt er að greina þolmörk eins og gert var á Þingvöllum fyrir fjöldatakmörk köfunar í gjána Silfru. Auk tilgreindra ferðamannastaða er hægt að vinna greiningu fyrir þéttbýlisstaði eins og Vík og Ísafjörð eða héruð eins og Skagafjörð og Múlaþing. Meira að segja fyrir Reykjavík og Ísland. Hvað er hægt að þjóna mörgum gestum þannig að íbúar séu sáttir eða ánægðir og umhverfið þolir gestakomurnar? Hvað með umhverfi, samfélag, atvinnuvegi og hagkerfi í heild? Á ársgrunni jafn sem í sveiflukenndum takti, ár hvert? Samtímis er vitað að þolmörk vegna sjálfbærni geta og mega breytast með tíma og ytri eða innri aðstæðum.
Ég tel umræður um og greiningar á þolmörkum alllangt á eftir þróun ferðaþjónustunnar. Hvort sem er miðað við umfang hennar, heildarskipulag eða mismunandi árvekni þeirra sem að henni koma. Ástæður þessa eru vafalítið ólíkar eftir því hvar borið er niður. Enn sér lítið til svara við mörgum spurningum og niðurstaðna stöðugreininga víða um land. Þolum við skemmtiferðaskipakomur sem nema hundruðum á ári? Eru mörg hundruð eða þúsundir ferðamanna, samankomnir á tiltölulega litlum svæðum góð staða, t.d. hjá Geysi og Goðafossi? Getum við tekið við 3-4 milljón erlendum gestum á ári (2026?) eða 8 milljón 2040 (sjá langtímalíkan ISAVIA)? Spurningar sem þessar eru ekki akademískar heldur blákaldur veruleiki af því að ferðaþjónustan er stór í sniðum og stefnir til sjálfbærni.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður VG.